09.10.1946
Efri deild: 14. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (201)

2. mál, ráðstafanir í sambandi við skilnað Íslands og Danmerkur

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Fyrst í nál. á þskj. 61 er ljóst, hvað um er að ræða. Ákvæði 1. gr. eru eðlileg, svo sem hv. 10. landsk. tók fram. En það er margt fleira, sem um þarf að semja. Ég hef rætt við hv. 10. landsk. um annað stórmál, en við komum okkur saman um að hreyfa því ekki nú, til að tefja ekki þingstörf, en það mál er svo stórvægilegt, að eigi er gerlegt að ljúka samningum nema það hafi verið gaumgæfilega rætt.

Ég vildi nú spyrja, hvort eigi væri gerlegt að fresta þessu máli, því að hv. n. hefur látið á sér skilja, að æskilegt væri, að mál þetta væri leyst á annan hátt, enda eðlilegt, því að langt er frá, að þetta sé góð lausn.

Mér er tjáð, að sambandslögin séu enn í gildi í Danmörku, og mun ekki vera til neitt loforð frá Dana hálfu um að fella þau niður. Meðan sambandslögin eru í gildi, hafa Danir rétt samkv. 7, gr. að fara með utanríkismál Íslands, hvernig sem þeim svo gengi það.

Hvað snertir 2. gr. frv., um rétt Færeyinga, vil ég benda á, hvort ekki sé varhugavert að samþ. það, þegar vitað er, að þeir hafa lýst yfir sjálfstæði og eru kúgaðir af dönskum fallbyssum, eins og Íslendingar í Kópavogi fyrrum. Danir hafa sent samninganefnd til Færeyinga, sem hefur neitað að ræða við Færeyinga nema um borð í herskipi í skjóli hervalds, og hafa neitað að fallast á þær kröfur, sem Færeyingar telja sig hafa rétt til.

Ég tel, að það gæti verið varhugavert fyrir Íslendinga að vera á móti Færeyingum í sjálfstæðisbaráttu þeirra. Tel ég rétt að fresta ákvörðun um þetta þar til séð verður, hvort Færeyingar halda rétti sínum eða ekki. Tel ég, að það sitji sízt á Íslendingum að styðja þann sterkari gegn hinum veikari.