08.10.1946
Efri deild: 13. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

4. mál, rannsóknarstofnun í búfjármeinafræði

Eiríkur Einarsson:

Ég skil það, að sumt í þessu frv., eins og það liggur fyrir, orki tvímælis, en ég er í vafa um, hvort hyggilegt sé að vísa því að nýju til menntmn. í trausti þess, að hún komist að samfelldri niðurstöðu til bóta. Annar þáttur þess, sem hv. ræðum, hafði orð á, er ekki svo margbrotinn, að ekki sýnist hægt að fela það ákvörðun d., án þess að n. fari á undan höndum um það, hvort sem hún vill fallast á það eða ekki. Það er hæpið, að n. gæti fengið þann rökstuðningsgrundvöll, sem hún þyrfti í þessu efni, svo það ætti alveg eins vel að vera hægt að átta sig á brtt., sem kæmi frá einhverjum hv. dm., t.d. hv. 10. landsk.

Um hitt atriðið, hve margir sérfræðingarnir ættu að vera hvert sinn og hver ætti að hafa ákvörðunarrétt um það, get ég sagt, að frá mínu sjónarmiði komi ýmislegt til greina. Ég er samdóma um það, að rétt sé að hafa hömlur á því, hvað margir menn verði við þetta, en þótt menntmn. þessarar d. settist á rökstóla viðvíkjandi þessu atriði, þyrfti hún eiginlega að vita svo margt, sem torvelt er að upplýsa á þessu augnabliki, því að hún getur ekki að óreyndu máli tekið ákvörðun um þetta. Í 3. gr. frv. eins og það er nú segir, að menntmrh. ákveði að fengnum till. háskólans, hve margir sérfræðingar skuli vera þar hverju sinni. Þá hefur mér dottið í hug, til þess að hafa sem beztar skorður á þessu, að láta ráðh. ákveða þetta eftir till. háskólans. Ég álít, að með þessu orðalagi væri þetta komið undir dóm læknadeildar háskólans. Þetta segi ég persónulega og hef ekki leyfi til að segja þetta fyrir n., sem ég mælist til, að málið fari ekki til aftur, heldur beri hv. dm. brtt. fram án þess að þær fari til n. Það eru lítil tök á því fyrir n. að finna gögn, sem ekki liggja jafnt fyrir, hvort sem það er menntmn. eða þd., sem fer síðustu höndum um frv. Ég held ekki, að frv. græði á því að fara til n. aftur, og vil mælast til þess, að hv. þdm. beri fram sjálfstæðar brtt., og verður þá kylfa að ráða kasti, hvernig fer.