05.10.1946
Sameinað þing: 11. fundur, 65. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

11. mál, niðurfelling herverndarsamningsins frá 1941 o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Háttvirtir hlustendur. — Ill var hin fyrsta ganga þessa máls, er það var undirbúið á bak við ráðh. Sósfl. og utanrmn., illa undirbúið og með lögbrotum, — en verst verður þó hin síðasta ganga þess, ef hv. þm. skal nú neitað um málfrelsi á þingi til þess að skila nál. og mæla með brtt. Mikils þykir nú við þurfa, ef þingsköp og þingreglur eru þannig brotnar. Ég mótmæli þessum aðferðum, svo sem ég þegar gerði í fundarbyrjun. Ég krefst málfrelsis fyrir þm. til þess að ræða þetta mál til þrautar. Nóg óhæfa er afgreiðsla þess samt, þótt ekki sé það þar að auki knúið fram í þinginu með brotum þingskapa og l.

Ef þetta samningsuppkast verður samþ. hér í dag, þá er það ofbeldið, sem ræður gerðum hæstv. Alþ., — ofbeldi Bandaríkjahers á Íslandi, því að aðeins í krafti þrásetu hans hér í trássi við lög og rétt er hægt að skapa meiri hl. á þessu þingi fyrir þessu samningsuppkasti, og íslenzka þjóðin mun aldrei skoða sig siðferðislega bundna við samning, sem þannig er til kominn.

Herverndarsamningurinn 1941 var samþykktur af umboðslausri ríkisstjórn og umboðslausu þingi í hernumdu landi undir slíkum kringumstæðum, að einn hv. þm. Sjálfstfl., Sigurður E. Hlíðar, gerði þá grein fyrir afstöðu sinni með þessum orðum :

„Þó að ég sé „idealisti“ og vilji lifa í friði við allar þjóðir, neyðist ég líklega til að vera raunsæismaður í þessu máli og beygja af. Mun ekki verða komizt hjá að gera þennan samning við Bandaríkin, því að hnífurinn er á barka okkar. Þessi ríki hafa ráð okkar í hendi sér og geta bannað alla flutninga til landsins. Þau geta komið í veg fyrir það, að við getum flutt einn fiskugga úr landi, og stefnt þannig fjárhag okkar og lífi í hættu. Ég sé því ekki, að komizt verði hjá að samþykkja þetta, og mun því ekki greiða atkv. á móti þessu, þó að ég héldi í fyrstu, að ég mundi gera það, og getur meira að segja verið, að ég greiði beinlínis atkv. með málinu, þó að ég geri það nauðugur.“

Þannig mælti Sigurður E. Hlíðar árið 1941. Nú hefur meira að segja þessi herverndarsamningur verið rofinn á oss, og í krafti þess samningsrofs á að knýja fram nýjan samning. Þjóðin hefur nú beitt öllu því áhrifavaldi, sem hún hefur nú eftir, fyrst hún lét blekkja sig við síðustu kosningar til þess að gera þá flokka, er nú vilja selja á leigu dulbúnar herstöðvar, svo sterka sem raun ber vitni um. Þjóðin hefur mótmælt almennar og skarpar en nokkru sinni fyrr, mótmælt með öllum löglegum aðferðum, allt frá voldugum mótmælafundum til fyrsta allsherjarverkfallsins í Rvík. Hún hefur einbeitt þessum mótmælum á eitt: að þetta uppkast verði ekki samþykkt, nema þjóðaratkvæðagreiðsla komi til.

Hæstv. forsrh. lýsti yfir því, að hann hefði ástæðu til að ætla, að hann hefði þjóðarvilja að baki sér í þessu máli, vegna þess að skipverjar á Súðinni væru með honum. Ef hæstv. forsrh. trúir þessu, hvers vegna vill hann þá ekki láta þjóðaratkvgr. skera úr? Fullyrðingar hjálpa ekki í þessu máli. Aðeins reynslan sjálf, reynslan í þjóðaratkvgr., getur skorið úr þessu. Vér skorum á hæstv. forsrh. að leggja þetta mál undir dóm þjóðarinnar.

Þjóðaratkvgr. er í stjskr. vors unga lýðveldis eina atriðið, auk þjóðhöfðingjakjörsins, sem í lýðræðislegu tilliti skilur stjskr. lýðveldisins Íslands frá stjskr. konungsríkisins Íslands. Þjóðaratkvgr. er í stjskr. lýðveldisins, jafnhliða kosningunum, viðurkennd sem æðsta form lýðræðisins, æðra en þingið sjálft. Stjskr. gerir ráð fyrir því, að þingið geti verið í andstöðu við þjóðarvilja og skuli þá þingræðisformið víkja, en fullkomnara lýðræðisform þjóðaratkvgr. ráða. Forseta lýðveldisins er fengið það vald af þjóðinni að gæta þess réttar hennar gagnvart þinginu. Og því er hann hafður þjóðkjörinn, en ekki þingkjörinn. Og þess vegna er honum líka fengið það vald að geta neitað l. um staðfestingu með því að skjóta þeim undir þjóðardóm í þjóðaratkvgr., og skulu þau þá falla úr gildi, ef felld eru af þjóðinni.

Nú hefur forseti formlega séð máske ekki slíkt vald um þáltill., og tel ég þó efasamt, nema hann hafi það raunverulega samkv. stjskr., en samningur sem þessi verður ekki fullgerr af Íslands hálfu með þáltill. einni saman, heldur þarf til þess l., t.d. um skattfrelsi ameríska starfsliðsins. Beiti forseti skírskotunarvaldi sínu um slík l., þá er hann í skýlausum rétti gagnvart stjskr. L. um þetta skattfrelsi átti að bera fram á þingi samtímis þessu samningsuppkasti. Það er ekki gert. Slíkt er lögleysa. Er það máske gert til þess að hindra möguleikann á því, að forsetinn geti notað vald sitt til þjóðaratkvgr.?

Ég vil því vekja eftirtekt þeirra, sem nú mæla með samþykkt uppkastsins, á því, að með því taka þeir á sig skuldbindingu um lagasetningu, en þá lagasetningu er Alþ. alls ekki einfært um. Ef þeir •samþykkja að láta hæstv. ríkisstj. undirskrifa svona samning án slíkrar lagasetningar, eru þeir að skuldbinda íslenzka ríkið án þess að hafa lagalegt vald til þess. Fyrst eftir slíka lagasetningu og eftir að forseti hefur samþykkt hana eða þjóðardómur staðfest hana, ef forsetinn lætur þjóðaratkvgr. fara fram, þá væri lagalega hægt fyrir ráðh. að undirskrifa svona samning. Það er því lagalega séð ekki hægt að ganga frá samningi þessum nema forseti hafi haft tækifæri til þess að láta þjóðina dæma, ef hann vill. Og það er siðferðislega séð óhæfa af hv. Alþ., ettir þau loforð, sem þingflokkarnir gáfu í síðustu kosningum, að afgreiða þetta mál án þess að leggja það undir þjóðaratkvgr. Aðeins þeir, sem óttast lýðræðið, geta verið á móti þjóðaratkvgr. Aðeins þeir, sem vilja misnota þingræðið á móti þjóðinni, eftir að hafa komið sér inn á þingið með blekkjandi yfirlýsingu, aðeins slíkir geta verið á móti því að leggja þetta stórmál — mesta hitamál, sem upp hefur komið á Íslandi í áratugi — undir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvgr. Þess vegna legg ég til, að þjóðaratkvgr. fari fram um samning þennan, ef hæstv. Alþ. ber ekki gæfu til að fella hann.

Hv. 10. landsk. þm., Bjarni Benediktsson, mótmælti því, að Keflavíkurflugvöllurinn væri herstöð. Ég sýndi fram á það í nál. mínu, sem mér er meinað að gera grein fyrir, að „þessi samningur skapaði Bandaríkjunum tæknilega möguleika til árásar á meginland Evrópu, og hefur því gildi fyrir þau sem möguleg og dulbúin herstöð, hvenær sem þau kysu að hagnýta hann þannig“. Nú hefur Sjálfstfl. lýst yfir því, að hann sé andvígur herstöðvum hér á friðartímum. Í þeirri yfirlýsingu liggur, að hann sé ekki andvígur herstöðvum hér á ófriðartímum. Með ítökum Bandaríkjanna á Keflavíkurflugvellinum, er þau fengju með þessum samningi, hafa þau raunverulega herstöð tilbúna, ef þau vilja hefja ófrið. Og yfirlýsing Sjálfstfl. felur ekki í sér, að flokkurinn sé andvígur slíkri herstöð á ófriðartímum. M.ö.o., Bandaríkin fengju hér stöð, sem er orðin herstöð til árása á sömu mínútu sem þau vilja hef ja ófrið, ef samningurinn þá enn er í gildi. Er það þetta, sem Sjálfstfl. vill og dylur undir loðnum yfirlýsingum sínum?

Þá minntist hv. 10. landsk. á, að skattfrelsi og tollfrelsi Bandaríkjamannanna væri smáræði. Í áliti hv. meiri hl. er gert ráð fyrir, að Bandaríkin geti t.d. falið flugfélagi þessi störf. Þá þýðir þetta ákvæði skattfrelsi fyrir slíkt amerískt auðfélag. Það er ekkert smáræði. Ísland ætti að gjalda varhuga við að opna þannig hlið sín fyrir ameríska dollaravaldinu.

Hv. 5. landsk., Stefán Jóh. Stefánsson, talaði hér af miklum fjálgleik um, hvílíkur lýðræðisflokkur Alþfl. væri. Heyr á endemi! Alþfl. er eini flokkurinn á Íslandi, sem, þegar hann hefur ráðið yfir fjölmennustu samtakaheild íslenzkrar alþýðu, hefur afnumið lýðræðið í þeim samtökum, komið á algeru flokkseinræði í þeim og bannað öllum þeim að neyta kosningarréttar síns, sem voru á annarri skoðun en hann. Blað Alþfl. er eina blaðið á Íslandi, sem hefur heimtað heila flokka og blöð þeirra bönnuð og jafnvel unnið að því að fá slíku banni framgengt með íhlutun erlends hervalds. Lýðræðisást hv. 5. landsk. þm. og virðing leiðtoga Alþfl. fyrir málfrelsi, meira að segja hans eigin manna, birtist nú í því að neita þeim hv. þm. Alþfl., sem eru andstæðir þessu samningsuppkasti, um málfrelsi í þinginu, neita þeim um möguleika til þess að ræða sínar eigin brtt. Svo talar foringi þessa flokks fullur helgislepju um lýðræði og er á sama augnabliki að neita íslenzku þjóðinni um fyllsta lýðræði: þjóðaratkvgr. Slíkt tal er hræsni, þegar verkin eru í svo hrópandi mótsögn við orðin. Enda blöskrar nú eigi aðeins almennum fylgjendum Alþfl. framferðið, heldur meira að segja frambjóðendum hans og þm. Sigurbjörn Einarsson dósent, fjórði maðurinn á lista Alþfl., sagði nýlega í ræðu um afstöðu StJSt & Co. til þessa samnings: „Ég verð að segja fyrir mig, að ég hafði til annars ætlazt af þeim hv. þm., sem ég studdi til þingsetu, og miklu fleiri þm. raunar líka,“

Stefán Jóh. Stefánsson sagði, að þessi samningur væri í samræmi við vilja og hagsmuni Norðurlanda. Þetta er ósatt. Í einu af íhaldssamari blöðum Kaupmannahafnar er beinlínis sagt um þetta mál: „Mál þetta hefur ekki aðeins hina mestu þýðingu fyrir íslenzku þjóðina, heldur Norðurlöndin öll, þar sem samningsuppkastið er hið fyrsta af sinni tegund, sem fram hefur komið, og mun því vafalaust hafa víðtækar afleiðingar fyrir hin Norðurlöndin.“ Norrænu þjóðirnar óttast afleiðingarnar af þessum samningi og eru andvígar honum. Og ef einhver vafi er á afstöðu þeirra, hví þá ekki að spyrja stjórnir þeirra áður? Einhvern tíma hefði Stefán Jóh. Stefánsson verið fús á að heyra álit t.d. Per Albin Hansons um svona mál. En hví skal nú þegja, þegar mest liggur víð? Er máske Svíþjóð orðin of austræn í augum þeirra, sem nú vilja draga hólma vorn í vestur?

Hæstv. samgmrh., Emil Jónsson, sagði, að Sósfl. vildi einangra landið. Því fer fjarri. Sósfl. hefur unnið að því, að Ísland fengi sem bezta samninga við hverja þá þjóð, sem vér höfum skipti við. Alþfl. hefði helzt ekki átt að minnast á sænska samninginn. Hann var sannarlega ekki fyrirmynd, eða hví treystist hæstv. ríkisstj. ekki til þess að senda samningamennina aftur út til samninga við Svía næsta ár? Sósfl. vill vinna að vináttu Íslands við allar aðrar þjóðir. Hann álítur hins vegar hvorki vináttu né víðskiptasambönd við neina þjóð hefta málfrelsi sitt um stjórnendur hennar. Ef stjórnendur vinveittrar þjóðar fremja ódæði, þá eiga þeir, að okkar áliti, eins og Stephan G. sagði forðum :

„helga heimting á

um höfuðglæp sinn níð að fá“.

Hinu almenna kommúnistaníði þessara herra mun ég ekki svara frekar venju. En það gefur ef til vill nokkra hugmynd um tilgang þessara herra með samningi þessum, að hæstv. dómsmrh. (FJ) Iýsti yfir því við fyrri umr. þessa máls, að til átaka drægi milli hins volduga auðmannastórveldis Vesturheims og alþýðuríkjanna á meginlandi Evrópu, og kvað ekki seinna vænna, að Íslendingar tækju afstöðu. Slík túlkun þessa samnings er bein fjandskaparyfirlýsing gegn ríkjunum á meginlandi Evrópu. Úlfshárin gægjast fram undan sauðargæru þessa samnings. En slík rök af hálfu fylgjenda samningsins benda beinlínis til þess, að þeir, sem þau nota, séu nú þegar í vitorði með þeim aðilum, sem kynnu að hugsa sér að misnota lendingarréttinn til skyndiárása á Evrópu, er þeim þætti tími til kominn.

Hv. þm. Snæf., Gunnar Thoroddsen, talaði um, að bezt væri að sætta ágreining með samningi, sem ef til vill leiðir til nýs ágreinings, — frekar en fara í gerðardóm eða kæru. Skilur hv. þm. ekki, að með þessu móti hvoru tveggja er fullveldi voru í hættu stofnað? Vér verðum ekki einráðir um það, sem gerist á íslenzkri grund, heldur eigum undir dóm erlendra aðila að sækja. Kúgunarskjalið Gamli sáttmáli varð líka réttindaskrá Íslands, af því að mennirnir, sem sömdu hann, gættu þess, þótt þeir væru að gefast upp, að áskilja sér og niðjum sínum þann rétt að vera lausir allra mála, ef konungur héldi eigi trúnað við landsmenn. Því hafa þeir sleppt, er þetta uppkast skráðu.

Hv. 10. landsk. þm. talaði hér áðan um vináttu við Bandaríkin. Munið þið, hver skilaboð Þórarinn Nefjólfsson flutti forðum daga? Hann kvað Ólaf konung vilja, að konungur og Íslendingar væru „hvorir annarra vinir til allra góðra hluta“, og svo sagði hann: „Það fylgir kveðjusending konungs, að hann vill beiðast í víngjöf af Norðlendingum, að þeir gefi honum útsker, er liggur fyrir Eyjafirði og menn kalla Grímsey.“ Og Guðmundur ríki svaraði: „Fúss er ég til vináttu við Ólaf konung, og ætla ég mér það miklu meira til gagns en útsker það, er hann beiðist til.“ Svona var líka talað um vináttu þá. Og vér höfum verið stoltir af því í 9 aldir, að einn þjóðskörungur vor og alþýða öll skuli hafa skilið, hvers konar vinarboð var boðið. Það er þá hvort tveggja, að vér eigum nú engan slíkan skörung á þingi sem þá, og svo hitt, að alþýðu lands er meinað að ráða í þessu máli, ef fulltrúar sjálfrar söguþjóðarinnar, nýfrjálsir úr 7 alda kúgun, samþykkja það uppkast, sem hér liggur fyrir. En Íslands óhamingju verður þá allt að vopni, ef fyrsta þingið, sem íslenzkt lýðveldi hefur kjörið, ber ekki einu sinni gæfu til þess að leyfa þjóðinni að dæma um afdrifaríkasta stórmálið, sem fyrir þingið hefur komið um langan aldur.

Hæstv. menntmrh. hefur þegar lýst yfir því fyrir hönd Sósfl., að verði þetta samningsuppkast samþ. af samstarfsflokkum hans í ríkisstj., þá sé grundvöllur stjórnarsamstarfsins rofinn — og það af þeim. Ef þetta uppkast verður samþykkt, mun því Sósfl. krefjast þess, að stj. segi af sér, þing verði rofið og nýjar kosningar látnar fara fram, svo að þjóðin fái sjálf tækifæri til þess að skapa sér meiri hl. hér á þingi, sem vill standa vörð um sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar og halda áfram nýsköpunarstefnunni í atvinnulífinu. Ef eigi verður orðið við þeirri kröfu vorri, krefjumst vér þess, að þessi ríkisstj. öll segi af sér og Alþ. fái tækifæri til þess að mynda nýja stj. Sósfl. er ekki að hlaupast á brott frá ábyrgð á því að stjórna þessu landi, með því að reyna að knýja nú fram lausnarbeiðni þessarar stj. Sósfl. mun þvert á móti stuðla að því af ýtrasta mætti að mynda nýja ríkisstj., er standi vörð um heill og hag þjóðarinnar og haldi nýsköpunarstarfinu áfram, róttækar og betur en fyrr. Verði eigi heldur orðið við þeirri kröfu vorri, að ríkisstj. beiðist öll lausnar, þá munu ráðh. Sósfl. biðjast lausnar.

Sósfl. hefur nú gert allt, sem í hans valdi stendur, til þess að hindra samþykkt þessa samnings. Ef allt um þrýtur og þessi samningur nú verður samþykktur, svo þokkalega sem til þess samþykkis er stofnað; og þjóðinni meinað að fella hann í þjóðaratkvgr., þá skorar Sósfl. á þjóðina að láta þann helga eld réttlátrar reiði, er nú brennur í hjörtum hennar yfir þeim aðförum, sem nú eru hafðar í frammi — ekki kulna, heldur taka upp markvissa baráttu gegn frekari ágengni gagnvart þjóð vorri með það fyrir augum að hrinda þessum smánarsamningi af höndum vorum, þegar þjóðin fær næst tækifæri til að dæma. Forfeður vorir töldu ekki eftir sér að berjast í 700 ár fyrir að ná fullu frelsi lands vors eftir að Gamli sáttmáli var gerr. Íslendingar! Vér skulum ekki telja eftir oss, ef vér bíðum ósigur í dag, að berjast í 5 ár til þess að hindra frekari ágang á land vort og fella þennan samning úr gildi.