19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

214. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins o. fl.

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson) :

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu n. Það varð þá að samkomulagi að taka aftur eina brtt. n. til að leita samkomulags við flm. brtt. á þskj. 867. N. hefur nú gert sínar brtt., eða yfirfarið fyrr nefndar brtt. réttara sagt, og gert við þær nokkrar breytingar.

Viðvíkjandi 1. brtt. á þskj. 867 þá getur n. fallizt á hana, hún er að efni til samhljóða till., er n. bar fram og dregin var til baka. Viðvíkjandi 2. brtt. telur meiri hl. n., að hann geti ekki gengið að henni eins og hún liggur fyrir frá flm., með því að meiri hl. lítur svo á, að hún sé brot á ákvæðum. sem gilt hafa, og mundi sprengja það fyrirkomulag eða samkomulag, sem gert hefur verið, ef hún kæmi til framkvæmda. Á hinn bóginn gengur n. til móts við þessa till. og leggur til að veita þá heimild, sem um er beðið, en allmikið takmarkaða, m. ö. o. að bæjarfélag fái slíka undanþágu með barnamjólk, sem framleidd er á mjólkurbúum, sem eru með öllu í eigu viðkomandi bæjarfélags og innan lögsagnarumdæmis þess, en það er sá rammi, sem farið hefur verið eftir undanfarna áratugi. Jafnframt leggur meiri hl. n. til, að ef bæjarfélag framleiðir það mikla almenna neyzlumjólk, að algerlega sé fullnægt mjólkurþörf bæjarbúa, þá þurfi það ekki að leita samþykkis framleiðsluráðs eða samsölustjórnar. N. fellst á, að réttmætt sé að samþykkja 3. brtt. á þskj. 867, enda er það í samræmi við áður gerða till., og 4. lið getur n. fallizt á, en telur nauðsynlegt að bæta við till. í því skyni að tryggja rétt mjólkurframleiðenda, þar sem héraðslækni eða mjólkureftirlitsmanni, er dæma sölumjólk óhæfa til neyzlu, er gert að skyldu að leggja fram skilríki fyrir réttmæti þess úrskurðar. Það gildir sitt hvað um mat á mjólk og kjöti. Ef kjöti er kastað frá, er það til sýnis, og menn geta séð og gengið úr skugga um skemmd þess. En þetta er nokkuð öðruvísi um mjólk, hún getur breytzt á skömmum tíma í vondri geymslu, þótt það verði ekki almennt séð, en til þess að tryggja, að hún verði ekki úrskurðuð af handahófi, telur n. rétt, að viðkomandi matsaðilar leggi fram skilríki fyrir því, á hverju úrskurður þeirra byggist, svo að hægt sé að sannprófa, hvort sá úrskurður sé réttur. Þetta má teljast eðlilegur hlutur, og að öðru leyti er n. ásátt um brtt. þeirra flm. á þskj. 867. En auk þess hefur meiri hl. hennar borið fram brtt. við 5. gr. á þskj. 894. þar eð hann lítur svo á, að í hana vanti ákvæði, sem hægt sé að grípa til, ef svo færi, að einhver aðili neitaði að tilnefna fulltrúa í verðlagsráðið, og er því lagt til í þessari till., að landbrh. hafi rétt til að fela öðrum samtökum framleiðenda eða neytenda að tilnefna menn í þeirra stað, sem ekki fást tilnefndir af þeim samtökum, sem talin eru upp í greininni. Ég hygg, að menn séu sammála um, að þetta sé sjálfsagt og eðlilegt ákvæði. Ég skal svo ekki ræða þetta mál meira að sinni. Ég gerði grein fyrir afstöðu n. við fyrri umr. hér og sé ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því og það því síður, sem ég veit, að nú er svo komið, að samkomulag hefur náðst.