19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

255. mál, eignakönnun

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það er ekki neinn efi á því, að hæstv. fjmrh. á tök á því að flytja mál betur og af meiri rökvísi, ef rök eru fyrir hendi, heldur en hann flutti mál sitt nú. Og það, að hann heldur hverja ræðuna af annarri, þar sem ekki örlar á rökum, það sýnir að eitthvað er þungt og erfitt fyrir, og gefur manni þá hugmynd, að þessi smíð, sem hér liggur fyrir, sé jafnvel verr gerð heldur en virðist hafa verið við fyrstu sýn. Ráðh. hóf sína ræðu á því, að það væri auðséð, að mér og flokksbræðrum mínum fyndist í frv. stefnt að einhverjum, sem væri við stjórnarandstöðuna riðnir. Er það nú málfærsla! Það kann að vera nokkuð samgróið honum að hugsa þannig, að löggjöf eigi að móta eftir því, hverjir séu í það og það sinnið við andstöðuna riðnir. Kannske er það þess vegna, að hann hefur lagt úrslitavaldið í sínar hendur. En ég vísa þeim hugsunarhætti algerlega frá mér, að ég taki afstöðu til málsins á þeim grundvelli, að það komi sér vel eða illa fyrir einhverja persónulega. Það kemur ekki málinu við. Ég hafði tekið dæmi af manni, sem hefði lagt vinnu í byggingu, og væntanlega gæti svo farið, að hann yrði stimplaður skattsvikari. Og þar hugsaði ráðh., að þar væri maður við andstöðuna riðinn, sem ég vildi hlífa. Ég sagði áðan, að ef maður ynni nú nótt með degi að því að koma yfir sig húsi og hefur með því verið að vinna þjóðnýtt starf, ætti hann að telja sér til tekna allar eftirvinnustundir og næturvinnustundir, sem hann hefur fram lagt. Nú er sannleikurinn sá, að það er mikill fjöldi manna hér í þessum bæ, sem með þessum hætti hefur byggt sér íbúðir. Þær eru enginn „lúxus“ né íburður, en þó dýrar. Og ef verkamaður, sem með frábærri elju hefur komið upp íbúð, sem kostar 60–80 þús. kr., með því að vinna nótt og dag, ef honum hefur láðst að telja fram sínar eftirvinnu- og næturvinnustundir í húsinu, þá kemur misræmi milli framtals og eignar. Og það er enginn munur fyrir þennan mann að sleppa við skattsvikarastimpilinn en mundi fyrir mann, sem lánaði okurfé, fyrir alla, sem eiga verðbréf og peninga, þó að þeir hafi ekki talið fram. Og ég sagði, að menn, sem hafa unnið þjóðnýta starfsemi, eigi sízt skilið að verða verr úti en okrarar, sem lána þeim peningana.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég ausi sig auri. Ég neita því algerlega. Ég hef sagt frá staðreyndum, sem hann mótmælti ekki einu orði, og ef hann fær á sig aur af þessum ummælum, þá eru það hans eigin verk, sem ausa auri, en ekki ég. (Fjmrh.: Ég hef ekki svo mikið við að svara þessum hv. þm.). Þetta var prýðilegt framígrip. Þetta eru öll rökin hjá hæstv. fjmrh. En verkin tala hærra, og má vera, að þau ausi hann auri, ég geri það ekki. Ég hef aðeins skýrt frá staðreyndum, það er ekkert sjúklegt við það, en það er sýki í því þjóðfélagi, sem lætur sér sjást yfir slíkt, sem ég hef nefnt, og það með menn í hans stöðu. Það er gömul saga, að í óáran hafi þjófar verið frómir taldir, og það var þá líka virkileg óáran. En það vill oft til, að sagan endurtekur sig og að sekir séu saklausir taldir. (Forseti: Þessi ummæli eru nú svona og svona. Ég kann illa við, að ræðumaður sé að beina því til hæstv. fjmrh., að þjófar séu sýknir taldir) Ég sagði ekki, að þjófar væru sýknir taldir.

Ég hafði gaman af gamalli sögu, er hæstv. forsrh. var að rifja upp í útvarpsumræðu um daginn, þegar hann sagði, að hann hefði vitað mig manna fégráðugastan, á meðan ég var í Alþfl. Upphaflega voru þessi ummæli eftir hv. þm. G-K., og þykir mér leiðinlegt, að hann skuli ekki vera hér við. Hann hafði fyrst þau ummæli um hv. þm. Ísaf., að hann væri gráðugasti maðurinn í gráðugasta flokknum, en síðan þótti honum gaman af að snúa þessum ummælum upp á mig á framboðsfundum. En út af orðum hæstv. forsrh. um mína fégræðgi vil ég, að hann nefni dæmi, nefni eitt einasta dæmi um, að ég hafi knúið á um fé í Alþfl. Og í sömu útvarpsræðu vildi forsrh. neita því, að hann væri heildsali, — en er það ekki staðfest í lögbirtingablaðinu 7. sept. 1945? Vill hann afneita því?

Ég skal svo ekki reyna meira á þolinmæði hæstv. ráðh., en láta mér nægja að tala um staðreyndir.