19.05.1947
Neðri deild: 132. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

255. mál, eignakönnun

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði, að hæstv. forsrh. gat ekki borið af sér, að hann væri heildsali, því að sannleikurinn er sá, eins og ég hef lýst yfir og allir vita, að hann er heildsali, og læt ég svo útrætt um það mál. En ég lýsi það ósatt, að ég hafi sótzt eftir þeim stöðum, er hann nefndi.

Það var gott fyrir hæstv. fjmrh. að fá stuðning frá hv. þm. Ísaf., en sá þm. var að enda við að segja, að ég ataði hæstv. ráðh. og aðra þm. daglega auri. Þetta er ekki satt. Hvað hef ég sagt? Ég hef aðeins sagt það, sem satt er, að firma, sem ráðh. er einn aðaleigandinn í, liggur undir kæru fyrir að hafa dregið sér óleyfilega fé undan skatti. Ef einhver gæti leitt líkur að því, að þetta væri ekki satt, þá væri hægt að segja, að ég ataði auri og væri með dylgjur, en það geta þessir menn ekki. Sannleikurinn er sá, að ég te1 óviðurkvæmilegt, að maður, sem liggur undir slíkum grun eða kæru, skuli eiga að framkvæma eignakönnunina. En ef þm. geta sannað mér, að það sé ekki satt, sem fyrr nefnt fyrirtæki hæstv. fjmrh. er sakað um, þá tek ég það til baka, sem ég hef sagt í því sambandi.