22.05.1947
Neðri deild: 137. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

255. mál, eignakönnun

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gat þess í minni ræðu, að það væri öllum ljóst, að fyrrv. stjórn hefði verið alveg áhugalaus um það að ná til þeirra, sem væru brotlegir í sambandi við skattaframtölin á liðnum árum, og koma þar við nokkurri leiðréttingu.

Nú hafa tveir fyrrv. ráðh. fundið ástæðu til að ræða um þetta. Hv. þm. Ísaf. (FJ) kom fyrr fram og staðfesti þetta. Hann sagði, að það hefði ekki komið í ljós fyrr en á s. l. hausti, að erfitt væri að fá fé til nýsköpunarinnar. M. ö. o., það þurfti ekki að eiga við þetta fyrr en það vantaði fé til nýsköpunarinnar. Sami skilningur kom fram hjá hv. þm. Siglf. (ÁkJ). Hann staðfesti jafnvel enn betur áhugaleysi fyrrv. stjórnar í þessu máli, því að hann hefur ekki vikið að því einu orði, að hann eða hans flokkur hafi flutt nokkra till. um þetta. Það er áreiðanlegt, að þessi þm. hefði ekki farið að dylja það fyrir þingheimi, ef hér hefði verið um einhverja till. að ræða, enda ekki annað hægt að heyra á þeim sósíalistum en að gefa eigi skattsvikurum upp allar sakir. Þetta er svo staðfest í ræðu fyrrv. ráðh. og játað af honum, að ég hafi farið með rétt mál, þegar ég segi, að ríkt hafi hjá fyrrv. stjórn fullkomið áhugaleysi um þessi mál. Hv. þm. Siglf. ætti því, þegar hann athugar þetta, að tala sem minnst um aðgerðir eða aðgerðarleysi annarra manna í þessu máli. Hv. þm. Siglf. gerði mikið úr því, að ég hefði sagt í minni ræðu, að það ætti að sleppa þessum framtölum til næstu áramóta, til þess að menn slyppu við sérstök framtöl. Hann sagði, að það gæfi stórgróðamönnunum tækifæri til þess að sleppa undan sérstökum framtölum. En hvað má segja um till. þessa þm. um frávísun málsins? Ekki fá þeir minni tækifæri með þeirri till. Þeim er þar gefið betra tækifæri en með minni till. Hann segir, að það sé erfitt að koma með till. við frv. eins og þetta. Ég sá ekki þetta frv. fyrr en síðdegis í dag, en hann hefur haft það til athugunar í marga daga og þrátt fyrir það ekki komið með neina till. Þetta sýnir betur en nokkuð annað áhugaleysi hans og flokksbræðra hans. Þetta eru náttúrlega ekki miklir garpar, en þó veit ég það, að þeir hefðu getað flutt brtt. við þetta frv. á 3–4 dögum, ef þeir hefðu haft nokkurn áhuga á að koma málinu í heilbrigt horf.

Hv. þm. Ísaf. var að tala um þær miklu framkvæmdir, sem gerðar hefðu verið, og þegar hann kom inn á það, hvernig ástandið hefði verið s. l. haust, fer hann að tala í dæmisögum og fór að tala um mann, sem hefði yfirdregið reikning sinn í banka. Þetta er sú bezta lýsing á viðskilnaði fyrrv. stjórnar, sem ég hef heyrt, enda gefin af manni, sem er þessu þaulkunnugur og því óhætt að byggja á ummælum hans.

Þá eru það nokkur orð til hv. 6. þm. Reykv. Hann endaði ræðu sína á því að undirstrika, að þetta mundi hafa slæm áhrif á allt okkar viðskiptalíf, enda er frávísunartill. í samræmi við þá skoðun. Hann sagði, að ég byrjaði ræðu mína alltaf á því sama, að þetta eða hitt hefði átt að gera, á meðan þeir sósíalistar voru í stjórn. Ég held, að þessu sé vikið við. Ég hef stundum minnzt á, hvernig hlutirnir voru, á meðan þeir voru í stjórn, einmitt í sambandi við till., sem þeir hafa borið fram, síðan þeir fóru úr stjórninni.

Síðan talaði hv. 6. þm. Reykv. í ræðu sinni um hina hrópandi rödd frá Hvammstanga, og endurtók hann þetta oft. En mætti ég spyrja, hvar er hin hrópandi rödd Sósfl. í þessum skattamálum? Í þeirri eyðimörk heyrist engin rödd um að færa þetta í betra horf, og hef ég hugmynd um, af hverju það muni stafa, að þessi flokkur hefur ekki þorað að flytja eina einustu till. í sambandi við þetta frv., aðra en að vísa því frá. Ég býst sem sé við, að þeir óttist það, að þeir geti ekki búið til neinar till. í málinu, nema þær, sem einhverjir af þeim mönnum, sem þeir vilja eiga vingott við í þjóðfélaginu, geta orðið óánægðir með.

Síðan fór hv. þm. að tala um það ástand, sem samvinnufélögin ættu við að búa um innflutningsmál, þótt það að vísu snerti ekki beinlínis þetta frv. En hvað var gert í þessum málum í tíð fyrrv. ríkisstj? Hv. þm. veit það vel, að aldrei hefur verið eins illa búið að þessum félagsskap eins og á þeim tíma sem hans flokkur var í ríkisstj., og ég held, að það hafi borið ákaflega lítið á hinni hrópandi rödd hv. 6. þm. Reykv. og annarra hans flokksbræðra á þessum árum um þau mál.

Í lok ræðu sinnar lét hv. þm. nokkur orð falla, sem voru mjög viðeigandi af manni með hans menntun. Hann sagði, að tími væri kominn til fyrir alla rétt hugsandi menn að sameinast, en því er því miður þannig varið, að hans flokkur hefur fyrr og síðar neitað samstarfi — bæði um samvinnumál og yfirleitt öll önnur málefni þjóðfélagsins — við okkur framsóknarmenn og samvinnumenn í landinu. Þetta er hin raunalega reynsla í þessum efnum. — Eins og ég hef vikið að áður, þá heyrðist þessi rödd, sem nú heyrist frá hv. 6. þm. Reykv., alls ekki á þeim árum, sem flokkur hans var í ríkisstj., og sú rödd, sem nú heyrist frá honum í þessu skattamáli, sem hér liggur fyrir, er aðeins um það að vísa málinu frá. En það er röddin frá Hvammstanga, sem honum er tíðrætt um.

Heyrist í sölunum Hvammstangarödd, er hollráð um skattamál segir.

Hún er til sóknar í síðdegi kvödd, en Sigfús í Reykjavík þegir.