22.05.1947
Efri deild: 141. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

255. mál, eignakönnun

Brynjólfur Bjarnason:

Þar sem málið mun verða tekið fyrir og vísað til fjhn. að lokinni þessari umr., mun gefast þar tækifæri fyrir mig til að taka afstöðu til málsins og gera grein fyrir þeirri afstöðu. Ég álít, að málinu eigi að vísa aftur til ríkisstj., til þess að hún undirbúi og beri fram annað frv., betur undirbúið og sem betur nær tilgangi þeim, sem ætlazt er til, að það geri, og er réttlátara en þetta. Í Nd. hafa menn gert grein fyrir máli sínu, þar sem allir ekki aðeins tala um meinlega galla á frv., heldur einnig um stóra galla á því. Um þetta mál hefur verið rætt mikið í Nd., og var það hæstv. fjmrh., sem var formælandi ríkisstj. Ráðh. fór að skýra okkur frá þessum umr. Hann sagði okkur frá því, að andstaða frv. hefði haldið því fram við 1. umr., eins og hann sagði, að þeir, sem lagt hefðu fé í hús, mundu fara illa. En svo við 2. umr., að þeir mundu sleppa vel. Ráðherrann ætlast til, að við trúum þessu. Ég held, að ráðh. hafi farið illa úr þessari umr. Svo kemur hann til okkar og segir okkur frá þessu, og ekki rétt, að ég hygg. Ég býst við, að á það hafi verið bent, að verkamenn, sem komið hafa sér upp húseign, m. a. í eftirvinnu, verða gerðir skattskyldir og falli undir eignakönnun. Svo hefur enn fremur verið á það bent, sem er annað mál, að ýmsir menn, sem lagt hafa fram fé í fyrirtæki, fari alveg prýðilega út úr því. Ég hygg, að á móti því verði ekki mælt með rökum. Ráðh. sagði, að Sósfl. hefði áður haft áhuga á eignakönnun, en svo engan. Já, það er satt. Sósfl. hefur engan áhuga á svona eignakönnun, eins og hér er flutt í þessu frv. Mér fannst í einu orði sagt ræða hæstv. ráðh. þannig, að hún væri mælt fyrir þessu máli miklu frekar af skyldu en að hann hefði neitt fram að færa til þess að rökstyðja frv. neitt, sem benti til þess, að hann hefði nokkurn áhuga fyrir þessu frv., að það hefði verið gert frekar af vilja en mætti. Það er alveg rétt, að við sósíalistar viljum eignakönnun, sem framkvæmd yrði með öðrum hætti en hér er gert. Hitt er sönnu nær, að frv. sé flutt til þess að koma í veg fyrir, að eignakönnun fari fram. Það er alveg rétt, sem hv. þm. N-M. sagði, að réttara væri að kalla það lög um lögleg skattsvik heldur en lög um eignakönnun. Það er til að fyrirbyggja eignakönnun, sem þetta er flutt. Það er rétt hjá hæstv. ráðh., þegar hann fer að bera málið saman við stríðsgróðabrask hjá Dönum og Norðmönnum, að áraskið er ákaflega líkt. Gróðabrask er alltaf tekið af þjóðinni. Ráðh. sagði, að tilgangur frv. byggði á, að framvegis yrðu viðhöfð rétt framtöl. Þeir, sem bezta aðstöðu hafa til að fela eignir sínar, þurfa ekki að óttast mjög um afkomu sína þrátt fyrir þetta frv. Það verður rætt um það síðar. Andinn hjá hæstv. ráðh. kom mjög greinilega fram, þar sem hann var að tala um það, hvernig frv. komi við menn, sem eiga smáfé á sparisjóðsbók, og hina, sem eiga miklar eignir. Allur almenningur, sem á fé á sparisjóðsbók, er stimplaður skattsvikarar eða verða að kaupa bréfin, og þetta gildir um þá, sem eiga smærri og stærri upphæðir.