20.12.1946
Neðri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1247 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Forsrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta í ljós ánægju mína yfir því, að hv. fjhn. hefur komið sér saman um flutning frv., sem ég að óreyndu vil vona, að leysi þá þörf, sem hér er fyrir hendi. Ég hef að sönnu mér til nokkurra vonbrigða orðið var við, að það er nokkur ágreiningur um veigamikið atriði málsins, en það er, hvort þessi ábyrgðarheimild skuli miðuð við þorskinn eingöngu eða hvort hún skuli einnig ná til síldarinnar, en það tel ég stórt atriði.

Hv. frsm., form. n., lét í ljós sína skoðun um það, að hann teldi þessum málum bezt borgið í þeim búningi, sem það er nú flutt inn í hv. d., og ég er honum alveg sammála. Hv. 3. þm. Reykv. álítur, að því er mér virðist, að sjálf hugmyndin um verðjöfnun á milli síldarafurða og þorsksins væri í sjálfu sér réttmæt, en hins vegar taldi hann nokkra hættu á ferðum að bera fram þessa hugmynd nú á þessu stigi málsins í frumvarpsformi, og þá vegna þess, að hann óttast, að ef Alþ. íslendinga lýsti yfir því, að það ætlaði sér, ef verðlag á síldarafurðum yrði hátt, að verðbæta þorskinn með afganginum af síldarverðinu, þá gæti það spillt fyrir sölu á frystum fiski. Þetta voru einu rökin, sem hann nefndi, að því er mér virtist. Ég er á öðru máli en hv. 3. þm. Reykv. um þetta atriði. Ég tel enga hættu felast fyrir okkur um sölu á frystum fiski í slíkum lagaákvæðum. Það eru allt önnur öfl, sem þar verka, það er heimsmarkaðurinn og samkeppni á milli þeirra aðila, sem vilja kaupa okkar vöru, sem þessu ræður. Við þurfum ekki að ímynda okkur, að kaupendur á afurðum okkar komi ekki auga á þann möguleika eins vel og við sjálf, og að þeir þess vegna, ef þeir teldu sig hafa aðstöðu til, mundu ekki vera reiðubúnir til þess að knýja niður verðið á hraðfrysta fiskinum með þeim rökum, að okkur væri í lófa lagið að bæta þetta verð upp með hækkandi verði á síldarafurðum.

Ég man það, að fyrir allmörgum árum var þessi sama hugsun uppi, þá létu kaupendur á íslenzkum sjávarafurðum í ljós megna óánægju yfir því, að verðlag á landbúnaðarafurðum væri verðbætt með sjávarafurðum. Og auðvitað er slík hugsun ævinlega vakandi hjá þeim, sem augum renna hingað og vilja eiga við okkur viðskipti. Svo að þessi hugmynd, þótt hún komi fram í frumvarpsformi, á ekki að hafa nein skaðleg áhrif, en ég skil þetta sjónarmið vel, en ég held áreiðanlega, að þetta sé ástæðulaus kvíði.

Það kom svo fram hjá hæstv. dómsmrh., sem er andvígur því að taka yfirleitt, hverju sem fram vindur, nokkurn skapaðan hlut af andvirði síldarafurða til að bera hugsanlegan halla af hraðfrystum fiski. Það er sjónarmið fyrir sig, og ég viðurkenni að mörgu leyti réttmæti þess, en ég álít, að önnur og stærri sjónarmið verði þyngri á metunum og ráði að lokum því, að hugmyndin, eins og hún er fram borin, eigi stoð í staðreyndum og verði happadrýgri fyrir heildina, þó að á henni séu annmarkar. Ég kýs slíkt fremur, að útgerðin fái strax að vita það, að að svo miklu leyti sem kostur er á, þá sé þessi ábyrgð meira formsatriði en veruleiki. Og ég held, að megi segja, að vonir löggjafans á þessu stigi málsins standi einmitt til þess, að útgerðin sjálf rísi undir þessu, þannig að það sé ekki tilgangur löggjafans með þessu lagafrv. að leggja í raun og veru bagga á ríkissjóðinn, heldur vaki það fyrir löggjafanum að reyna þarna málamiðlunarleið, úr því að ekki var annars kostur, ef tekizt gæti að forðast, að skipin liggi hér í höfn eftir að eðlilegur veiðitími er hafinn. Ég tel rétt, að útgerðin viti þetta frá öndverðu sjálf, og ég tel rétt, að þjóðin viti það einnig. Ég viðurkenni svo, að um árangurinn verði aldrei sagt með vissu, við vitum að sjálfsögðu ekki um endanlegar niðurstöður þessara mála, fyrr en samningar liggja fyrir. Og ég vil sérstaklega út af ummælum hv. 1. þm. S-M. taka fram, þar sem hann var að ræða um það gífurlega vald, sem ríkisstj. væri falið, þegar hún ætti að setja reglugerð um þetta, og það aðeins einn ráðh. Ég skal taka það fram, að það hefur aldrei verið tilgangur minn, að einn ráðh. ætti að ráða þeirri reglugerð, sem sett yrði um þennan væntanlega sjóð, sem myndaðist af afganginum, sem kynni að verða milli þess, sem haldið er eftir af síldarafurðum, og þess, sem kann að verða haft til þess að verðbæta hraðfrystan fisk. Það hefur alltaf verið minn tilgangur, að það verði ekki einn ráðh., sem setji slíka reglugerð, heldur ríkisstj. öll, og er það í samræmi við það, sem hv. frsm. tók fram. En ég segi, að þótt ég fyrir mitt leyti hafi látið orð falla um það, að miklu bjartara sé framundan nú en um þetta leyti í fyrra, mega menn ekki af þeim orðum marka, að öryggi sé fyrir því, að það verði, sem við í fyrra óttuðumst, að við mundum ekki geta náð, þ. e. 50 aura verðið, fyrir þann fisk, sem nú á að greiða 65 aura, og þannig hækka verðið um 30%. Ég vil, að það komi skýrt fram, að þó að ólíkt bjartara horfi nú en þá, þá voru þær horfur, að við mundum sennilega engan hraðfrystan fisk geta selt í Englandi, og þá hafði enginn viðskiptasamningur opnazt við Sovétríkin, og þá höfðum við ekki neinar fregnir af því, hvort síldarlýsið ætti að hækka úr 33 sterlingspundum eins og það var 1935. Og þótt nú horfi heldur betur en þá, þá tel ég það úr hófi bjartsýni að leyfa sér að draga þær ályktanir, að við getum verðhækkað afurðir okkar um 30% og eiga um leið margar millj. kr. í sjóði. Ég staðhæfi ekkert um það, hvað kann að vera hugsanlegt í þessum efnum, ég hef á því ekki næga þekkingu, og ég dreg í efa, að nokkur maður geti fullyrt nokkuð um það. Verð á síldarafurðum hefur ekki komizt í öruggan farveg enn þá sem komið er hvað snertir framleiðslu ársins 1947, og ekki heldur vitum við nægilega mikið um, hverjar líkur eru fyrir að selja hraðfrysta fiskinn, og eins er um saltfiskinn.

Hv. 1. þm. S-M taldi, að hér hefði sennilega verið engra aðgerða þörf, ef tekið hefði verið réttum tökum á dýrtíðarmálunum. Hér hefur nú setið 12 manna n. undanfarnar vikur, og við skulum játa, að þar hafa ekki verið nægilegar tilraunir gerðar í þessum efnum, en ég hef að minnsta kosti ekki heyrt eina, einustu till. frá hv. þm., sem nálgaðist, nokkuð þann möguleika í þessum efnum. Það er staðreynd, að undirbúningur þessa máls hefur leitt í ljós, að vísitalan þyrfti að vera 220 stig til þess að útgerðin ætti að geta borið sig með 50 aura verði. Ég hef engan undirbúning heyrt frá honum, enda ólíklegt, að vísitalan komist í 220 stig, en það eina, sem ég hef heyrt frá honum, er hvort ekki hægt að festa vísitöluna við 300. Menn tala um dýrtíðina eins og snjóbolta, sem ekki þarf annað en að kreista saman, eða harmonikkubelg, sem hægt er að draga sundur og saman eftir vild. En ég hygg, að þetta mál sé vandasamara og veigameira en að svo sé.

Það er rétt og ég er hv. þm. sammála um það, að þetta frv. er ekki nema annar hlutinn að því, sem útgerðin þarf, ef hún á að hafa vissu fyrir afkomu sinni, en það er, hvað sem líður ábyrgðargreiðslum, að vissa sé fyrir því, að dýrtíðin fari ekki upp úr öllu valdi. Þetta er alveg rétt, og mér finnst það líka, að ef hv. fjvn. með Alþ. að baki sér hafi viljað lýsa þessu sama yfir með ákvæðinu, sem felst í 9. gr. frv., sem reyndar er um að skipa n., og í því ákvæði finnst mér felast yfirlýsing Alþ. um tvennt. Í fyrsta lagi skilur Alþ., að þetta frv. nægir útgerðinni ekki nema því aðeins, að hafður sé hemill á verðbólgunni.

Ég er hv. 1. þm. S-M alveg sammála um það, að það geti vel verið — og ætti helzt að vera, svo að ég kveði fastar að —, að við verðum búnir að mynda ríkisstj. hér á Íslandi fyrir 1. febr. og tímatakmarkið fyrir hina væntanlegu n. samkv. 9. gr. frv., og þá yrði búið að gera um það samkomulag milli þeirra, sem að hinni væntanlegu ríkisstjórn standa, að reyna að hafa hemil á verðbólgunni. Það er enginn vafi á því, að allur þingheimur skilur þessa þörf, og það hefur aldrei staðið á og mun ekki standa á öðru en því, að menn eru ekki sammála um, eftir hvaða leiðum eigi að fara að þessu marki. Ég vona, að það megi takast þeim flokkum, sem standa að væntanlegri ríkisstj., hverjir sem þeir flokkar verða, og segi ég það án tillits til þess, hvort minn flokkur stendur að þeirri ríkisstj. eða ekki. Ég vona, að þeim flokkum takist að finna leiðina til þess að koma í veg fyrir aukna verðbólgu í landinu. En hins vegar veit ég líka, að þetta hefur og verið vilji Alþ., og ég veit líka, að þetta er hægara sagt en gert. En það hefði verið gaman að vita, hvað hv. 1. þm. S-M hefði átt við þegar hann sagði, að bráðum mundi verða hægt að gera þær dýrtíðarráðstafanir, sem gerðu þessa ábyrgðarlöggjöf óþarfa. Það má segja, að þessi ábyrgð sé óþörf, ef okkur tekst að selja okkar stærsta viðskiptavini aðalmagn þeirrar vöru, sem hér er um að ræða.

Ég vil gjarnan segja það, að ein ástæðan fyrir því, að menn hafa verið að bollaleggja um það að taka kúfinn af síldarverðinu, ef það verður mjög hátt, er sú, að ef verðið verður mjög hátt, mun það auka dýrtíðina í landinu, og gleymi ég þó alls ekki þeirri þörf, sem síldarútvegurinn hefur fyrir gott verð á sinni vöru. Þetta verður því aðeins gert til þess að reyna að hindra vaxandi dýrtíð. Við sem höfum verið að berjast fyrir hækkuðu verði á afurðum okkar, verðum að gera okkur ljóst, að afleiðingin af því yrði hækkandi kaupgjald við sjávarsíðuna, afleiðingin af því yrði svo hækkandi kaupgjald við landbúnaðarframleiðslu, afleiðingin af því væri svo hækkandi afurðarverð sem endaði svo með hækkaðri vísitölu. Þannig hefur dýrtíðin skapazt að mestu leyti. Mér er það ljóst að hækkað fiskverð sem hér er talað um, felur í sér nokkra nýja hættu fyrir vaxandi dýrtíð. Mér er ljóst að ef síldarmálið fer upp í 60 kr., sem ég gríp algerlega úr lausu lofti, þar sem enginn veit neitt um þetta í dag, þá felst í því ný hætta um vaxandi dýrtíð í landinu. En það er dálítið undarlegt, að sá flokkurinn, sem mest talar um dýrtíðarhættuna, skuli beita sér gegn þeim ráðstöfunum, sem settar eru beinlínis til þess að hindra vaxandi dýrtíð. Ég viðurkenni alveg það, sem hv. þm. S-M sagði, að hin nýju, dýru skip þurfa að fá möguleika til þess að lækka stofnkostnað sinn. Ég veit bara ekki betur en fyrirkomulagið hjá okkur sé þannig, að ef t. d. þessi nýju, dýru skip fengju verulegt aflamagn og 60 kr. fyrir málið og þótt þau hafi sæmilega afskriftarmöguleika, þá séu þeir ekki meiri en það, að mjög mikill hluti þessa gróða færi í skattgjöld. Mér þykir það miður, að eftir þær umr., sem hér hafa farið fram, finnst mér minni von til þess en ég gerði mér í upphafi, að hægt verði að fá samkomulag um þetta mál, og af því leiðir það, að málið fæst ekki afgr. áður en jólafríið byrjar, en það mundi leiða til stöðvunar á útgerðinni. Það kemur til greina, að þingið haldi áfram milli jóla og nýárs, heldur en að láta útgerðina bíða eftir því, að þm. komi úr jólaleyfi, því að þótt það sé eðlilegt, að þm. hafi jólafrí, þá verður slíkt að víkja fyrir þeirri nauðsyn, að þetta mál fái afgreiðslu. Það eru mörg atriði, sem fram hafa komið, sem ég er ekki á sama máli um. En ég tel það ekki aðalatriðið að leiðrétta allt það, sem mér finnst aðrir hafi skökk sjónarmið varðandi þetta mál. Fyrir mitt leyti vil ég stuðla að allri þeirri fyrstu afgreiðslu, sem auðið verður að ná um þetta mál.

Ætla ég svo ekki að fjölyrða meira um þetta, en mun vona í lengstu lög, að þær tilraunir til samkomulags, sem hér fara fram, fari ekki út um þúfur.