21.12.1946
Neðri deild: 46. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1279 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Þetta mál er svo mikið alvörumál, að sýnilegt er, að allir flokkar vilja leysa það á einn eða annan hátt, en erfiðlega gengur að verða sammála um leiðirnar til þess. Það hefur verið rætt um framleiðsluna, en margar aðrar atvinnugreinar koma til greina og vitað er, að verzlun, iðnaður og siglingar eru hyrningarsteinar þjóðarbúskaparins. Það litla, sem ég gæti lagt til málanna, vil ég að kæmi fram á þann hátt, að ég lít svo á, að hv. Alþ. sé nokkuð sundurleitt og lítt samstarfsfúst, en bezt væri, að málin væru leyst á réttlátan hátt og án þess að ráðizt sé á eina stétt annarri fremur.

Ég vildi segja í sambandi við þetta frv. að ég taldi mig ekki geta fylgt frv. frá hæstv. atvmrh., vegna þess að við vitum, að við erum ábyrgir fyrir þeim kvöðum, sem þar er gert ráð fyrir, en málið er mjög óljóst fyrir öllum á þessu stigi og því taldi ég nauðsyn á 6. gr. sem þó getur að einhverju leyti orðið óréttlát gegn einhverjum atvinnugreinum. Enn fremur taldi ég brýna nauðsyn á einu atriði og varð það til þess, að ég varð meðflytjandi þessa frv., en það er 9. gr. Það hefur verið rætt mikið um dýrtíðarmálin, og verð ég að segja, að mín stétt, kaupsýslustéttin, hefur ekki fengið vinsamlegt orð í eyra í því sambandi og öllu heldur væri lausnin fólgin í því að ganga af henni dauðri. Þetta er misskilningur, og vitna ég í byrjun ræðu minnar, að verzlun, iðnaður og siglingar eru nauðsynlegar fyrir framleiðsluna. Öllum er ljóst að þessi lausn hér er aðeins bráðabirgðalausn, og þolir það ekki bið, að tekið sé til alvarlegrar athugunar, að framleiðslan geti orðið rekin svo, að þjóðinni sé sæmandi. Í þessu sambandi hefur mér gefizt tækifæri til að tala við forráðamenn útvegsmanna, og er þeirra álit, að mikil nauðsyn sé að koma framleiðslunni í gang í tíma. Í þeim umr. var uppástunga. frá okkur verzlunarmönnum, að engin lausn væri á vandanum að sækja til ríkisins, heldur þyrftum við að taka málin á þannig grundvelli að dýrtíðin lækki þannig, að framleiðslan sé tryggð. Enn fremur veit ég, að þeir sem framleiðslu stunda, eru allir á móti því að þurfa að sækja til ríkisins í einu og öllu. Við tökum það fram, að okkur væri það ljóst í verzlunarstéttinni, — og ég tek þar með þann lið stéttarinnar, sem starfar með okkur, samvinnufélögin, — að leggja beri grundvöllinn þannig, að útvegurinn svari arði. við sækjum að því, sem við teljum skyldu okkar, að verzlun og viðskipti verði frjáls, en þá þarf framleiðslan, að skila arði. Ég tók þan enn fremur fram, að ekki stæði á verzlunarstéttinni að sætta sig við þær aðgerðir sem nauðsynlegar væru til að koma þessu jafnvægi á, og komum við með nokkuð stórar uppástungur. Þessu viðhorfi okkar svaraði Landsamband íslenzkra útvegsmanna á þessu stigi á þann hátt, að það væri mjög æskilegt að taka þessi mál föstum tökum, en hins vegar væri frestur lítill þar til útvegurinn hæfi starfsemi sína.

Ég vildi lauslega hafa minnzt á þetta, því að í hverju landi hlýtur kaupsýsla, útvetur og framleiðsla að vera í sambandi hvað við annað og hafa samvinnu sín á milli. Ég vildi í þessu sambandi og af því að þetta frv. er fram borið, að snúizt verði af alefli gegn dýrtíðinni.

Í ræðu hæstv. forsrh. og hjá fleirum kom það fram, að þetta væri engin lausn, nema alvarleg lausn fengist á dýrtíðarmálunum. Ég vildi samt mega benda á, að ég álít tillögur sósíalista, eins og þær birtast í greinum og fram hefur komið í áliti hagfræðingan. hjá Jónasi Haralz og Torfa Ásgeirssyni, hvernig leysa eigi vandamálin, að þeim finnst ekkert athugavert við það, að atvinnuvegirnir séu reknir með tapi um nokkurn tíma. Að vísu segja þeir, að sjóðir séu til, til að bera tapið um stundasakir, þar til tækniþróunin bjargi. Þeir telja þessa sjóði vera hjá einni stétt, heildsalastéttinni og er það alleinkennilegt, enda gert eingöngu til að sætta almenning við till. þeirra. Það er sem sagt verið að telja almenningi og launþegunum trú um, að ekki verði seilzt niður í þeirra vasa, heldur verði farið í vasa heildsalanna. En ég held, að þeir sjóðir, sem til eru, séu dreifðir milli allra stétta, og þá er verið að eyða sparifé þjóðarinnar í heild í e. t. v. botnlaust tap, en allir sjá og eru sammála um, að ekki getur gengið þannig til lengdar. Og sósíalistar vita, að hagnaður kaupsýslustéttarinnar er ekki eins mikill og þeir vilja vera láta. Tollar eiga að vera eingöngu á lúxusvarningi, segja þeir. En hvað er lúxusvarningur? Það eru t. d. bílar, sem margur launþeginn góðu heilli hefur getað fengið eða er að safna sér fyrir. Og hvað þýðir þá að hækka tolla á lúxusvörum, ef svo á að banna innflutning á þeim tækjum? Ætli yrði ekki brátt seilzt til nauðsynjavöru, þegar skórinn fer að kreppa að? Þetta er því leynileg árás á launþegana, um leið og þeim er villt sýn. Ég hygg, að tollahækkun sé óréttlátasta aðferðin til að lækka dýrtíðina, þvi að þá þurfa fátækir að borga eins mikið og ríkir. Dýrtíðartill. sósíalista eru því frekleg árás á launþegana. En hversu lengi á að reka útgerðina með tapi? Þangað til tækniþróun bjargi, segja sósíalistar. Má vera, en það er víst lögmál, að tækniþróun á sér ekki stað meðan framleiðslan er rekin með tapi og hélt ég, að öllum ætti að vera það ljóst, því að þá er ekki fé fyrir hendi til að verja til kaupa á framleiðslutækjum. Og þó að hv. 2. þm. Reykv. léti orð falla í garð minnar stéttar, þá virðist það þannig, að mjög hættulegt sé í litlu þjóðfélagi að vekja sundrung milli stétta, sem þurfa að vinna saman, og Alþ. kemur saman til þess að ólíkir flokkar geti sameinazt og beitt sér fyrir alþjóðarhag. Ég vil lýsa yfir því, að verzlunarstéttin er reiðubúin til að leggja á sig kvaðir að sínu leyti til að bæta úr ástandinu, og minn hugur er sá, að þegar svona mál ber að garði, láti allir flokkar persónukrit lalla niður, en legðu allt sitt í að leysa vandann sameiginlega. Illu heilli hefur það sýnt sig, að allir flokkar vildu ekki samvinnu árið 1947, en ég trúi því, þegar vandi er fyrir höndum, að menn láti metnað landsins og sjálfra sín sitja fyrir. En viðvíkjandi því frv., sem hér um ræðir, þá er það aðeins bráðabirgðalausn og fylgi ég því aðeins með því, að skv. 9. gr. verði fundinn grundvöllur til lausnar á dýrtíðarmálunum, og sá grundvöllur verður að vera gerður þannig, að rétt hlutföll ríki. Ég veit, að allir flokkar vilja vinna að þessu, og ég vona, að við getum orðið sammála um að leysa þessi mál með skilningi og án tortryggni til meðbræðra okkar.

Ég hef nú talað hér nokkuð lengi og hef ég gert það af ásettu ráði, þar sem talað hefur verið allharkalega til minnar stéttar, og ég veit, að mín stétt vill vinna með öðrum stéttum til að leysa vandann og með aðstoð Alþingis ætti að vera hægt að fá það jafnvægi milli stéttanna, sem þörf er á. Ég hef aðeins haldið mig við sjálft málefnið og það, sem olli því, að ég flutti þetta frv. ásamt öðrum í fjhn.

Svo vildi ég segja örfá orð til hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Reykv. Ég tel það bezt, að hv. þm. Borgf. hafi aðeins vitnað til þess, sem aðrir hafa sagt, því að ég þekki hann svo, að ég held, að hann hafi einmitt lagt áherzlu á þá stefnu, sem fleytt hefur þessari þjóð, en það er að treysta meira á sjálfan sig en að kalla á hjálp. En þessi hv. þm. mun hafa talið sig hafa arðvænan stuðning hv. 2. þm. Reykv. til að fara ofan í vasa heildsalanna, og býst ég við, að hann hafi í sinni ræðu verið að bjóða hv. 2. þm. Reykv. fylgd í rannsóknarferð í vasa þeirrar stéttar. Hv. þm. Borgf. er þó einn þeirra manna, sem treystir framtaki einstaklingsins og frelsi einstaklingsins, enda veit hann, að ekki mundi þjóðin hafa hjarað af, ef enginn hefði haldið uppi bjartsýni og kjarki, þannig að ef á að gera alla þeirrar hugsunar að sækja að því að komast í opinberar stöður, þá er auðséð, að illa fer fyrir framleiðslunni. Það eru einmitt einstaklingarnir, sem allt leggja í hættu, þeim vinnst það, að ríkið getur verið öruggt. Við megum ekki ganga að öllum athafnamönnum, því að hagnaður þeirra er til góðs fyrir alla.

Ég læt svo útrætt um þetta mál, en vildi aðeins taka þetta fram í sambandi við það og út af ummælum, sem hér voru viðhöfð í nótt, en öll persónuleg ummæli mun ég leiða hjá mér, því að ég vil samvinnu allra góðra manna til að leysa vandamálin.