22.12.1946
Efri deild: 44. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1291 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

124. mál, bátaútvegurinn o. fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þetta mál, sem nú hefur verið lagt hér fyrir og nokkuð hefur verið reifað, hefur, eins og tekið hefur verið fram, verið rætt allmikið í hv. Nd. Ég mun þess vegna ekki hefja hér neinar kappræður um þetta mál, en hins vegar tel ég rétt að gera nokkra grein fyrir afstöðu minni til þess, sérstaklega vegna þess, að hún er nokkuð önnur en sú afstaða, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég tel alveg augljóst, að þetta mál þurfi að fá hér afgreiðslu — og hana fljóta. Það er vitanlegt öllum, sem eiga sæti hér í þessari hv. d., að það verður ekki komizt hjá því að gera ráðstafanir til þess að útvegurinn ekki stöðvist. En það, sem mig í höfuðatriðunum greinir á við meiri og minni hl., er það, að ég álít þær ráðstafanir, sem hér er verið að byrja á, vera hreinar neyðarráðstafanir. Það, sem ég álít, að eigi að gera nú alveg á næstu vikum, eru ráðstafanir, sem kæmu að haldi til þess, að sjávarútvegurinn yrði rekinn, án þess að til þeirra verðuppbóta kæmi, sem hér er gert ráð fyrir. Ég lít svo á, að í staðinn fyrir að vísa því til 4. manna n. að leysa hin aðkallandi dýrtíðarvandamál, eigi það að vera fyrsta verk þeirrar stj., sem mynduð yrði eftir áramótin. Þess vegna er það, að þótt það kunni í fljótu bragði að virðast heppileg lausn að nota þá peninga, sem afgangs kunna að verða frá síldinni,. til þess að borga hallann í vetur, álít ég það ábyrgðarleysi vegna þessa, að með því er Alþ, að svæfa sjálft sig og skjóta á frest því, sem gera þarf. Ég álít, að þær ráðstafanir, sem gerðar verða, eigi aðeins að standa í stuttan tíma og að innan fárra vikna eigum við að vera við því búnir að gera ráðstafanir, svo að þessi atvinnuvegur geti borið sig. Þetta er fyrsta ástæðan til þess að ég vil, að frv. sé samþ. óbreytt, en þar kemur ýmislegt fleira til.

Það er vitað mál, að undanfarin tvö sumur hefur verið aflaleysi við síldveiðarnar, og er okkur öllum kunnugt, að frá undanförnum tveim síldarvertíðum eru margir útvegsmenn mjög illa staddir, og það meira að segja svo, að margir þeirra eru við gjaldþrot og bíða með skuldir, sem fyrirsjáanlegt er, að þeir geta ekki greitt nema með góðum tekjum á næstu síldarvertíð. Eina vonin er sú, eftir vertíðarnar í sumar og 1945, að vertíðin 1947 geti orðið nokkuð góð. Ég þekki allmörg dæmi um þetta og er ekki í vafa um, að þeir, sem eiga sæti í þessari hv. d., þekkja líka mörg slík dæmi og jafnvel fleiri en ég. Þess vegna er það, að reglan, sem tekin er upp með þessari gr., kemur illa niður. Það er ekki ólíklegt, að sumir þoli þennan skatt — þeir sem hafa aflað sæmilega, en aðrir býst ég við, að þoli hann alls ekki. Þess vegna er það, að þegar við teljum, að ríkið þurfi að grípa inn í til þess að hjálpa þeim síldarútvegsmönnum, sem biðu mest tjón síðastliðið sumar, skýtur dálítið skökku við, að nú er lagður þessi síldarskattur á allan útveginn, alveg án tillits til þess, sem ég hef nú nefnt, þessa mismunandi fjárhags síldarútvegsmanna vegna aflabrests. Ég geri ráð fyrir því, að ef þessi síldarskattur verður lagður á, þoli síldarútvegsmenn hann ekki, nema síldarvertíðin í sumar verði alveg sérstaklega góð, og jafnvel tæplega samt, þar sem þeir geta ekki staðið undir sínum eigin skuldbindingum og þær falla beint og óbeint á ríkið.

Það gegnir sama máli um hlutasjómenn. Þeir hafa margir hverjir, bæði við síld og þorskveiðar, haft lægri laun en landmenn. Það er vitað mál, að við þorskveiðarnar hafa hlutasjómenn ekki haft jafngóð laun og landmenn, nema þar sem bezt hefur aflazt, en sérstaklega er þetta hjá sjómönnum við síldveiðarnar. Það er alveg vitað, að sumir af þeim mönnum, sem síðastliðið sumar stunduðu síldveiðar, höfðu það lítið, að þeir gátu ekki borgað tryggingargjöld sín, og þess vegna kemur það afar illa við þá, þegar leggja á þennan skatt á. Þeim veitir vissulega ekki af því að rétta hlut sinn að nokkru.

En svo er það annað, sem ég hef út á þá leið að setja, sem hér á að ganga inn á. Ég tel hana mjög hættulega. Og ég vil segja það, að ef við þurfum nú, þegar fiskverðið er fimmfalt til sexfalt í samanburði við það, sem það var fyrir stríð og verð á öðrum afurðum tilsvarandi eða hærra, — að ef við þurfum, þegar svo stendur á, að setja slíka löggjöf til þess að styðja bátaútveginn, þá ætti okkur að vera ljóst, hvar komið er. Og það er alveg auðsætt mál, að ef svo fer, að dýrtíðin verður ekki stöðvuð, þá eru ákvæði þessa frv., alveg ófullnægjandi. Þá má vel svo fara, að næsta vetur þurfum við að taka ábyrgð á fiskverði, sem þurfi að vera 70 eða 80 aurar. Síðast var það 50 aurar, en er nú 65 aurar.

Það er líklegt — og kom fram í umr. í n. —, að dýrtíðin hækki á næstunni vegna þess, að ekkert ákvæði er í frv., sem komi í veg fyrir það. Það getur vel komið til mála, að við þurfum að taka ábyrgð á hærra fiskverði en þessu, og hvar stöndum við þá? Vel má svo fara, að þetta 65 aura verð verði alveg ófullnægjandi vegna þess, að dýrtíðin hækki svo mikið, að útvegurinn fái ekki borið sig. Og ef svo fer, sem líkur benda því miður til, að við verðum að taka ábyrgð á hærra fiskverði að ári, — og þá er ekki gert ráð fyrir, að fiskverðið falli, — ja, hvar erum við þá komnir?

Það er vitað mál, að nú leggja þjóðirnar meira en nokkru sinni áður áherzlu á að auka feitmetisframleiðslu sína. Það er vitað mál, að nú er í Suðurhöfum lögð áherzla á hvalveiðar og feitmetisframleiðslu, vegna þess hvað verðið er hátt. Það er þess vegna ekki treystandi á, að síldarlýsið okkar verði í jafnháu verði og það hefur verið. Þess vegna getur vel svo farið, að sá atvinnuvegur, sem hér á að styðja annan, þurfi að fá uppbætur greiddar. Ég álít því mjög vafasamt að ganga inn á þessa breyt., en álít, að við eigum að setja okkur það mark, að innan skamms höfum við komið því lagi á okkar framleiðslu, að hægt sé að reka bátaútveginn — og sjávarútveginn yfirleitt — án þess að hann þurfi hjálpar með. Ég álít, að þær neyðarráðstafanir, sem hér er gert ráð fyrir, eigi aðeins að standa stuttan tíma. Þetta er mitt sjónarmið. Ég álít, að ef farið er að eins og hér er gert ráð fyrir, að ef 6. gr., sem felld var niður í hv. Nd., verður aftur tekin inn, verði sú niðurstaðan, að engar aðgerðir fáist í dýrtíðarmálinu, en það fáist eins konar gálgafrestur, sem geri aðstöðu okkar enn þá verri en hún er nú.

Viðkomandi því að fella niður 8. gr. er það að segja, að ég er því mótfallinn af þeirri ástæðu, að eins og gr. ber með sér, er það fram tekið í síðari mgr. hennar, með leyfi hæstv. forseta, að: „ákvæði greinar þessarar koma því aðeins til framkvæmda, að greiða þurfi fé úr ríkissjóði vegna ábyrgðar samkv. 2.–4. gr.“ Það er þess vegna ekki farið fram á að greiða þessar verðuppbætur samkv. 8. gr. af þeim peningum, sem kunna að verða teknir af síldarútveginum, heldur er farið fram á það, að ef ríkissjóður þarf að leggja fram fé til þess að greiða uppbætur á útfluttan bátafisk, þá sé landbúnaðurinn látinn sitja við sama borð. Þess vegna er það, að ef svo fer, sem ég tel nokkrar líkur til, að samþ. verði þær breyt., sem hér hafa verið bornar fram, að taka 6. gr. upp að nýju, og ef nægilegt fé fæst með þeim ráðstöfunum, sem þar er gert ráð fyrir, og ekki þarf að grípa til ríkissjóðs, þá kemur þessi gr. aldrei til framkvæmda. Verði það hins vegar niðurstaðan, að síldarútvegurinn geti ekki lagt til nægilega peninga, þá kemur gr. til framkvæmda. Og ég vil segja það við þá hv. þm., sem vilja fella þessa gr., að ég mundi vilja taka það til athugunar, að þeir fjármunir, sem til þess þyrfti að greiða verðuppbætur á landbúnaðarvörur, yrðu aldrei hærri en það, sem ríkissjóður þarf að greiða í uppbætur á bátafiskinn, og vil ég segja, að þá er ákaflega ósanngjarnt að fella hana. En ef 6. gr. verður samþ., má vel svo fara, að einhver hluti verði greiddur úr ríkissjóði, en ef það yrði mjög lítið, kynnu einhverjir að líta svo á, að ekki væri vert að bæta upp landbúnaðarafurðir með því.

Ég lofaði í upphafi að vera fáorður um þetta mál, og hef aðeins í stuttu máli gert grein fyrir afstöðu minni til þess, þeirri afstöðu, að ég vil samþykkja frv. óbreytt, og það er vegna þess, að ég vil að við með þessu frv. setjum okkur það mark, að sú stj., sem tekur við eftir áramótin, hafi það að fyrsta verki sínu að koma því lagi á dýrtíðarmálin, að sjávarútvegurinn geti verið rekinn án þess að grípa þurfi til neyðarráðstafana. Og ég er hræddur um, að ef við tökum síldarpeningana, þá sofnum við á málinu og þá erum við verr komnir en nú. Við mundum binda okkur við þessar neyðarráðstafanir allt næsta ár, en þá munu erfiðleikarnir verða enn þá alvarlegri.

Það má að vísu lengi deila um þessi sjónarmið, og hirði ég ekki að rökræða það nánar, og vitanlega er það reynslan ein, sem þar getur skorið úr. En sérstaklega þurfum við að koma því lagi á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, að hann geti borið sig.