12.02.1947
Efri deild: 70. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1347 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

166. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis 1947

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins benda hæstv. forsrh. á, að þó að það sé rétt, að fjárlög hafi tvisvar verið afgr. fyrir áramót, þó að þing hæfist ekki fyrr en í byrjun október, þá var það í bæði skiptin með dálítið sérstökum hætti og með þeim blæ, sem ég vænti, að hæstv. forsrh. óski ekki eftir, að endurtaki sig. 1934 var unnið milli jóla og nýárs (BSt: Nei, því var lokið fyrir jól þá.) Það getur verið, að mig misminni þetta, en í fyrra voru fjárlögin afgr. þannig, að útgjöld, svo að milljónum skipti, voru utan við fjárlögin. Með þessu móti heppnaðist að afgreiða fjárlögin fyrir nýár, en vitanlega gefur þetta alranga hugmynd um útgjöld og afkomu ríkissjóðs. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. forsrh. vilji ekki, að þetta endurtaki sig, og láti því þingið koma svo snemma saman, að tryggt sé, að fjárlögin verði afgr. fyrir árslok með sæmilegum hætti.