11.02.1947
Efri deild: 67. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1403 í B-deild Alþingistíðinda. (1864)

111. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Hannibal Valdimarsson) :

Þetta frv. er flutt að ósk heimspekideildar Háskóla Íslands, samið af háskólarektor og hefur hlotið samþykki háskólaráðs. Breyt. er sú, að 28. gr. háskólal. verði breytt á þann hátt, að nemendur í íslenzkum fræðum geti, áður en námi er lokið, valið um, hvort þeir gangi undir kandídatspróf eða meistarapróf.

Með reglugerð háskólans 9. okt. 1912 var stofnað meistarapróf í íslenzkum fræðum. Var þar ekki aðeins miðað við, að nemandinn sýndi góða þekkingu á þessum fræðum, heldur og vísindalega hæfni. Þessu fyrirkomulagi var breytt 1934, þegar stofnað var kennarapróf í íslenzkum fræðum. Með þeirri breyt. var hinum vísindalega þætti meistaraprófsins sleppt, en almennum kröfum um þekkingu á íslenzkum fræðum lítið eða ekki breytt eða úr þeim dregið, svo að heitið gæti. Það þótti ekki rétt að heimta af þeim, sem ætluðu að stunda kennslu í íslenzkum fræðum, langt vísindalegt sérnám, en svo var til ætlazt, að þeir, sem tekið hefðu kandídatspróf, gætu síðar gengið undir meistarapróf, en reynslan hefur orðið sú, að enginn kandídat með kennaraprófi hefur gengið undir meistarapróf, en hins vegar hafa 5 menn gengið undir meistarapróf, en þeir höfðu hafið nám, áður en þessi breyt. var gerð.

Þessi reynsla þykir benda til þess, að heppilegt sé að greina þessi tvö próf í sundur, eins og gert er víðast í nágrannalöndunum, svo að menn geti valið einhvern tíma á námstíma sínum, hvort þeir ganga undir kennarapróf eða meistarapróf. Menntmn. hefur kynnt sér málið eftir föngum og telur breyt. líklega til að beina námsmönnum í íslenzkum fræðum inn á báðar þessar brautir og bæta úr þeim formgalla, sem verið hefur á háskólal. síðan 1934. Einn nm., hv. þm. Seyðf., var farinn til útlanda, þegar málið var afgr., en allir aðrir nm. hafa skrifað undir nál. og leggja til, að frv. verði samþ.