25.03.1947
Neðri deild: 101. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1420 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

85. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Helgi Jónasson) :

Herra forseti. Frv. það, sem liggur fyrir, er gamall kunningi, því að það var flutt á síðasta þingi af heilbr.- og félmn. þessarar d. og komst í gegnum 3 umr. En það dagaði uppi í Ed. Nú er það flutt af heilbr.- og félmn. Ed. Það hefur verið afgr. með litlum breyt. frá því, sem það var flutt á síðasta þingi. Aðalbreytingir með þessu frv. er sú, að launakjör ljósmæðra skuli ekki ákveðin af ríkinu. Þær ljósmæður, sem starfa í kaupstöðum, fara fram á, að launakjör sín verði tekin út úr ljósmæðral., en þær eigi það undir viðkomandi bæjarstjórnum, hvaða laun þeim verði greidd. N. lítur svo á, að rétt sé, að ljósmæður sæti sömu kjörum og aðrir starfsmenn viðkomandi bæjarfélags í þessu efni. Varðandi launakjör ljósmæðra utan kaupstaða, þá greiðast þau samkv. þessu frv. eins og áður að einum þriðja hluta úr sýslusjóði og að tveim þriðju hlutum úr ríkissjóði. Önnur breyt. er sú, að ljósmæður óska eftir því, að þær, eins og aðrir svipaðir starfsmenn, fái aukalaun sín greidd eftir ákveðnum taxta, sem heilbrigðisyfirvöldin hafa samþ. Það er líka eðlilegt, að ákveðinn taxti gildi í þessum efnum: En ákvæði ljósmæðral. eru mjög óljós og ófullnægjandi, hvað þetta snertir. Þetta eru aðalbreyt. og hefur n. fallizt á að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt, eins og það liggur fyrir.