27.03.1947
Neðri deild: 103. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (2441)

179. mál, sýsluvegasjóðir

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég sé, að form. samgmn., hv. þm. V-Sk. (GSv), sem hafði verið kjörinn frsm. þessa máls, er ekki mættur á fundi d. Þess vegna ætla ég að fara örfáum orðum um brtt. n. á þskj. 576.

Eftir að brtt. þær við frv., sem hv. 2. þm. Skag. (JS) hefur nú mælt fyrir, komu fram, sendi samgmn. þær ásamt frv. til umsagnar vegamálastjóra. Hann hefur síðan athugað þetta mál og sendi n. loks bréf með þeim brtt., sem n. hefur orðið ásátt um að taka upp og prenta á þskj. 576. Vegamálastjóri féllst á þau rök, sem hv. flm. brtt. á þskj. 454 hafa fram að færa máli sínu til stuðnings, sem sé þau, að framlag ríkissjóðs til sýsluvega hækki nokkuð, einkum þegar skatturinn, sem sýslufélögin leggja fram heima fyrir, er kominn í hámark.

Vegamálastjóri leggur til — og það hefur n. tekið upp —, að sýslunefnd heima fyrir sé frjálst að ákveða vegargjald 10‰ án þess að leita samþykkis ráðh. um það, en sé farið hærra eða upp í 12‰, þurfi samþykki ráðh. að koma til. Sú skuldbinding er þá lögð á herðar ríkissjóði að greiða þrefalt framlag, þegar skatturinn er orðinn svo hár, þ. e. a. s. það, sem er fram yfir 10‰. — B-liður brtt. á þskj. 576 er í raun og veru aðeins leiðrétting. Það er eðlilegra, að samþykki samgmrh. komi til um þessi mál en atvmrh., þar sem þessi málaflokkur í heild heyrir undir samgmrn.

Samgmn. væntir þess, að samkomulag geti orðið við hv. flm. brtt. á þskj. 454 um þessar brtt. og að málið fái afgreiðslu þessarar hv. d. í því formi.