05.02.1947
Sameinað þing: 25. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2007 í B-deild Alþingistíðinda. (2615)

Stjórnarskipti

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson) :

Herra forseti, hv. alþm. Forseti Íslands hefur í gær á ríkisráðsfundi skipað þessa ríkisstjórn, með þeirri verkaskiptingu, er hér greinir:

I. Forsætisráðherra Stefán Jóhann Stefánsson. Undir hann heyra eftirgreind mál: Stjórnarskráin, Alþingi, nema að því leyti, sem öðruvísi er ákveðið, almenn ákvæði um framkvæmdastjórn ríkisins, skipun ráðherra og lausn, forsæti ráðuneytisins, skipting starfa ráðherranna, mál, sem varða stjórnarráðið í heild, Þingvallanefnd og mál varðandi meðferð Þingvalla. Enn fremur félagsmál, þar undir alþýðutryggingar, atvinnubætur, vinnudeilur, sveitarstjórnar- og framfærslumál, félagsdómur, almenn styrktarstarfsemi, þar undir styrkveitingar til berklasjúklinga og annarra sjúklinga, sem haldnir eru langvinnum sjúkdómum, sjúkrasjóðir, ellistyrktarsjóðir, öryrkjasjóðir, slysatryggingarsjóðir, lífsábyrgðarsjóðir og aðrir tryggingarsjóðir, þar með talið Brunabótafélag Íslands, nema sérstaklega séu undan teknir, byggingarfélög.

II. Ráðherra Bjarni Ásgeirsson. Undir hann heyra landbúnaðarmál, þar undir ræktunarmál, þar á meðal skógræktarmál og sandgræðslumál, búnaðarfélög, búnaðarskólar, garðyrkjuskólar, húsmæðraskólar í sveitum, dýralækningamál, þjóðjarðamál, Búnaðarbanki Íslands. Enn fremur rafmagnsmál, þar á meðal rafmagnsveitur ríkisins og rafmagnseftirlit, vatnamál, þar undir sérleyfi til vatnsorkunotkunar, jarðboranir eftir heitu vatni og gufu, námurekstur, kaupfélög og samvinnufélög, landssmiðjan, Atvinnudeild háskólans, Rannsóknarráð ríkisins, mælitækja- og vogaráhaldamál.

III. Ráðherra Bjarni Benediktsson. Undir hann heyrir dómaskipun, dómsmál, önnur en félagsdómur, þar undir framkvæmd refsidóma, hegningarhús og fangahús, tillögur um náðun, veiting réttarfarslegra leyfisbréfa, málflutningsmenn, lögreglumálefni, önnur en gæzla landhelginnar, áfengismál, strandmál, sifjaréttarmál, erfðaréttarmál, persónuréttarmál, eignarréttarmál, yfirfjárráðamál, lög um kosningar til Alþingis og kjördæmaskipting, umsjón með framkvæmd alþingiskosninga, ríkisborgararéttur, útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, húsameistari ríkisins, verzlunarmál, sem ekki eru í úrskurði þessum falin öðrum ráðherrum, þar undir verzlunarskólar. Enn fremur utanríkismál.

IV. Ráðherra Emil Jónsson. Undir hann heyra samgöngumál, önnur en flugmál, þar á meðal vegamál, skipagöngur, atvinna við siglingar, Stýrimannaskólinn, skipaskoðun ríkisins, póst- og símamál, loftskeytamál, vitamál, hafnarmál, iðnaðarmál, þar undir iðnskólar, iðnaðarnám, iðnfélög, eftirlit með verksmiðjum og vélum, einkaréttarleyfi. Enn fremur viðskiptamál, þar undir innflutningsverzlun og utanríkisverzlun, önnur en verzlun með sjávarafurðir, bankamál, sparisjóðir, gjaldeyrismál, verðlagsmál (dýrtíðarráðstafanir).

V. Ráðherra Eysteinn Jónsson. Undir hann heyra menntamál, þar undir skólar, sem ekki eru sérstaklega undan teknir, útvarpsmál og viðtækjaverzlun, barnaverndarmál, menntamálaráð, leikhúsa- og kvikmyndamál, kirkjumál, ríkisprentsmiðjan, veðurstofan, heilbrigðismál, þar á meðal sjúkrahús og heilsuhæli. Enn fremur flugmál, þar undir flugvallarekstur, svo og gæzla landhelginnar.

VI. Ráðherra Jóhann Þ. Jósefsson. Undir hann heyra fjármál ríkisins, þar undir skattamál, tollamál og önnur mál, er varða tekjur ríkissjóðs, svo sem ef verzlun er rekin til að afla ríkissjóði tekna. Undirskrift ríkisskuldabréfa, fjárlög, fjáraukalög og reikningsskil ríkissjóðs, hin umboðslega endurskoðun, embættisveð, eftirlit með innheimtumönnum ríkisins, laun embættismanna, eftirlaun, lífeyrir embættismanna og ekkna þeirra, peningamál, þar undir peningaslátta. Yfirleitt fer þessi ráðherra með öll þau mál, sem varða fjárhag ríkisins eða landsins í heild, nema þau eftir eðli sínu eða sérstöku ákvæði heyri undir annan ráðherra. Þá heyra einnig undir hann hagstofan, mæling og skrásetning skipa og enn fremur sjávarútvegsmál, þar undir fiskifélagið og fiskimálanefnd, síldarútvegsmál (síldarverksmiðjur og síldarútvegsnefnd), svo og utanríkisverzlun með sjávarafurðir.

Ríkisstjórnin hefur komið sér saman um málefnagrundvöll, og mun ég hér á eftir lesa upp þá stefnuskrá, er stjórnin leggur til grundvallar starfi sínu og fyrirætlunum :

Það er höfuðhlutverk ríkisstjórnarinnar: að vernda og tryggja sjálfstæði landsins, að koma í framkvæmd endurskoðun á stjórnarskránni, að tryggja góð og örugg lífskjör allra landsmanna og áframhaldandi velmegun og að halda áfram og auka nýsköpun í íslenzku atvinnulífi.

Í samræmi við þetta hlutverk verði lögð megináherzla á eftirfarandi:

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að kappkosta að hafa sem bezta sambúð við aðrar þjóðir og að leggja sérstaka áherzlu á samstarf við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Hún mun af alefli vinna að því að afla sem viðast markaða fyrir íslenzkar framleiðsluvörur og vinna að stækkun íslenzkrar landhelgi.

Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því, að lokið verði endurskoðun stjórnarskrárinnar og setningu nýrrar stjórnarskrár hraðað, eftir því sem frekast er unnt.

Ríkisstjórnin telur, að á meðan hinar miklu framkvæmdir í íslenzku atvinnulífi standa yfir, þurfi að samræma framkvæmdir einstaklinga og almannavaldsins, svo að þær verði gerðar eftir fyrirfram saminni áætlun, þar sem einkum sé lögð áherzla á :

að öll framleiðslustarfsemi sé hagnýtt til fulls og öllum verkfærum mönnum tryggð næg og örugg atvinna,

að öllum vinnandi mönnum, og þá sérstaklega þeim, er stunda framleiðsluvinnu til sjávar og sveita, séu tryggðar réttlátar tekjur fyrir vinnu sína, en komið í veg fyrir óeðlileg sérréttindi og spákaupmennsku,

að neytendur eigi kost á að kaupa neyzluvörur sínar og framleiðendur rekstrarvörur sínar á hagkvæmasta hátt og vörukaup til landsins og vörudreifing innanlands gerð eins ódýr og hagkvæm og frekast er unnt,

að áframhald verði á öflun nýrra og fullkominna framleiðslutækja til landsins, eftir því sem gjaldeyrisástæður og vinnuafl leyfir frekast, enda verði tryggt fé til framkvæmdanna jafnóðum,

að byggðar verði verksmiðjur og iðjuver til þess að vinna sem mest og bezt úr öllum framleiðsluvörum til lands og sjávar, þannig að þær séu seldar úr landi eins fullkomnar og frekast er kostur, og við staðsetningu verksmiðjanna verði tekið tillit til hvors tveggja í senn, framleiðsluskilyrða og atvinnuþarfa einstakra byggðarlaga,

að atvinnuvegir landsmanna verði reknir á sem hagkvæmastan hátt á arðbærum grundvelli og stöðvist ekki vegna verðbólgu og dýrtíðar,

að húsnæðisskorti og heilsuspillandi íbúðum, hvar sem er á landinu, verði útrýmt með byggingu hagkvæmra íbúðarhúsa.

Til þess að semja áætlun þá, sem að framan greinir, skal skipuð sérstök nefnd, er heiti fjárhagsráð og komi m. a. í stað viðskiptaráðs og nýbyggingaráðs. Skal nánar mælt fyrir um það í lögum. Í áætluninni skal gerð grein fyrir kostnaði við hverja framkvæmd svo og, með hverjum hætti fjárins skuli aflað, enda skal kveðið á um það, í hverri röð framkvæmdir skuli verða, svo að vinnuafl og fjármagn hagnýtist þannig, að sem mest not verði að. Í því sambandi skal lögð megináherzla á byggingu íbúðarhúsa við almenningshæfi, bæði til sjávar og sveita, m. a. með útvegun lánsfjár og byggingarefnis. Fjárhagsráð skal hafa með höndum framkvæmd áætlunarinnar, eftir því sem nánar verður mælt fyrir í lögum, svo og veitingu fjárfestingarleyfa, innflutningsleyfa og gjaldeyrisleyfa og verðlagseftirlits. Ríkisstj. í heild hefur yfirstjórn fjárhagsráðs og tekur ákvarðanir um höfuðatriði og sker úr þeim ágreiningsmálum, sem einhver fjárhagsráðsmaður skýtur til hennar.

Til þess að tryggja rétt framtöl til skatts og afla fjár til nýsköpunar verði sett löggjöf um eignakönnun og skyldulán. Gerðar verði ráðstafanir, að eignakönnuninni aflokinni og í sambandi við hana, til þess að hafa betra og öruggara eftirlit með skattframtölum, enda fari þá og fram heildarendurskoðun á skattalöggjöfinni.

Ríkisstjórnin leggur á það áherzlu, að innflutningsverzluninni verði háttað svo, að verzlunarkostnaðurinn verði sem minnstur. Reynt verði, eftir því sem frekast er unnt, að láta þá sitja fyrir innflutningsleyfum, sem bezt og hagkvæmust innkaup gera og sýna fram á, að þeir selji vörur sínar ódýrast í landinu, hvort sem þar er um að ræða einstaklinga eða félög. Sérstök innkaupastofnun á vegum ríkisins verði sett á stofn og annist hún um innkaup til ríkisstofnana (vita-, hafna-, vega- og brúargerða, verksmiðja, opinberra bygginga, sjúkrahúsa, skóla o. fl.). Sú deild fjárhagsráðs, sem hefur með höndum veitingu innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, skal taka til athugunar og rannsóknar, á hvern hátt takast mætti að haga innkaupum og vörudreifingu á sem hagkvæmastan hátt fyrir þjóðina í heild, einnig með hliðsjón af samningum við erlend ríki um sölu íslenzkra afurða.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að vinna að því af alefli að stöðva hækkun dýrtíðarinnar og framleiðslukostnaðar og athuga möguleika á lækkun hennar. Í því skyni verði leitað til samtaka launastéttanna og samtaka framleiðenda til sjávar og sveita til þess að gera ráðstafanir gegn frekari vexti dýrtíðarinnar og um leiðir til lækkunar.

Það er samkomulag milli stjórnarflokkanna að greiða niður fyrst um sinn vöruverð af ríkisfé svo mikið, að vísitala hækki ekki frá því, sem nú er. Verðlagseftirlitið verði skerpt og aukið og tekið til athugunar að miða ákvarðanir þess við þörf þeirra fyrirtækja, sem hafa vel skipulagðan og hagkvæman rekstur.

Afurðasölulög landbúnaðarins verði endurskoðuð á þessu þingi og þeim breytt á þann hátt, að stéttasamtök bænda fái í sínar hendur framkvæmd afurðasölunnar. Verðákvörðun landbúnaðarafurða verði gerð með það fyrir augum, að tekjur þeirra manna, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta.

Þeirri skipan verði komið á, að verðlag landbúnaðarafurða verði ákveðið með samkomulagi milli fulltrúa, sem tilnefndir eru annars vegar af stéttasamtökum bænda og hins vegar af félagssamtökum neytenda. Ef samkomulag verður með öllum þessum fulltrúum, er það bindandi. Á meðan greitt er niður með ríkisfé verð landbúnaðarafurða eða útflutningsuppbætur greiddar á þær, gildir eftirfarandi skipan: Rísi ágreiningur af hendi eins eða fleiri fulltrúa við samkomulagstilraunir, þá sker úr nefnd, skipuð þremur mönnum, einum af stéttarsamtökum bænda, einum af neytendasamtökunum og hagstofustjóra sem oddamanni.

Samþykkt verði á þessu þingi frv. til laga um ræktunarsjóð, í meginatriðum samhljóða frv. því, er nú liggur fyrir Nd. Lögin um jarðræktarstyrk verði endurskoðuð með það fyrir augum, að jarðræktarstyrkurinn verði hækkaður hlutfallslega og samræmdur núgildandi vinnulaunum og breyttum jarðvinnsluaðferðum.

Það er stefna ríkisstjórnarinnar að afgreiða að minnsta kosti rekstrarhallalaus fjárlög, og í því skyni taki hún strax til athugunar fjáröflunarleiðir, ef þörf þykir fyrir hendi vegna afgreiðslu fjárlaga.

Sett verði löggjöf, er tryggi bæjum og atvinnustöðvum hagkvæm afnot af lendum og lóðum í nánd við þær.

Undirbúin verði og sett löggjöf um stjórn og rekstur flugvalla.

Eins og kunnugt er Alþ. og alþjóð, baðst ráðuneyti Ólafs Thors lausnar hinn 10. október 1946. Ástæðan til þeirrar lausnarbeiðni var sú, að þegar Alþ. hafði samþykkt flugvallarsamninginn við Bandaríkin, rufu fulltrúar Sameiningarflokks alþýðu — Sósíalistaflokksins, samvinnu í ríkisstj. Ríkisstj. gegndi þó störfum áfram, eins og venjulegt er, að beiðni forseta Íslands. En skömmu eftir að lausnarbeiðnin hafði verið til greina tekin, hófust viðræður með fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna í hinni svokölluðu tólf manna nefnd. En þó að mál væru þar ýtarlega rædd, ýmissa gagna aflað og mörg sjónarmið dregin fram, leiddu þau störf þó ekki til neinnar jákvæðrar niðurstöðu.

Þegar störfum tólf manna nefndarinnar lauk, fór forseti Íslands þess á leit við formann Sjálfstæðisflokksins, fyrrverandi forsætisráðherra Ólaf Thors, að hann tæki að sér að gera tilraun til þess að mynda ríkisstj. Hann varð við þessari beiðni og miðaði tilraunir sínar við það að koma á stjórn sömu flokka, er áður höfðu unnið saman í ríkisstj. um tveggja ára skeið. En þær ýtarlegu tilraunir, sem þá voru gerðar, tókust, sem kunnugt er, ekki. Samtímis fóru og fram viðræður á milli annarra flokka um stjórnarmyndun, en þær báru ekki árangur.

Forseti Íslands óskaði þá eftir því, að ég tæki að mér að reyna að mynda ríkisstj. Með samþykki flokks míns tók ég þetta að mér. Ég sneri mér þá tafarlaust til allra stjórnmálaflokkanna og óskaði eftir því, að þeir nefndu fulltrúa til þess að ræða við mig um myndun samstjórnar, ef samkomulag næðist um málefni og önnur atriði. Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn urðu þegar við þessum tilmælum, en eftir stutta umhugsun, tilkynnti Sameiningarflokkur alþýðu — Sósíalistaflokkurinn, að hann vildi engar viðræður við mig eiga um stjórnarmyndun. Að því búnu hófust umræður á milli mín og meðstarfsmanna úr flokki mínum við fulltrúa frá Sjálfstæðis- og Framsóknarflokknum. Þessar viðræður stóðu lengi yfir, og var þó tíminn notaður út í yztu æsar og alla daga haldnir fundir og margir suma daga, og var gengið að þeim störfum frá öllum flokkunum þremur með mikilli atorku.

Mér var það ljóst í upphafi, er viðræður þessar byrjuðu, að ýmsir örðugleikar, erfiðir að yfirstíga, yrðu á þessari samningaleið. Stjórnmálaflokkarnir, sem nú hafa tekið saman höndum um stjórnarmyndun, hylla ólíkar stefnur og hafa áður átt í allhörðum deilum sín á milli. En frá mínu sjónarmiði og þess flokks, sem ég veiti forystu, bar brýna nauðsyn til þess að leggja allt kapp á að mynda þingræðisstjórn. Stjórnarkreppan var orðin löng og alvarleg og hafði auk þess áður verið næsta erfið og óviðfelldin, að ekki sé meira sagt, fyrir 2–3 árum síðan. Af þessu ástandi hefur það leitt nú undanfarið, að Alþ. gat alls ekki nægilega sinnt störfum og bráðabirgðaríkisstj. ekki tekið vandasöm og aðkallandi viðfangsefni þeim tökum, sem venjuleg ríkisstj. verður að gera. Og þótt Alþýðuflokkurinn sé minnstur stjórnmálaflokkanna á Alþ., taldi hann það skyldu sína og í samræmi við stefnu sína og starfsaðferðir að stuðla að því af öllum mætti, að komið yrði á þingræðisstjórn. Sama hugsunin og sama ábyrgðartilfinningin réð því og í hinum samstarfsflokkunum, að að lokum tókst að ná samkomulagi um myndun ríkisstj.

Það ræður af líkum, að þegar þrír ólíkir flokkar taka höndum saman um ríkisstj., þá sé málefnasamningurinn og stjórnarstefnan ekki eingöngu mótuð af einum flokki, heldur eru ólík sjónarmið samhæfð. En það er öllum —stjórnarflokkunum sameiginlegt, að þeir byggja störf sín og stefnu á lýðræði og þingræðisstarfsemi. — Og ekki hvað sízt þess vegna náðu þeir samkomulagi, þar sem þeim var öllum ljóst, að þingræðinu og jafnvel lýðræðinu væri háski búinn, ef ekki tækist mjög brátt að ráða fram úr öngþveiti stjórnarkreppunnar.

Málefnasamningur sá, er ég hef lesið upp hér á undan, skýrir sig sjálfur í öllum aðalatriðum. Ríkisstj. er það ríkt í huga að vernda og tryggja sjálfstæði hins unga íslenzka lýðveldis. Það verður að byggjast á þeim hornsteinum og skilningi, hversu mikils virði það sé og nauðsynlegt, að þjóðin geti lifað lífi sínu frjáls og sjálfstæð í hinu tigna og fagra landi sínu. Og ríkisstj. vill einnig stuðla að góðum skiptum við öll önnur ríki, en leggur sérstaka áherzlu á samstarf við frændþjóðirnar á Norðurlöndum.

En til þess að hægt sé að njóta frelsis og sjálfstæðis, verður að tryggja örugg lífskjör allra landsmanna og halda áfram nýsköpun og framförum í atvinnuháttum, og þá þarf einnig að haga rekstri þjóðarbúsins á skipulagðan hátt og notfæra til hins ýtrasta með samtökum almannavalds og einstaklinga fjármagn og vinnuafl þjóðarinnar. En til þess verður sömuleiðis að afla tekna hjá þeim, sem frekast eru aflögufærir, og nota þær til hagsmuna fyrir þjóðarheildina.

Dýrtíð og verðbólga er orðin ískyggileg. Þess vegna vill ríkisstj. vinna að því af alefli að stöðva hækkun dýrtíðar og framleiðslukostnaðar og leita að leiðum til lækkunar, allt til þess að tryggja hagkvæman og arðvænlegan rekstur atvinnuveganna.

Ríkisstj. er það vel ljóst, að við marga örðugleika er að etja og þörf er góðs samstarfs þjóðarinnar og atvinnustéttanna. Hún mun gera sér far um að sameina öll þau öfl í þjóðfélaginu, er vilja berjast fyrir því að tryggja sjálfstæði landsins, öruggan atvinnurekstur, áframhaldandi velmegun, aukna menningu og réttlæti í þjóðfélagsmálum. Hún óskar eftir stuðningi og samvinnu Alþ. til fulltingis og framkvæmda áformum sínum, og hún heitir einnig á þegnskap manna um land allt til þess að mæta og yfirstíga örðugleika þá, er fram undan kunna að bíða.

Þær eru ánægjulega stórstígar félagsmálaframkvæmdir síðustu ára. „Þeir, sem útskaga áður of byggðu“, geta nú notið annarrar aðbúðar og aukins öryggis. En til þess að hinar miklu réttarbætur geti orðið varanlegar og öryggi fengizt í framtíðinni, þarf að byggja traustan grundvöll í efnahagsmálum og atvinnurekstri. Það „varðar mest til allra orða, að undirstaða rétt sé fundin“. Ríkisstj. vill leggja fram orku sína til þess, að sá grundvöllur verði skapaður, — grundvöllur aukins öryggis og réttlætis í þjóðfélagsmálum.