18.04.1947
Neðri deild: 116. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

Olíustöðin í Hvalfirði

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Ræða hv. þm. Siglf. sannar, hvaðan sú rödd er runnin, sem birzt hefur í Þjóðviljanum um þetta mál. Honum rann blóðið meir til skyldunnar en hv. 2. þm. Reykv., og getur það gefið skýringu á þessu máli.

Varðandi það, að félaginu hafi verið fengin heimild til að ráðstafa þessum eignum þrjú ár, en ríkisstj. hafi enga heimild til að skipta sér þar af, þá er það algerlega ósatt. Það stendur í samningnum, að eignirnar séu seldar til eðlilegs rekstrar og stjórnin hafi heimild til að fylgjast með þessum rekstri. Og þar til viðbótar kemur það, að ríkisstj. hafi heimild til að þremur árum liðnum að sannprófa, hvort reksturinn sé kominn í það horf, að félagið hafi þörf fyrir allar þessar eignir.

Varðandi það, að ég hafi gleymt áhuga Bandaríkjanna fyrir Hvalfirði, vil ég taka fram, að eftir að ég kom í þetta embætti, hafa Bandaríkin engan áhuga haft fyrir þessu máli. Það var fyrrverandi forsrh., Ólafur Thors, sem fékk Bandaríkin til að falla frá þeim óskum, sem þau höfðu flutt fram í þessu efni. Ásakanir hv. þm. Siglf. um, að ég hafi gleymt Bandaríkjamönnum og áhuga þeirra fyrir stöðinni í Hvalfirði, eru því alveg út í bláinn og styðjast ekki við neitt atriði þessa máls, því að Bandaríkjamenn hafa engan áhuga sýnt fyrir þessu máli, hvorki Bandaríkjastjórn eða einstakir menn.

En þar sem hv. þm. var að biðja um, að öll skjöl málsins yrðu birt, þá hef ég lesið það upp, sem mestu máli skiptir, og lýst yfir, að hv. þm. megi skoða þau, eins og þá lystir. Ég hef lesið upp bréf, sem segir fyrir um söluna, ekki part af því, eins og hv. þm. segir, heldur allt. Ég hef lesið upp alla hluthafaskrá þessa félags, og er þar ekkert að dyl ja. Samt heldur hv. þm. því fram, að þessum gögnum sé enn leynt, þó að þau hafi verið lesin upp fyrir þingheimi.

Að lokum vil ég segja það, að menn kann að furða mjög á því, að þessar árásir koma nú fram og inn í þær blandað mörgu öðru, svo sem afurðasölu landsmanna, og af hverju hv. þm. Siglf., fyrrv. hæstv. atvmrh., hefur staðið hér upp og flutt þann róg, sem hér á sér stað. Skýringin er ákaflega einföld. Því miður hafa verzlunarsamningarnir austur í Moskvu gengið miklu verr en vonir manna stóðu til og miklu verr en hv. þm. Siglf. hafði reynt að telja þjóðinni trú um. Samningarnir hafa gengið á þann veg, að það er ekki hægt að segja, að þeir horfi vel fyrir Ísland, eins og sakir standa. Við skulum vona, að úr þessu rætist. Ég skal ekki fara um það fleiri orðum, en allt, sem hv. þm. Siglf. hafði sagt um sölumöguleika þar austur frá, hefur reynzt vera staðlausir stafir, sem ekki hafa við neitt að styðjast. Þessi hv. þm. er þess vegna nú vísvitandi og vitandi um það blaður, sem hann hefur gert sig sekan um, að reyna að koma því fram, að það sé íslenzku ríkisstj. að kenna og athöfnum hennar, ef þessir samningar takast verr en skyldi. En hv. þm. skal ekki takast það, gögnin liggja of skýrt fyrir til þess.