29.04.1947
Efri deild: 123. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1648 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Frsm. (Bernharð Stefánsson) :

Herra forseti. Það skulu aðeins verða fá orð, sem ég segi um þetta mál. Hv. þm. Barð. bar hér fram ýmsar spurningar, sem fyrst og fremst voru talaðar til ráðh., en að nokkru leyti einnig til fjhn. Nú er svo ástatt, eins og ég gat um í upphafi, að frsm. fjhn. í þessu máli er ekki hér viðstaddur og ég hljóp aðeins í skarðið á síðustu stundu, og þess vegna hef ég ekki svör við öllum þeim spurningum, og eiginlega ekki yfirleitt við þeim spurningum, sem hv. þm. Barð. bar hér fram. Ég geri aftur ráð fyrir, að ef hv. frsm. hefði verið hér viðstaddur, þá hefði hann getað svarað því, sem um var spurt, vegna þess að hann átti sæti í þeirri ríkisstj., sem sat, þegar þessar framkvæmdir voru gerðar, og hafði það embætti í þeirri ríkisstj., þó að þessar framkvæmdir heyrðu ekki beinlínis undir hann, að ég geri ráð fyrir, að hann hafi aflað sé ýmiss konar vitneskju um þessi mál. Það, sem er aðalatriðið, að því er ákvörðun snertir hér og að því er ákvörðun n. snertir, var það, hvort ætti að samþykkja þetta frv. og hvort ætti að samþykkja það óbreytt eða bera fram brtt. við það. Hér er ekki nema um tvennt að ræða, að stöðva verksmiðjurnar eða gera þær nothæfar, því að eins og þær eru, verða þær engum að gagni. N. þótti það einsýnt, að minnsta kosti fjórum af fimm nm., að taka heldur þann kostinn að enn væri lagt fram fé, til þess að þessi stórvirku framleiðslutæki gætu orðið starfrækt. Þetta er það, sem liggur fyrir til úrskurðar, hvort þetta skuli gera eða ekki. Svo er forsaga málsins annað atriði, sem er langt frá því, að ég segi, að sé óviðkomandi þessu máli, en ég er ekki þess umkominn að geta leitt hv. þm. Barð. eða aðra hv. dm. í allan sannleika um. Og er ég þó ekki að segja, að ástæðulaust sé að ræða þá hlið málsins og jafnvel gera ráðstafanir út af forsögu þess, þó að það yrði að gerast á öðrum vettvangi en við umr. um þetta frv.

Hv. þm. Dal. þarf ég ekki að svara, þó að hann hafi fyrirvara um fylgi sitt við málið. Hann kom inn á ýmislegt af því, sem ég hafði sagt, og leit hann á þau atriði, að því er fortíðina snertir, eins og ég. En mér þótti það skorta á hjá honum, að það komi fram, hvað hann vildi láta gera. Það var auðheyrt, að það var að minnsta kosti skilyrðum bundið, að hann samþykkti þessa hækkun, sem meiri hl. n. leggur til, og sé ég ekki, hvernig ástatt yrði um þessar verksmiðjur, sem þegar eru orðnar dýrar, ef látið væri staðar numið með þær framkvæmdir, sem þegar eru gerðar, jafnvel þó að einhver afgangur sé nú enn af þessum 11 millj., sem heimildin hafði áður verið hækkuð um.

Ég hjó eftir einu atriði í ræðu hæstv. fjmrh., sem mér þótti einkennilegt. Er ég honum annars þakklátur fyrir þær upplýsingar, sem hann gaf um þetta mál. Þetta atriði snertir einmitt mjög það, sem hér hefur verið mest til umr., þ. e. starfsaðferðir við þessa framkvæmd alla. Hann sagði, að það væri enn þá togstreita um afhendingu á skjölum viðvíkjandi þessari framkvæmd, að mér skildist á milli verksmiðjustjórnar og byggingarn. Ég vildi spyrja hann, hvernig það megi vera, þegar verksmiðjustjórnin er tekin við þessum málum, að það geti verið togstreita um afhendingu skjala. Er það ekki alveg sjálfsagt, að byggingarn. afhendi þeim aðila, sem nú tekur við allri framkvæmd í þessum málum, öll skjöl, sem fyrir liggja í málinu. Ég hefði haldið, að ef byggingarn. þrjózkast við það, þá sé ekki annað að gera en að ná í fógeta og láta ná þeim skjölum með fógetavaldi.

Hv. þm. Barð. spurði um það, hver bæri ábyrgð á ýmsu því, sem hér hefði farið aflaga, og var með ýmsar hugleiðingar um það. Mér sýnist það alveg tvímælalaust, sem hann virðist þó draga í efa, að fullnaðarábyrgð beri að ýmsu leyti sá ráðh., sem fyrir þessum málum stóð. Það getur að vísu komið fyrir, að embættismaður svíki sinn trúnað og sína embættisskyldu, og þá ber vitanlega ekki viðkomandi ráðh. ábyrgð á því út af fyrir sig, ef hann gerir ráðstafanir til þess að koma fram ábyrgð á hendur þessum starfsmanni, sem slíkan trúnað hefur svikið. En vitanlega, ef ráðh. verður var við stórfelld mistök í starfsgrein, sem undir hann heyrir, og gerir ekkert eftir það, þá ber hann vitanlega ábyrgð á því, en þrátt fyrir það verður sá, sem verkið framdi, ekki saklaus. Sum þessara atriða eru þannig, að mér finnst, að ráðh. hljóti að bera ábyrgð á þeim, t. d. hvað greitt er fyrir þessi nefndarstörf. Ráðh. hlýtur að hafa skaffað launin.

Ég ætla nú ekki að segja fleira. Ég vil taka undir það, sem ég hóf hér fyrstur máls á, að ég álít, að þetta mál sé þannig vaxið, að Alþ. geti ekki skilið svo við að gera ekki ráðstafanir til að þetta mál allt verði rannsakað ofan í kjölinn. Ég fullyrði ekkert um það, hvort um sakamálsrannsókn yrði að ræða, eins og hv. þm. Barð. virðist gera ráð fyrir, en rannsókn á því, hvernig í þessu liggur, í hverju allur þessi mikli kostnaður er fólginn, það finnst mér, að Alþ. verði að krefjast, að fram fari, nema því aðeins, að ríkisstj. tilkynni, að hún muni hafa forgöngu um þetta sjálf án aðgerða Alþ.