02.05.1947
Efri deild: 124. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

109. mál, nýjar síldarverksmiðjur

Ásmundur Sigurðsson:

Það er búið að ræða mikið og margt að segja, en það hefur sérstaklega verið bent á eina hlið þessa máls, en þagað um aðrar hliðar, sem ekki er síður ástæða til að draga fram. Það hefur eingöngu verið rætt, hve kostnaðurinn er mikill við þessar verksmiðjur, og í því sambandi hafa fallið orð, sem erfitt mun vera fyrir suma þm. að standa við. En það er hin hliðin, sem ég vildi draga fram, hvaða nauðsyn bar til þess að hraða þessum framkvæmdum eins og unnt var. Í sambandi við þetta vil ég benda á, að á einu mesta síldarárinu, sem við höfum fengið, 1940, var ástandið þannig, eftir grein í Morgunblaðinu 13. ágúst, að í júlímánuði einum saman hafði tjónið af síldarverksmiðjuleysinu numið 11 millj. kr. Ég vil benda á, hvílíkur skattur það er á sjómönnum, útgerðarmönnum og hinu opinbera, að ekki skyldu vera til síldarverksmiðjur. Ég vil þá gefa upplýsingar, sem eru úr þessari grein í Morgunblaðinu. Hún er eftir Jón J. Fannberg.

Hann tekur einn mánuð frá 3. júlí til 3. ágúst og gefur þær upplýsingar, að 10–20 skip hafi beðið í 10 daga, 21–30 skip í 4 daga, 31–40 skip í 5 daga, 41–50 skip í 3 daga, 51–60 skip í 2 daga, 61–66 skip í 3 daga. Alls voru þetta 27 dagar og meðaltal bíðandi skipa 32 á dag.

Nú gerir þessi greinarhöfundur þá aths., að það muni hafa verið eitthvað minni bið við aðrar verksmiðjur en verksmiðjurnar á Siglufirði, og mun hann gera það til þess að vera viss um að taka ekki munninn of fullan, en niðurstaðan verður sú, að af þeim 132 skipum, sem samning höfðu við síldarverksmiðjurnar, mun um það bil helmingur hafa beðið eftir löndun allan tímann. Þetta þýðir það, að þar sem allan þennan mánuð var gott veður og góð veiði, hefði eins mikið komið inn, þótt ekki hefði verið nema helmingurinn af skipunum við veiðar. Þetta gefur ástæðu til að hugsa, að á árinu 1946 hafi verið tilefni til að hraða byggingu þessara verksmiðja.

Hinn 30. júlí var fyrirskipuð veiðistöðvun vegna þess, að með þessu eyðilagðist síldin, og samningaskipunum var boðið að bíða 4 daga í höfn, eftir að losun hafði farið fram. Þetta þýddi það, að þau skip, sem voru nýkomin, þurftu að bíða í 5 daga eftir löndun og 4 daga í veiðibanni þrátt fyrir gott veður og næga síld skammt undan.

Að lokum segir greinarhöfundur orðrétt: „Fyrstu skipin losnuðu úr veiðibanninu á laugardag 3. ágúst. Daginn eftir var stormur, og tókst þá að hreinsa síðustu leifarnar af gamla síldargrútnum úr skipunum í þrærnar. Veiðiveður var aftur komið 5. ágúst síðdegis og góð síldveiði. Snemma morguns 6. ágúst var svo hildarleikurinn aftur byrjaður, yfir 20 skip bíðandi eftir löndun við ríkisverksmiðjuna á Siglufirði og þrærnar um það bil að fyllast. Lengra er sögunni ekki komið, þegar þetta er skrifað.“ Svona var ástandið þetta sumar með að tryggja sjómönnum, að þeir þyrftu ekki að moka í sjóinn þeirri síld, sem þeir voru búnir að veiða. Síðan leggur hann niður fjártjónið, sem af þessu hafi orðið, sem hér segir : 1. Helmingur veiðiskipanna bíður allan tímann. 2. Allan tímann var gott veður og næg síldveiði. 3. Skipin hefðu því getað tvöfaldað veiði sína, ef ekki hefði verið um bið að ræða. 4. Veiðitapið er því sama og aflamagnið eða 930 þús. mál og eftir þessu, reiknað með lágmarksverðinu, 1200 kr. á hvern hásetahlut. Hann fer mörgum orðum um þetta, og get ég tekið það fram, að rökin fyrir þessu eru mjög skýr í greininni. Tapið í hlut hvers skips er 30 þús. kr. og 60 þús. kr. á hverja herpinót. Enn fremur færir hann rök fyrir því, að öll árin til 1940, að árinu 1935 undanskildu, hafi verið meira og minna tap vegna þess, að ekki voru til nærri nógar síldarverksmiðjur til þess að taka við aflanum, og tekur hann sérstaklega árið 1937, að þá hafi tapið verið 7.5 millj. kr. í útflutningsverðmætum, en í júlí 1940 hafi heildarverð veiðitapsins verið 11 millj. kr. og útflutningsverðmætið um 18 millj. kr. Svo ætla ég ekki lengra út í þessa grein.

En þrátt fyrir þetta virðist svo sem lítið hafi verið gert til þess að sjá um að bæta úr þessu ástandi fyrr en á árinu 1942. Það fyrsta, sem er samþ. um það, er í september 1942, að reisa nýjar síldarverksmiðjur, 6 að tölu, sem eigi að reisa eftir hendinni, og var ákveðið að taka lán til byggingarkostnaðarins að upphæð 10 millj. kr. Þrátt fyrir það að búið væri að samþykkja þetta, var ekkert gert til þess að tryggja nýjar síldarverksmiðjur fyrr en árið 1945 eftir stjórnarskiptin, og þá var undirbúningurinn ekki meiri en það, að þá var ekki búið að undirbúa neina teikningu eða áætlun. Þetta er það, sem stjórnin tók við, og þó tók hún þá ákvörðun að freista þess að reyna að koma upp síldarverksmiðjunum fyrir síldarvertíð 1946.

Nú hefur verið mikið um það talað og af litlum kunnugleika, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hafi ásakað ráðh. og byggingarnefnd fyrir það, hvað þessar síldarverksmiðjur séu dýrar. Nú verðum við að athuga það, að ákveðið var að stækka flotann til mikilla muna. Það er viðurkennt, að flotinn er miklu meiri en nokkru sinni áður, miklu stærri en árið 1942. Árið 1945 var síldarleysisár, og bjuggust allir við, að ekki kæmi annað eins ár 1946. Hvað væri sagt um stjórn, sem ákvæði að stækka flotann, en hugsaði ekki um að stækka verksmiðjurnar? Ef veiðin hefði orðið svipuð og 1942 með svona miklum flota, en ekki meiri verksmiðjum, hvernig hefði ástandið orðið þá og hvað hefði verið sagt um þá stjórn eða þann atvmrh., sem léti þau atriði dankast? Þetta álít ég, að sé nóg til þess að sýna, að það var ekki aðeins rétt af stjórninni eða atvmrh. að ákveða það að gera allt, sem hugsanlegt væri, til þess að koma síldarverksmiðjunum í gang. Það var beinlínis skylda stjórnarinnar að gera það, og hefði verið alveg ófyrirgefanlegt að gera það ekki.

Þá vildi ég einnig minnast á ýmsar rangfærslur, sem beinlínis hafa komið fram í þessum umr., og sérstaklega komu rangfærslur fram hjá hv. þm. Barð. við 2. umr. málsins, þar sem hann segir, að atvmrh. hafi þrenn l. frá Alþ. um kostnað við þessar síldarverksmiðjur. Ég vil minna hann á það, af því að oft hefur verið á það minnzt, að kostnaðurinn hafi hækkað úr 10 millj. og upp í 43 millj. kr., að í upphaflega frv., þar sem gert er ráð fyrir að byggja, er ætlazt til, að stjórnin taki 10 millj. kr. í þetta og afli sér svo frekari lánsheimildar, eftir því sem meira er byggt. Ég vil benda á það, að fyrsta breyt., sem gerð er 1944, er eftir till. stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, og er samþykktin um það á bls. 4 í skýrslu, sem útbýtt hefur verið hér. Ég vil leyfa mér að lesa það, sem þar segir: „Á fundi stjórnar SR, hinn 27. október 1944, var samþ. svo hljóðandi till. varðandi byggingu nýrra verksmiðja: „Stjórn síldarverksmiðja ríkisins samþykkir að leita enn á ný fyrir sér um kaup á vélum og efni í hina fyrirhuguðu 10 þús. mála síldarverksmiðju á Siglufirði. Enn fremur um kaup á vélum og efni í síldarverksmiðju á Skagaströnd (Höfðakaupstað) með 5–10 þús. mála afköstum á sólarhring, að fengnu leyfi ríkisstj, og aukinni lánsheimild.“ “ Þetta álít ég þá nægilegt, bæði í sambandi við það, sem hv. þm. N-M. sagði um l. frá 1942, og hækkun á heimildinni úr 10 millj. í 20 millj. kr.

Þá er það næst hækkunin, sem var gerð árið 1946 úr 20 millj. í 27 millj. Þarna var vitaskuld um mistök að ræða í áætluninni, en sú hækkun var gerð eftir till. frá byggingarn. síldarverksmiðjanna, og tekur hún það fram í bréfi, sem hún skrifar til fjhn. Nd., þar sem hún svarar ummælum fulltrúa Framsfl. um málið. Í þessu bréfi segir svo: „Upplýsingar þær, sem vitnað er til í sambandi við hækkun lántökuheimildar úr 20 millj. kr. upp í 27 millj. kr., eru teknar úr bréfi byggingarnefndar til fyrrv. atvmrh., og ber því að saka byggingarnefnd, en ekki ráðh., um það, ef nefndar upplýsingar hafa „verið mjög fjarri því að vera réttar“, eins og flm. kemst að orði. Í skýrslu, sem vér höfum sent fjhn., er gerð nokkur grein fyrir því, að nauðsyn var á hærri lánsheimild en gert var ráð fyrir á s. l. vetri, og verður það ekki endurtekið hér. Það sem byggingarnefnd hugði þá, að staðizt gæti, var að miklu leyti byggt á umsögnum þeirra, sem aðalverkin höfðu með höndum, og geta þeir, sem það vilja, ásakað n. fyrir að treysta umsögnum þessara sérfróðu aðila. Það mun flestum kunnugt, sem eitthvað þekkja til þessara mála, að byggingarnefndin hafði enga aðstöðu í upphafi starfs síns til þess að gera áætlanir um byggingarkostnað, og enginn nm. mun hafa ætlað, að það yrði gert að sérstöku árásarefni, þegar um var að ræða fjárútlát til þess að ljúka verksmiðjubyggingunum: Upplýsingar þessar eru teknar úr bréfi til ráðh.

Hins vegar segir byggingarnefnd erfiða aðstöðu, vegna þess að byrjunarundirbúningur hafi verið enginn, enda þótt 2 ár væru liðin frá því, að l. voru samþ., og þess vegna hafi verið byrjað, án þess að hægt væri að gera nákvæma áætlun. Og ég vil taka það fram, þar sem það hefur komið fram, að það væri sök byggingarnefndar að hraða byggingu síldarverksmiðjanna, að þá er það ekki hennar sök, því að hún fékk fyrirskipun um það frá ríkisstj. eða atvmrh., svo að hægt væri að ljúka verkinu fyrir síldarvertíð. Byggingarnefnd segir ennfremur, að vegna þessara ástæðna hafi verið erfitt að gera nákvæma kostnaðaráætlun og hafi hún byggt á umsögn þeirra aðila, sem verkið höfðu með höndum. Ég vil benda enn á eitt, að ástæðan fyrir því, að verksmiðjurnar hafi reynzt svo dýrar, er talin sú, að unnið hafi verið svo mikið í næturvinnu og eftirvinnu. Í bréfi byggingarnefndar er skýrt nákvæmlega frá aukakostnaði á Skagaströnd vegna nætur- og eftirvinnu, og það eru þessar tölur: Eftirvinna 203 þús. kr. og næturvinna 386 þús. kr. eða alls um 590 þús. kr., sem verkið verður dýrara vegna þess, að ekki er allt unnið í dagvinnu. Enn fremur færir byggingarnefnd rök fyrir því, að vegna þess, að ákveðið var að hraða verkinu, hafi ýmsir hlutir orðið ódýrari en ef það hefði dregizt á langinn og bendir réttilega á, að vegna hækkandi vísitölu hefði byggingarkostnaður orðið enn þá meiri. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta öllu fleiri orðum, en taldi rétt að láta þetta koma fram, vegna þess að hér hefur eingöngu önnur hliðin verið túlkuð, aðeins kostnaðarhliðin, án þess að gera sér grein fyrir því tjóni, sem hefði getað orðið vegna skorts á verksmiðjum. Í sambandi við það, að rannsókn sé nauðsynleg á þessu máli, þá vil ég taka fram, að það tel ég rétt eins og í mörgum öðrum tilfellum, sem hv. þm. Barð. nefndi réttilega. En mér hefur skilizt, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins eigi að framkvæma rannsóknina, en hún er ekki sá rétti aðili, heldur ætti rannsókn að vera gerð af hlutlausum aðila, en það er hæpið með stjórn síldarverksmiðja ríkisins, sem hefur átt í deilum við byggingarnefnd.