13.01.1947
Efri deild: 49. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

10. mál, útsvör

Hermann Jónasson:

Hv. 1. þm. N-M. taldi rétt að bíða eftir áliti mþn. í þessu máli, en ég vil þá endurtaka það, að ég sé ekki ástæðu til þess, að allshn. biði neitt eftir áliti mþn. með álit sitt um ekki margbrotnara mál en þetta og geti myndað sér skoðun eftir því sem hún telur nauðsynlegt í málinu.

Þó að ég ætli ekki að fara að ræða efnishlið þessa máls, þá finnst mér rétt að skýra það með örfáum orðum fyrir hv. d., hvað er hér í raun og veru deiluefnið. Það er dómur hæstaréttar um hlutafélagið Djúpavík. Eins og kunnugt er, er það skrásett norður á Reykjarfirði og hefur þar mikið af rekstri sínum, eða allan, en það er lagt útsvar á það hér, af því að yfirstjórn félagsins, fyrirsvar þess, sjóðir og bókhald er hér í Rvík, og verður af því að telja heimasetu félagsins hér í Rvík. Þetta er efnið, sem hér er deilt um, og um þetta mál hefur fallið hæstaréttardómur.

Mér hefur dottið í hug, að þessum l. yrði breytt þannig, að slík félög greiddu útsvar þar, sem þau rækju atvinnu sína eða hefðu rekstur sinn, ef það væri á annað borð talið á fleiri en einum stað. En eins og kunnugt er, skildi hæstiréttur ákvæði útsvarsl. á þann veg, að þar sem stjórn þessa félags, Hf. Djúpavík, væri í Rvík og peningar fara þar gegnum kassann, þá ætti útsvarið að vera greitt til Reykjavíkurbæjar. En við vitum, að þetta félag aflar tekna aðeins vegna auðlinda, sem eru þarna norður frá, og því skyldu þeir hreppar, sem hafa þá aðstöðu að hafa þessar auðlindir, ekki eiga að fá þau útsvör greidd til sín, því að þar er teknanna aflað.

Viðvíkjandi 2. gr., þá er ég sammála hv. þm. Barð., að henni verði sleppt í þetta sinn.

Mér þótti rétt, að það kæmi hér skýrt fram, um hvað hér er deilt.