18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1710 í B-deild Alþingistíðinda. (2890)

10. mál, útsvör

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm. hefur nú gert grein fyrir þeirri brtt., sem hér er fyrir til umr. Ég skal ekki á þessu stigi málsins fara út í það að rökræða við hann um það, hvort það er rétt, sem hann heldur fram, að flestallir aðilar, sem þessi skipting á útsvörum varðar í framkvæmdinni, telji hagkvæmt, að þetta ákvæði um skiptingu útsvara falli niður úr l. En ég stóð upp af því, að mér er fullkomlega ljóst, að það hlýtur einhvers staðar að vera hagnaður af þessari skiptingu. Það mætti gjarnan koma fram, annaðhvort undir umr. eða fyrir atbeina n., hvernig þetta skiptingarákvæði hefur verkað nú á síðustu tímum gagnvart einstökum byggðarlögum. En mín meining er sú með ræðu minni hér að fara fram á það við hæstv. forseta, að þetta mál verði ekki afgr. í dag frá þessari hv. d., heldur verði svo merkilegri brtt. sem þessari vísað til n. til athugunar. Og ég óska um leið, að það liggi þá fyrir umsögn um brtt. frá stöðum, sem n. ætti hægt með að fá fljótt, svo sem frá Reykjavíkurbæ, Hafnarfirði og jafnvel Akranesi og Keflavík og e. t. v. fleiri stöðum. Því að ég tel ekki rétt að breyta svona þýðingarmiklum ákvæðum l., sem menn hafa mikið lagt upp úr á undanförnum árum, án þess að a. m. k. okkur hér, sem eigum að greiða atkv. um þetta, sé ljóst, hvort þessi breyt., ef samþ. væri, er í fullu samræmi við það, sem hv. flm. brtt. lét skína í, að það séu yfirleitt allir komnir á eina og sömu skoðun um þetta. Ég dreg í efa, að svo sé. Ég vil fá frekar upplýst um að, áður en gengið er til atkv. um þessa brtt. Ég fer því mjög eindregið fram á það við hæstv. forseta, að málinu verði nú frestað, svo að n. geti athugað það frekar með tilliti til brtt. þeirrar, sem fram hefur komið.