18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (2893)

10. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil fyrst benda á, að ef fella á niður skiptingu á útsvör um og taka út úr útsvarsl. þau ákvæði, sem eru um það efni, þá þarf að gera á þeim fleiri breyt. en þessar tvær, sem hér er um að ræða. Hins vegar held ég, að þessar breyt. séu ekki þess eðlis, að þær eigi að ná fram að ganga. Ég bendi á það, að það er ákaflega algengt, að skipting útsvara er felld niður, þó að hún ætti að réttu lagi eftir l. að framkvæmast, af því að hreppurinn, heimasveitin, sem maðurinn á heima í, sem útsvar hjá ætti að skiptast hjá, gleymir að gera kröfu um skiptinguna í tæka tíð. Ég veit ekki, hve mikil brögð eru að þessu. En ég veit, að til ríkisskattan. koma margar útsvarsskiptingar, sem undirskattanefndir eru búnar að framkvæma, en hafa orðið að falla niður og ógildast, vegna þess að kröfurnar um skiptinguna hafa ekki verið gerðar í tæka, tíð. Þó að þessi lagaákvæði um skiptingu útsvara hafi staðið nú nokkuð lengi, þá hafa menn ekki lært að nota þau til fulls. Þeim skiptingarkröfum, sem komið hafa til ríkisskattan., má skipta í þrennt: Í fyrsta lagi eru þær viðkomandi embættismönnum, sem búa annars staðar en þar, sem þeir hafa embættisrekstur sinn, og hafa öll laun sín í annarri sveit en þar, sem þeir eiga heima. Embættismenn, sem hafa skrifstofur í Rvík, búa ýmsir í Hafnarfirði eða frammi á Seltjarnarnesi eða uppi í Mosfellssveit o. s. frv. Og embættismenn, sem hafa skrifstofur á Akureyri, eiga kannske heima í Hrafnagilshreppi. Útsvörum þessara manna er alltaf skipt, og ég get ekki séð, að sú sveit, þar sem þessir menn eiga heima, eigi að fá allt útsvarið frá þeim. Mér finnst alveg eðlilegt og sjálfsagt, að þessi skipting haldist á útsvörum þessa stóra hóps manna, sem þarna er um að ræða. Og kröfur um skiptingu útsvara þeirra eru löngu hættar að koma til ríkisskattan., því að ekki er neitt karp út af þeirri skiptingu lengur. Og alltaf kemur eitthvað fyrir af svona mönnum, sem alveg liggur ljóst fyrir, hvernig eigi að skipta útsvörum frá Heimasveit á þar að fá eignaútsvarið og 1/3 hluta af tekjuútsvarinu. Þetta er reglan, sem fylgt er. — Þá kemur annar hópur manna, sem eru barnakennarar. Það eru árlega margir barnakennarar, sem settir eru hingað og þangað eitt ár í stað, og er gerð krafa um að fá hluta af útsvari þeirra til þeirrar sveitar, þar sem þeir kenna. Það má segja, að þessir menn séu meiri farfuglar en hinir embættismennirnir, sem ég nefndi, og geri minna til um, hvar þeirra útsvör lenda. Þó finnst mér reyndar sama gilda um þá og hina embættismennina, að þar, sem þeir hafa sínar tekjur, eigi þeir að greiða hluta af útsvarinu. Þessir menn hafa venjulega tekjur á fleiri stöðum sama árið, venjulega tekjur í heimilissveitinni líka. — Þá kemur þriðji hópurinn manna, sem eru menn, sem fara í atvinnuleit, aðallega úr sveitum til kaupstaðanna, og kaupstaðirnir gera svo kröfur um að fá hluta af útsvari þeirra, þegar þeir vinna þar utan sinnar heimilissveitar. En það lágmark, sem þessir menn verða að vinna sér inn utan heimilissveitar, til þess að til greina komi skipting á útsvörum þeirra eins og nú er, er, ef ég man rétt, um 9 þús. kr., þegar með er talin vísitöluhækkun á kaupi. Nú er algengt, að krafa kemur frá heimilissveit manna, sem vinna þannig utan heimilissveitar, af því að haldið er, að þeir hafi náð því að vinna fyrir þessari upphæð utan sinnar heimilissveitar á einhverjum sérstökum stað, en menn hafa ekki náð þar þessari tekjuupphæð. T. d. eru nú kröfur frá hreppi norður í landi, þar sem krafizt var úrskurðar á skiptingu, sem yfirskattan. hafði gert um þrjá menn. Tveir höfðu ekki þetta tekjuhámark, og skipting á útsvörum þeirra kom ekki til greina, en einn hafði það. Þessir menn höfðu allir dvalið fjarri heimilissveit sinni megnið af árinu og aflað tekna hér og þar, en tveir þeirra hvergi svo hárra, að skipting á útsvarinu kæmi til greina.

Ég held, sem sagt, að það sé sjálfsagt að halda áfram að skipta útsvörum. Og ef því væri allt í einu hætt, þá mættum við eiga alveg víst, að um leið mundu þjóta upp gerviheimili í sveitum landsins, ef menn héldu, að útsvör þar væru léttari en þar, sem þeir raunverulega ættu heima. Þau hafa verið mörg dæmin áður, þar sem menn hafa talið sér heimili, en ekki átt það, heldur haft það sem skálkaskjól, til þess að komast hjá opinberum gjöldum. En ef útsvörum er skipt, minnkar hagnaðurinn af gerviheimilunum og hverfa líkurnar að verulegu leyti til þess, að þau verði höfð sem skálkaskjól til að spara sér að gjalda opinber gjöld. En ef ekki mætti skipta útsvörum, mundu gerviheimilin þjóta upp eins og gorkúlur á haug. Þá yrðu menn hér í Rvík ekki lengi að hugsa sig um að eiga heima frammi á Seltjarnarnesi eða annars staðar utan bæjar, til þess að létta útsvarsbyrði sína.

Hitt er annað mál, að það er eitt atriði í sambandi við þetta, sem mikið þarf að athuga, sem mþn. mun sjálfsagt athuga, og það eru menn, sem eru á togurum og öðrum skipum. Það er náttúrlega nú farið að finna upp á því, að til þess að ná ekki tímanum, sem talað er um í 9. gr. l. um það, að ef maður er ekki skráður nema í 3 mánuði á skipi, þá gilda aðrar reglur um útsvarsgreiðslu hans, — það er farið að finna upp á því nú að slíta skrásetningartímann í sundur, láta menn inn á milli ekki vera skráða í 8 daga. — Það eru mörg atriði, sem þarf að breyta, ef farið er að breyta útsvarsl. á annað borð, sem n. mun vafalaust taka til athugunar og gera. En ég tel, að þessi eina breyt. út af fyrir sig, sem hér er gerð till. um, sé fyrst og fremst ekki næg og í öðru lagi tel ég hana óréttláta og alls ekki rétt að láta ekki atvinnusveit hafa hlut af útsvörum manna. Því að það segir sig sjálft, að atvinnusveit, sem verður að sjá um það, sem atvinnulífið þarf, eins og vegi og kannske bryggjur o. fl. o. fl., verður að geta lagt útsvör á þá atvinnu, sem rekin er í sambandi við þau mannvirki, sem hún hefur lagt í kostnað við að koma upp og halda við. Það liggur í hlutarins eðli. Ég tel þessa breyt. á l. óréttláta og að það eigi að fella hana.