18.04.1947
Efri deild: 120. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (2895)

10. mál, útsvör

Frsm. (Hermann Jónasson) :

Það er sérstaklega með tilliti til þess, að hæstv. forseti minntist á það, að hann mundi fara nokkuð eftir því, sem form. n. leggur til um afgreiðslu þessa máls, að ég sé ástæðu til þess að óska ekki eftir neinni frestun á málinu. Ég sé ekki, að hún hefði neina þýðingu fyrir málið. Mér þykir sennilegt, að sú skoðun, sem kemur fram í brtt. þeirri, sem fyrir liggur frá einum nm., verði ekki breytt, þó að það verði haldinn fundur um málið í n. Það er þess vegna að öllum líkindum ekki til annars en að tefja afgreiðslu málsins nú um stund að fresta því til þess að láta ræða það í n., það yrði að öllum líkindum árangurslaust. Það er rétt, að það hefur verið til athugunar hjá n. og komið þar fram ýmsar raddir um það, hvernig breyt. í þessa átt skyldi fram borin, en það var engin endanleg ákvörðun um það tekin, en þó tel ég, að mér sé það kunnugt, að sá meiri hl. n., sem var til staðar við afgreiðslu málsins (hv. 7. landsk. mætti þar ekki), sé mótfallinn þessari brtt.

Um brtt. er það að segja, að ég sé ekki ástæðu til þess að fylgja þeim, — vegna þess að ég legg áherzlu á, að aðalbreyt., sem meiri hl. n. leggur til, komist fram. Ég legg áherzlu á það vegna þess, að ég tel það almennt nauðsynlegt réttlætismál að gera þessar breyt. og þær eru mjög nauðsynlegar fyrir fyrirtæki, þar sem ég hef einnig hagsmuna að gæta. Ég ætla, að um þessa brtt., sem einn nm. flytur, verði talsvert skiptar skoðanir, því að það mun rétt vera, að í þeirri n., sem hefur útsvarsl. til endurskoðunar, sé ágreiningur um þetta atriði. Ég álft nauðsynlegt .að gera breyt. á 2. og 3. lið 9. gr. Að því leyti er ég flm. brtt. sammála, en ég er ekki reiðubúinn til þess að segja á þessu stigi málsins, að þær eigi að vera þannig að fella þær niður án þess að eitthvað annað komi í þeirra stað. Ég hef frekar tilhneigingu til þess að álíta, að það sé varasamt að fella þær niður algerlega, þó að það kunni að þurfa að gera á þeim breyt.

Afstaða mín verður þessi: Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fram á frestun, og í annan stað mun ég greiða atkv. gegn þessari brtt., sem hér er komin fram, af þeim ástæðum, sem ég hef nú stuttlega gert grein fyrir.