05.03.1947
Neðri deild: 86. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1729 í B-deild Alþingistíðinda. (2930)

92. mál, tannlækningar

Frsm. meiri hl. (Helgi Jónasson) :

Það er nú, orðið langt síðan þetta frv. var til umr. hér í d., en þá hafði ég kvatt mér hljóðs. Þó að fyrnt sé yfir eitthvað, sem þá var sagt, þá man ég það, að andmælendur mínir voru þeir hv. 2. þm. Eyf. og hæstv. samgmrh.

Þeir voru að tala, um það, að við í meiri hl. heilbr.- og félmn. vildum draga úr rétti tannsmiða. Þetta er alls ekki rétt. Hér er um enga réttindaskerðingu að ræða, en hitt er annað mál, að við viljum ekki fallast á réttindaaukningu, sem minni hl. n. berst fyrir, vegna þess að það skapar ósamræmi. Það er því úr hörðustu átt, þegar þeir átelja okkur í meiri hl. fyrir, að við viljum skapa misrétti, því að í brtt. minni hl. er gert ráð fyrir, að viss hluti tannsmiða fái aukin réttindi. Hvað er misrétti, ef ekki það að taka vissan hluta út úr og auka rétt þeirra tannsmiða, sem í þeim hluta eru, en ekki hinna? Nú liggja fyrir tvær brtt. á þskj. 461 frá 7. þm. Rvík. og 482 frá meiri hl. heilbr.- og félmn. Þær ganga að nokkru leyti út á það sama, en það er, að tannsmiðir gangi fyrir hjá tannlæknum með atvinnu, og í brtt. á þskj. 482 er gert ráð fyrir, að heilbrigðisstj. ákveði kjör þeirra. Ef tannlæknir veitir ekki þau kjör, sem heilbrigðisstj. ákveður, þá heldur tannsmiðurinn sínu leyfi. Þetta er stór úrbót, því að heilbrigðisstj. ætti að vera trúandi til að ákveða launin viðunanleg. Þetta vona ég, að samkomulag geti orðið um, og minni hl. n. sætti sig við þá lausn á málinu, en fari ekki að binda sig við sína brtt., sem einungis eykur misræmið frá því, sem frv. upphaflega gerði ráð fyrir.