16.05.1947
Efri deild: 133. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (2952)

92. mál, tannlækningar

Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætla aðeins að segja hér örfá orð, sem staðfesta afstöðu mína við atkvgr. um þetta mál. — Satt að segja er ég dálítið undrandi yfir þeirri togstreitu, sem er höfð í frammi um þetta litla mál, þar sem um er að ræða hluti, sem jafnsjálfsagt er, að Alþ. veiti þessum konum, sem hér eiga hlut að máli, meðan þær geta innt af hendi þessi störf, sem þær hafa unnið að um mörg ár.

Það vill svo vel til, að ég er persónulega kunnugur einmitt þeirri konu, sem starfað hefur við tannsmíðar á Akranesi. Hér er um ekkju að ræða, sem hefur verið að sjá fyrir börnum sínum og koma þeim til manns. Lagði hún út í að fara að vinna þessi störf sjálfstætt til þess að afla sér meiri tekna en hún hefði getað haft með því að starfa hjá öðrum, sem hún um langt skeið hafði gert. Hún var fullkomlega fær í sínu starfi sem tannsmiður og fékk vottorð um það að geta unnið sjálfstætt, en svo er ætlazt til þess, að þessi kona, sem komin er um sextugt og á því ekki mörg ár eftir, sem hún getur rækt þessi störf, að hrekja hana burt frá þessum stað eða að hún leggi niður starf sitt og gera henni þannig ókleift að sjá fyrir heimili sínu með þeirri vinnu, sem hún hefur innt af hendi. Ég fæ því ekki skilið tilefni þess ofsa, sem komið hefur fram hjá sumum hv. þm. út af jafn sjálfsögðu máli og þetta mál er. Get ég fullvissað hv. 3. landsk. þm. um það, að þessi kona fer aldrei til Ísafjarðar eða Vestmannaeyja til þess að stunda þessi störf þar. Hún hefur búið hér áratugi og mun hugsa sér að enda sitt skeið í þessum bæ. Um yngri konuna, sem hefur sett sig niður í Hafnarfirði og hefur próf frá erlendum skóla og vottorð, virðist mér minna deilt, og er þess að vænta, að hún fái áfram að vinna störf sín þar. — Ég vil því eindregið taka undir þau rök, sem hér hafa komið fram, að þeir aðilar, sem hafa öðlazt lagaleg réttindi til starfs, fái að halda þeim svo lengi sem þeim endist aldur til og að það sama gildi um þær heiðurskonur, sem hér eiga hlut að máli. Ég hygg, að það sé alveg rétt skoðun hjá hv. frsm. málsins, að með því að breyta nú þessu frv. samkvæmt till. á þskj. 834 sé verið að koma málinu fyrir kattarnef, og að við gætum drepið málið hér eins og sent það til hv. Nd., ef dæma má af þeim hita, sem orðið hefur um málið þar, og m. a. af þeirri ástæðu mun ég ekki geta greitt atkv. með þessari brtt., en mun með mínu atkv. gera tilraun til, að frv. fáist lögfest hér á Alþingi.