06.05.1947
Efri deild: 126. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (3182)

192. mál, fyrningarsjóður ríkisins

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Það er rétt, að hv. 2. þm. N-M. hreyfði tveim aths., þegar málið var við 1. umr. Hann sýndi réttilega fram á, að í fyrstu gr. væri gert ráð fyrir tvenns konar afskriftarákvæðum. Annars vegar skuli ríkissjóður telja eignir sínar með fasteignamatsverði, en hins vegar skuli þeim stofnunum, sem ekki hafa sameiginlegan fjárhag við ríkissjóð, heimilt að telja fasteignir sínar til eignar með kostnaðarverði. Hin spurningin var varðandi afskriftarprósentuna, þar sem hún er önnur en leyfð er nú samkv. skattal. Um fyrra atriðið er það að segja, að þessi varnagli er settur vegna atvinnustofnana, sem reknar eru af ríkinu. Er þá sérstaklega haft í huga fyrirtæki eins og síldarverksmiðjur ríkisins, landssmiðjan o. fl. Það orkar ekki tvímælis, að það er ófullnægjandi fyrir fyrirtæki eins og síldarverksmiðjur ríkisins að afskrifa byggingar sínar og vélar eftir fasteignamatsverði. Það er óeðlilegt að leyfa ekki ríkisverksmiðjunum að afskrifa verksmiðjurnar á sama hátt og einstaklingsfyrirtæki fá að gera. Varðandi það, að fyrningarprósentan sé lægri hjá ríkinu en það, sem leyft er hjá einstaklingum, þá liggur það í hlutarins eðli, að því hærri sem afskriftarprósentan er, því meiri eru útgjöld fyrir ríkissjóð til þessara hluta. Er því ekki nema eðlilegt, að þessu sé stillt í hóf, eftir því sem hægt er, og ekki lagt meira til hliðar en nauðsynlegt er til þess að endurbyggja þessar stofnanir. Og það er litið svo á, að sú prósenta, sem leyfð er, sé nauðsynleg til þess. Hv. þm. kom nú með þriðju spurninguna, og er hún varðandi leiguliðabótina af jarðeignum ríkissjóðs. Ég ætla, að þessi löggjöf hafi engin áhrif á leiguliðabótina. Ef ég man rétt, er hún miðuð við það, hvað mikið fé ríkissjóður hefur lagt fram til ákveðinna framkvæmda á jörðinni. Ef ríkissjóður byggir á jörðinni fyrir 10 þús. kr., þá sé hún viss hundraðshluti af þeirri upphæð, og það rennur svo í sérstakan sjóð. Annars held ég, að eitthvað hafi verið áfátt um framkvæmd þessarar löggjafar. Þetta er samningsatriði milli leiguliða og ríkissjóðs í hverju tilfelli. Ég get ekki séð, að frv., þótt að l. yrði, muni hafa áhrif á þetta. Hins vegar mun sennilegt, að eignareikningur ríkisins muni fara fram á afskriftir af húsum í samræmi við frv. Ég persónulega tel, að ákvæði frv., eins og þau liggja fyrir, séu eðlileg og það sé hæpinn ávinningur að breyta frv. frá því, sem það er nú, enda hefur málið fengið gaumgæfilega athugun hjá þeim mönnum, sem bezt skilyrði ættu að hafa til að dæma um það. Að samningu þess stóðu skrifstofustjóri fjmrn., aðalendurskoðandi ríkissjóðs og ríkisbókari.