17.02.1947
Efri deild: 74. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1862 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

172. mál, loðdýrarækt

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson) :

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af landbn. fyrir tilmæli frá stjórn Loðdýraræktarfélags Íslands. Í því eru fólgnar nokkrar breyt. frá núgildandi l. um þessi efni. Eins og þm. mun vera kunnugt, voru fyrstu l. um loðdýrarækt sett 1937. Síðan var þeim l. breytt 1940. Árið 1944 kom svo fram stjfrv. um breyt. á þessum l., en því frv., var vísað frá með rökst. dagskrá, eftir að leitað hafði verið umsagnar Loðdýraræktarfélags Íslands og Búnaðarfélags Íslands og þau mótmælt frv.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir nokkrum breyt., sem miða að því, að Loðdýraræktarfélag Íslands fái aukinn íhlutunarrétt um störf loðdýraræktarráðunauts, og eru þau ákvæði í 1., 2., 3., 5. og 6. gr. Í annarri málsgr. 1. gr. er lagt til, að loðdýraræktarráðunautur skuli hafa eftirlit með framkvæmd l., en hann skal starfa í sambandi við Loðdýraræktarfélagið, og er hans eftirlit nýmæli. Í 2. gr. er og gert ráð fyrir, að Loðdýraræktarfélag Íslands, en ekki loðdýraræktarráðunautur segi fyrir um, hvernig þau eyðublöð skuli vera, er þar um getur. Í 5. gr. er aðalákvæðið um að gefa Loðdýraræktarfélagi Íslands íhlutunarrétt um störf ráðunautar, og er það ákvæði nýtt. Í 6. gr. er svo gert ráð fyrir, að loðdýraræktarráðunautur ferðist milli loðdýrabúanna úti um land í samráði við Loðdýraræktarfélag Íslands. Önnur breyt. er svo í 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að menn séu skyldaðir til að hafa tryggari vörzlu um dýrin en hingað til hefur verið með því að setja ytri girðingu það langt frá búrunum, að hún valdi ekki aðfenni að þeim. Þetta atriði um ytri girðingu er nýtt og sett vegna þess, að mjög ótryggt þykir að hafa aðeins eina girðingu um búrin. Ákvæði er einnig í 3. málsgr. þessarar gr. um það, að viðkomandi hreppsnefnd eða bæjarstjórn geti svipt loðdýraeiganda leyfi til loðdýraræktar, ef hann vanrækir hina lögboðnu vörzlu. Í l. frá 1937 var ákveðið, að menn þyrftu leyfi bæjar- eða sveitarstjórna til þess að rækta loðdýr, en ekkert ákvæði var um sviptingu slíkra leyfa. Þá er í 4. grein það nýmæli, að allir er eiga loðdýr skuli skyldir að vera meðlimir í Loðdýraræktarfélagi Íslands, eins þótt þeir komi dýrunum í vörzlu og fóður hjá öðrum. Sömuleiðis er þar ákveðið, að félagsgjöldum skuli fylgja lögtaksréttur. Í 8. gr. er gert ráð fyrir að fella niður II. kafla laga frá 13. júní 1937, um loðdýralánadeild, og er það gert að ósk bankastjóra Búnaðarbankans. Lánadeildinni var veitt fé úr ríkissjóði, um 50000 kr. næstu 5 árin, en meginið af því er nú tapað, og er því lagt til að fella þennan lagakafla niður. Hins vegar benti bankastjóri Búnaðarbankans á, að ef ástæða þætti að halda greiðslum þessum áfram, væri það athugandi í sambandi við afgreiðslu frv. til l. um ræktunarsjóð, er nú liggur fyrir Alþ.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða þetta öllu meira. N. er fús til að taka þetta frv. til frekari athugunar, en hún flytur það, eins og áður er sagt, að ósk Loðdýraræktarfélags Íslands, og hafa nm. óbundnar hendur við afgreiðslu þess. Ef málinu yrði aftur vísað til n., mundi hún taka það til frekari athugunar og leita umsagnar um það, t. d. hjá búnaðarþingi, er mun koma saman um næstu mánaðamót.