10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Menntmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð út af ræðu hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði í ræðu sinni, að með þessum frv. væri verið að leggja stórkostlegar byrðar á alþýðuna. Nú, ef þessi hækkun kæmi inn í vísitöluna, þá yrði hækkun hennar um 6 stig og væri það sama og við bættust 3% við kostnaðinn að lifa. Nú er meiningin að eyða þessari hækkun, að hún komi ekki fram í vísitölu, svo að hv. þm. fer hér vitanlega alls fjarri með skeyti sín. Þau hitta ekki mark.

Hv. þm. sagði, að veltuskatturinn hefði ekki komið neitt við alþýðuna. en þm. virðist ekki vita það, að sá skattur fellur yfir á dreifinguna og er því mjög óheppilegur. — Hv. 2. þm. Reykv. sagði einnig, að hann og flokkur hans hefði lagt til að minnka eyðsluna, t.d. með því að festa ákveðinn hluta útflutningsverðmætisins á nýbyggingarreikning. Sú ráðstöfun var aldrei nema til málamynda, og sést það til að mynda á því, að ákveðið var að leggja til hliðar 15% útflutningsins 1946. En hvar er þetta fé nú? Hvar er þessi gjaldeyrir? Honum hefur öllum verið eytt til venjulegrar gjaldeyriseyðslu, enda er sannleikurinn sá, að þessi hv. þm. hefur manna mest átt þátt í því, að eitt þúsund milljónum í gjaldeyri hefur verið eytt síðustu tvö árin. Og svo segir hann, að nú sé verið að setja grundvöllinn fyrir atvinnuleysi í landinu. Svo vill hv. 2. þm. Reykv. bera þetta saman við aðstöðu núv. stj., sem hefur ekki upp á neitt að hlaupa nema útflutninginn.

Hv. 2. þm. Reykv. gerði mikið úr því, að Sósfl. hefði knúð fram miklar kjarabætur í sambandi við veru sína í ríkisstj. í 2 ár, og að það væri ólíkt með Framsfl. og þá ríkisstj., sem hann ætti sæti í. M.ö.o., það hefðu verið samþ. almannatryggingar, nýsköpunarlöggjöf og fleiri og fleiri l. En ég vil spyrja: Hvernig skildi Sósfl. við þessi l. og þessi stóru mál? Hann gerði það þannig, að hann var með í að samþ. hin og þessi l., en hann lét öðrum eftir að afla fjár til þess að greiða kostnaðinn, sem leiddi af samþykkt þessara l. Þegar að því kom, að fara þurfti að afla fjárins, þá sá í iljar Sósfl., vegna þess að það var ekki ætlan hans að vera með í að taka á sig óvinsældir til að afla fjár til að greiða kostnaðinn með. Og það virðist heldur óskemmtilegt hlutskipti til að velja sér að samþ. þessi l., en hlaupa síðan upp frá öllu og standa álengdar eins og strákur og benda á þá, sem eru að draga saman fjármagn til þess að halda þessari löggjöf uppi.

Ég skal ekki ræða um kjarabæturnar, sem alþýðan hefur fengið, í þessu sambandi. Það er of langt mál til að fara inn á það nú. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri enginn vandi á höndum fyrir ríkisstj. nú. Hún gæti, ef hún vildi, selt allar afurðir landsins fyrir miklu hærra verð, en í fyrra, o.s.frv. Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, hvað hv. þm. meinar með þessu tali og hvar hægt er að fá þessa sölu. En ég vil minna hv. 2. þm. Reykv. á. að það þarf meira en litla hækkun á verði afurðanna þegar þurft hefur að hækka afurðaverðið innanlands um 30%, svo að útgerðin gæti komizt af stað. Og það sanna er, að það veit enginn, hvort auðið verður að ná því verði á erlendum markaði. En ef hv. 2. þm. Reykv. veit miklu betur en allir aðrir, hvers vegna upplýsir hann það ekki, svo að hægt sé að hafa nytsemd af fróðleik hans í þessu efni.