13.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Fjmrh. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Að dæma eftir mörgum þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar og þá ekki sízt ræðu hv. þm. Siglf., þá mætti ætla, að sumum hv. þm. væri betur gefið að skrifa skáldsögur, en flytja rökræður. Það er vitað, að þörf ríkissjóðs er nú aðkallandi og brýn, og þó að sú leið, sem hér er vali, hafi einhver áhrif til að hækka vísitöluna, miðar hún að því að gera ríkissjóði kleift að halda dýrtíðinni í skefjum. Og það er undarlegt, að þeir, sem voru í broddi fylkingar um að hækka fjárl. og framkalla þar með þessa þörf ríkissjóðs, skuli nú berjast gegn því, að ríkissjóði verði aflað tekna. Og manni verður á að spyrja, þegar hv. þm. sósíalista fárast yfir aðgerðum núv. ríkisstj.: Hvers vegna hlupu þeir þá að ástæðulausu burt úr fyrrv. ríkisstj. og slepptu þar með aðstöðu sinni til að gera dýrtíðarráðstafanir, er þeim væru geðfelldari? Þessar spurningar vakna í huga manns, er maður heyrir hinar háværu ræður og skáldlegu hugleiðingar út af þessu frv. Er þetta kannske í fyrsta sinn, sem tollaleiðin er farin til að afla ríkinu tekna, eða báru kommúnistar, sem áttu sæti í fyrrv. ríkisstj., fram till. um lækkun tolla? Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, að stjórnarandstaðan geri eftir megni veður út af aðgerðum þeirrar stj., sem hún er á móti, en andstaðan verður þá að beita meiri rökum og skynsemi, en hér hefur komið fram. Meinsemdin, sem er verðbólgan, verður ekki læknuð með ástæðulausum ásökunum í garð einnar stéttar landsins. Það er víðar pottur brotinn, en hjá einni stétt. Allir eiga þar á nokkra sameiginlega sök, og vegurinn til baka út úr vandræðunum er sá einn fyrir hendi. að menn taki höndum saman um að ganga réttu leiðina til baka.

Ég hef bæði starfað í útgerð og verzlunarstéttinni í tugi ára og miklu lengur en þeir, sem hampa útgerðinni eins og hér hefur verið gert í umr. Ég hef aldrei verið sérstakur talsmaður þess, að óeðlileg höft væru lögð á innflutninginn og því um líkt, en ég hef þolað það eins og aðrir þegnar þjóðfélagsins og viðurkennt það sem nauðsyn að sumu leyti. Og það er heldur ekkert óeðlileg verkaskipting, að til sé útgerðarmannastétt og verzlunarstétt, eins og viss hluti þjóðarinnar stundar landbúnað og annar hluti sjávarútveg. En hatrammar árásir í garð einnar stéttar hafa nú lengi kveðið við hér á Alþ., og nú síðast höfum við heyrt því haldið fram í skáldlegri ræðu hv. þm. Siglf., að verzlunarstéttin væri eiginlega ein völd að dýrtíðinni og bæri ábyrgð á henni. Þetta er hin mesta fásinna, enda reyndi hv. þm. ekki að sanna þessi ummæli, en hélt þessu aðeins fram með þeirri fullyrðingaákefð, sem vön er að einkenna hann. Þetta getur verið svo frá hans bæjardyrum séð, en þá sér hann líka ofsjónir. Lengi átti þessi þjóð við verzlunarkúgun að búa, og selstöðuverzlanirnar voru illa þokkaðar. En nú fyrir nokkrum áratugum eignaðist þjóðin innlenda verzlunarstétt, og hvað sem um hana má segja, jafnvel að hún brjóti lög, þá er sennilegt, að svipað hendi einhvern tíma alla menn úr öllum stéttum. Ég vona. að sá, sem einu sinni ætlaði að verða kirkjunnar þjónn, hneykslist ekki, þó að ég haldi því fram, og það meira að segja úr ráðherrastóli, að syndin sé viðar en á einum stað, þó að þessi hv. þm. teldi nú mikil firn að hlusta á mig í dag. Sannleikurinn er sá, að eftir að þessi stétt varð til í landinu, hafa einkum þó á síðari árum komið fram raddir, er beinlínis ofsækja þessa stétt sem stétt, og það eru til ríkisstofnanir, sem gengið hafa fram hjá innlendum verzlunarmönnum. Í viðskiptum sínum og hafa gert sig berar að því að vilja heldur skipta við útlenda agenta.

Þegar talað er hér um árás á verkalýðinn með þessu frv., þá mótmæli ég því, og ég mótmæli líka. þeim ummælum hv. þm. Siglf., að verið sé að gefa verzlunarmönnum tækifæri til að sanka nú að sér vörum til að selja síðar með meiri gróða. Og hvaðan ættu þeir að fá vörur? Á hv. þm. við, að smásalar hafi herjað á heildsala í því skyni? Ef hann veit slíks nokkurt dæmi, þá ætti hann að nefna það, ég veit ekki til slíks. Frá útlöndum geta menn ekki hafa sankað að sér vörum, þar hefur stríkkað á í þessum efnum að undanförnu, og síðan fyrir nýár hefur leyfisveiting öll verið hér með tregasta móti. Þetta fær því engan veginn staðizt, og þegar hv. þm. segir, að þetta frv. sé flutt til þess að gefa mönnum tækifæri til að haga sér þannig, þá er það hinn fáránlegasti uppspuni. Og það er betra fyrir þessa menn, sérstaklega guðfræðinginn, sem mest beitti sér fyrir því að sprengja fyrrv. ríkisstj.. að vera ekki að gera þessari ríkisstj. tilefnislausar getsakir. Ég harma ekki, að þessir skaðræðismenn skuli ekki vera í ríkisstj., þessir menn, er komu því til leiðar, að þingið var aðgerðalaust í 117 daga. Nú hamast þeir gegn þeirri viðleitni núv. ríkisstj. að reyna að afla tekna til að geta afgreitt hallalaus fjárlög. Annað er ekki verið að glíma við. Það getur vel farið svo, að það mistakist algerlega að ná því marki, en fari svo, þá eiga kommúnistar sinn þátt í því, því að þeir hafa spanað fjárl. mest upp.

Það var verið hér að lýsa eftir frv., sem ríkisstj. ætlaði að flytja. Það er búið að segja, að sumpart eru þau komin fram og sumpart á leiðinni. en það er eins og þessir menn vilji véfengja það, en það er alveg ástæðulaust.

Þessir tollar hitta ekki einn hóp manna fremur en annan, allir verða fyrir barðinu á þeim, og það hefur alltaf verið svo. Sósíalistar vilja reyna að gera sér sérstakan mat úr þessu með því að telja, að hér sé um árás á verkalýðinn að ræða. En allir vita, að það er ekki verkalýðurinn einn, sem notar hinar aðfluttu vörur, það eru bara allir, sem gera það.

Ég álít þarflaust að fara hér út í einstök ummæli, og sízt út í þá dyngju misskilnings og hártogana, sem hv. 6. þm. Reykv. hrúgaði hér upp. Hann hefur sungið hér með sínu lagi og talaði eins og hann er vanur, og geta þm. ekki verið að eltast við slíkt. En hafi þessir menn önnur og betri úrræði á takteinum til að koma á jöfnuði í afgreiðslu fjárl., þá ættu þeir að sýna það með öðru, en staðleysum.