10.04.1947
Neðri deild: 109. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

219. mál, hækkun á aðflutningsgjöldum 1947

Hallgrímur Benediktsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins leiðrétta hv. þm. Siglf. Það er ekki í fyrsta skipti, að hann hleypur svona gönuhlaup. Hann hefur gert það áður í sambandi við Landssamband íslenzkra útvegsmanna. eins og þegar hann lýsti yfir því, að þeir væru með því, að komið væri á landsverzlun hér á landi. En svo kom þá á eftir skrifleg yfirlýsing frá þeim félagssamtökum, þar sem því var lýst yfir, að L.Í.Ú. væri andvígt landsverzlun.

Út af öngultaumunum, sem þessi hv. þm. talaði um, er það að segja, að það eru alveg fáránleg ósannindi að bera þetta fram, vegna þess að öngultaumar eru auðvitað seldir með því verði, sem verksmiðjan ákveður til alls útflutningsins. Og þetta er bara sagt út í loftið, sem hv. þm. Siglf. sagði, og þetta er hægt að sanna, og það get ég vissulega fengið líka skriflegt. — og það virðist þurfa að koma með skrifleg gögn, til þess að þessi hv. þm. megi verða heiðarlegri í málfærslu, en hann hefur reynzt. Og í sambandi við Landssamband íslenzkra útvegsmanna sem slíkt veit ég ekki annað, en að L.Í.Ú. hafi fengið hin hagkvæmustu kaup nú upp á síðkastið, einmitt gegnum heildsölufirmu hér á staðnum, í öllum greinum, til stórútgerðarinnar. Þannig er þetta, sem hv. þm. Siglf. sagði, bara sagt út í loftið.