11.04.1947
Efri deild: 113. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 1948 í B-deild Alþingistíðinda. (3617)

148. mál, vatnsveitur

Steingrímur Aðalsteinsson:

Herra forseti. Mér ber að sjálfsögðu að þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir það, að hún hefur lagt á sig það ómak að athuga þessa brtt. mína á þskj. 593. Hins vegar verð ég að harma það, að mér virðist ekki hafa tekizt að gera hv. n. skiljanlegt, hvað fyrir mér vakir með þessari litlu brtt., eða a. m. k. hefur n. ekki viljað fallast á það sjónarmið, sem ég var hér að reifa í þessu máli. Sú yfirlýsing, sem hv. frsm. n. flutti hér fyrir hönd n., um, að n. legði þann skilning í frv., að hlutar úr sveitarfélögum gætu orðið aðnjótandi styrks til þess að koma upp vatnsveitum, virðist mér vera alveg ófullnægjandi og í raun og veru alveg út í hött, því að mér hafði aldrei dottið í hug, að sveitarfélag, sem gerði vatnsveitu, yrði ekki styrks aðnjótandi eftir þessum l., þó að vatnsveitan sjálf næði ekki út í hvern krók og kima í því sveitarfélagi. Mér hafði aldrei dottið í hug t. d. um Glerárþorp í Glæsibæjarhreppi, að til þess að Glæsibæjarhreppur gæti fengið styrk til vatnsveitu, þá þyrfti að leggja vatnsleiðslu til allra bæja í hreppnum, vestur að Bægisá, norður að Glæsibæ og fram að Lögmannshlíð. En það stendur óhaggað samkv. þessu frv., að því aðeins geti þessi hluti af Glæsibæjarhreppi, Glerárþorp, orðið aðnjótandi styrks að l., að sú veita, sem gerð er, sé gerð af sveitarfélaginu og sé eign þess.

Í fyrsta lagi er það svo um Glerárþorp, að þar hefur vatnsveitan ekki verið gerð af sveitarfélaginu, heldur af félagi þorpsbúana, sem hefur verið gert vegna þess, að sveitarfélagið fékkst alls ekki til þess að ráðast í þetta fyrirtæki. Og þrátt fyrir það að Glerárþorp sé nokkur hluti af Glæsibæjarhreppi og sveitarstjórninni beri því að taka tillit til hagsmuna þeirra, sem þar búa, þá eru þorpsbúar aðeins minni hluti hreppsbúa. En sá meiri hluti hreppsbúa, sem býr utan Glerárþorps og ekki hefur neinna hagsmuna að gæta í sambandi við útvegun vatnsins í þorpið, hafði engan áhuga fyrir því, að ráðizt yrði í þetta fyrirtæki. Það hefði því ekki verið ráðizt í það nema fyrir atbeina þorpsbúa sjálfra, þannig að þeir mynduðu félag til þess að hrinda þessu í framkvæmd. Mér er kunnugt um, að alveg eins og ekki var hægt að fá fram ákvörðun um þessa framkvæmd, alveg á sama hátt mundi nú ekki vera hægt að fá allan Glæsibæjarhrepp til þess að kaupa þessa vatnsveitu með það fyrir augum, að hún þá gæti orðið styrkhæf samkv. þeim l., sem nú er verið að setja um þetta efni. Og þótt ég hafi nefnt Glerárþorp sem dæmi í þessu efni, af því að mér er kunnugt um það, að sú framkvæmd hefur þegar verið gerð þar, þá held ég, að óhætt sé að fullyrða, að mjög svipað standi á á öðrum stöðum, þar sem tiltölulega lítil þorp eru í sveitarfélögum, en meiri hluti hreppsbúa býr í strjálbýli, sem ekki kemur til mála að leggja vatnsveitur um. Ég býst við, að það komi til með að sýna sig, þegar til framkvæmdanna kemur, að á ýmsum stöðum verði erfiðleikar á því og sums staðar ekki framkvæmanlegt að fá ákvörðun sveitarstjórnar með því að leggja vatnsveitur þar, vegna þess að þorpsbúar eru í minni hluta í sveitarfélaginu. Ég held þess vegna enn þá, að það mundi verða til þess að gera þessar framkvæmdir auðveldari, ef opnuð væri leið í þessu frv. til þess, að hlutar úr sveitarfélögum stæðu að framkvæmdum þessum á hverjum stað. — Nú hefur hv. félmn. haldið því fram, að ef slíkt ákvæði sem þetta væri sett í frv., þá mundu verða tök á því að misnota það á ýmsan hátt, og virðist hv. n. vera hrædd um, að það mundi verða misnotað, t. d. á þann hátt að verzlunarfélög, eins og hv. frsm. orðaði það, eða sárafáir einstaklingar mundu ráðast í það að koma upp slíkum veitum til þess að ná í þessa aðstoð úr ríkissjóði og nota síðan fyrirtækið til fjáröflunar fyrir sjálfa sig — eða ég hef skilið þessa túlkun þannig, því að ef enginn möguleiki til fjáröflunar væri fyrir hendi í þessu sambandi, þá skil ég ekki, að félög eða einstaklingar færu að beita sér fyrir framkvæmdum til þess að verða þessara hlunninda aðnjótandi.

Ég held, satt að segja, að ekki geti verið mikil ástæða til slíks ótta í sambandi við þetta. Ég get ekki ímyndað mér, að veitur um slík þorp, sem hér koma til greina, geti verið fjáröflunarfyrirtæki. Og ég held, að einmitt þetta frv., sem hér er lagt fram fyrir atbeina hæstv. ríkisstj., sé full sönnun fyrir því, að hér sé ekki um fjárgróðafyrirtæki að ræða, þar sem vatnsveitur eru yfirleitt, því að annars væri ekki ástæða til þess, að ríkið styrki þessi fyrirtæki á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir. Það er þvert á móti vegna þess, sem þetta frv. er komið fram, að það eru fjárhagslegar byrðar, sem fylgja því að koma þessum vatnsveitum upp, vegna þess, hvað bær eru litlar og staðhættir víða þannig, að það er tiltölulega kostnaðarsamara að gera slíkar vatnsveitur fyrir lítil þorp, óreglulega byggð og strjálbýl, heldur en kaupstaði. Það er einmitt vegna þess, að á slíkum stöðum er þetta kostnaðarsamara en annars staðar, að verið er að setja slík lög sem þessi. Með því tel ég nægilega vísað á bug þeim röksemdum, sem færðar hafa verið fram fyrir því, að í því að opna þessa leið, sem brtt. mín er um, felist hætta á, að einstaklingar eða félög mundu nota þessa aðstoð ríkisins til fjáröflunar og til eigin hagsmuna. En jafnvel þó að einhverjar slíkar ástæður væru fyrir hendi, sem n. hér færir fram, þá væri ákaflega auðvelt að koma í veg fyrir, að hægt yrði að misnota þetta á nokkurn hátt, t. d. með því að setja sem skilyrði fyrir viðurkenningu á slíkum félögum, að þau væru mynduð af t. d. meiri hluta þorpsbúa í viðkomandi þorpi. Með því væri útilokað, að verzlunarfélög réðust í að framkvæma svona fyrirtæki eða nokkur önnur félög en samtök þeirra manna sjálfra, sem þurfa að ná sér í vatn með því að leggja slíkar veitur, og þess vegna hefðu skilyrðislaust a. m. k. siðferðislegan rétt til þess að fá þessa aðstoð eins og um sveitarfélög væri að ræða. Og til þess að útiloka þá hættu, sem hv. n. hyggur, að sé fyrir hendi í þessu efni — þó að ég viðurkenni ekki, að hún sé fyrir hendi —, ætla ég að flytja enn brtt. við brtt. mína á þskj. nr. 593, sem felur það í sér, að því aðeins verði vatnsveitufélög aðnjótandi þessara hlunninda á sama hátt og sveitarfélög, að þau séu stofnuð af a. m. k. helmingi íbúðarhúsaeigenda á viðkomandi veitusvæði. Með því held ég, að sé alveg útilokuð sú hætta, sem hv. n. taldi, að kæmi til greina, ef samþ. væri brtt. mín. En hins vegar tel ég alveg réttlátt, ef meiri hluti íbúðarhúsaeigenda á viðkomandi stað binzt samtökum um að hrinda í framkvæmd vatnsveitu um þorp og fær til þess samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og ábyrgð viðkomandi sveitarstjórnar fyrir því láni, sem ríkið veitir til fyrirtækisins, að þá verði þeir, sem þannig bindast samtökum um þetta, látnir njóta sams konar hlunninda eins og um sveitarfélög væri að ræða. Sú brtt., sem ég leyfi mér að flytja skrifl., er á þessa leið: Í stað orðanna „eftir árið 1942 hafa“ komi: stofnuð eru af a. m. k. helmingi íbúðarhúsaeigenda á veitusvæðinu og hafa eftir árið 1942.“

Ég geri ekki ráð fyrir því, að það sé ástæða til að tefja málið frekar vegna þessarar brtt., sem ég nú ber fram. Ég býst ekki við, að mér takist að gera hv. n. eða þeim öðrum hv. þdm., sem á mál mitt hafa hlýtt, frekari grein fyrir eða geti gert þeim skiljanlegra en nú er orðið, hvað fyrir mér vakir í þessu efni. En ég held, að það sýni sig, þegar til framkvæmda þessara l. kemur, að það muni vera heppilegra, að ríkisstj. hafi þó heimild til þess að veita félögum, sem hér um ræðir samkv. þessum brtt. mínum, þennan rétt, og að ef það er ekki gert, þá muni sýna sig, að ýmsum þorpum verður óþægilegra en efni standa til að geta náð til sín sæmilega viðunandi neyzluvatni. En á því er allmikill misbrestur, mjög víða um landið, eins og kunnugt er. Ég vil þá leggja fram þessa skrifl. brtt.