26.11.1946
Neðri deild: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (3748)

81. mál, atvinna við siglingar

Flm. (Pétur Ottesen) :

Þetta frv. er flutt samkv. ósk bæjarstjórnar Akraness, en hún hefur keypt þau ferjuskip, sem í ráði er að nota á hinum nýja ferjustað við Hvalfjörð. Eins og kunnugt er, var byrjað á s. 1. sumri á lendingarbótum á þessari ferjuleið, sem liggur milli Eyrar í Kjós og Kataness á Hvalfjarðarströnd. Þar er örskammt yfir fjörðinn, og með þeim ganghraða, sem er á þessum ferjuskipum, er gert ráð fyrir, að þau verði 5–10 mínútur hvora leið yfir fjörðinn á þessum stað. Kröfur þar, sem eru í núgildandi 1. um atvinnu við siglingar, virðast ekki eiga við þessi ferjuskip, sem eru að vísu allstór. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, hafa þau burðarmagn til að flytja 150–200 smálestir. Um stærð þeirra samkv. máli hafði ég ekki fengið upplýsingar, þegar frv. þetta var flutt. Með tilliti til þeirrar örskömmu leiðar, sem þarna er yfir fjörðinn, hefur verið talið eðlilegt, að ekki yrðu gerðar hærri kröfur til skipstjórnarmanna á þessum skipum en felast í 4. gr. núgildandi l. um þetta efni, en það eru þau skilyrði, sem skipstjórnarmenn þurfa að uppfylla til þess að stýra allt að 30 smálesta skipum. En sama máli gegnir um þær kröfur, sem gerðar eru um fjölda yfirmanna á skipum, sem leggja leiðir sínar með ströndum fram, að þar sé heldur ekki ástæða til að gera sams konar kröfur, að því er snertir þessar ferjur. Hefur því verið farið inn á þá leið, að samgmrh. ákveði um tölu yfirmanna á þessum skipum eftir að hafa leitað álits kunnáttumanna á þessu sviði, skólastjóra stýrimannaskólans og vélstjóraskólans. Ætti með þessum hætti að vera hægt að stilla þannig til, að nauðsynlegs öryggis sé gætt í þessum efnum.

Það er ekki fleira, sem taka þarf fram í sambandi við þetta frv. Legg ég til, að því verði vísað til sjútvn. að lokinni þessari umr., og mun hún að sjálfsögðu leita álits skólastjóra stýrimannaskólans og vélstjóraskólans um málið til frekara öryggis og undirbúnings frá Alþ. Það er nú svo langt komið með undirbúning þessarar ferju, að gera má ráð fyrir, að þessi ferjustarfsemi geti hafizt seinni hluta næsta sumars. Það er alkunna, að þetta ferjumál hefur vakið mjög athygli manna, sem búa á Vestur- og Norðurlandi, og einnig um Borgarfjörð, og eru við það tengdar, eftir því sem mér bezt skilst, vonir um það, að þetta gæti bætt úr samgöngum á þessu sviði og dregið mikið úr kostnaði við samgöngur milli Norður- og Vesturlands annars vegar og Reykjavíkur hins vegar með því að stytta leiðina, samanborið við það að fara fyrir Hvalfjörð, auk þess sem sú leið er mjög ótrygg að vetrarlagi, a. m. k. í því ástandi, sem vegurinn nú er í við innanverðan Hvalfjörð. Þess er því að vænta, að það verði greitt úr um þetta atriði, og auðvitað verður þannig frá þeim skilyrðum gengið, sem sett verða um réttindi til skipsmanna á þessum ferðum, að fullt öryggi sé, en þó ekki gengið lengra en nauðsynlegt getur talizt til þess að gera rekstur ferjuskipanna ekki um of kostnaðarsaman.