06.12.1946
Neðri deild: 33. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (3774)

90. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt, sem ég ætla að segja. Ég ætla alveg að láta hjá líða að þessu sinni að svara því, sem til mín hefur verið vikið í sambandi við þetta mál. Ég legg áherzlu á að flýta því, að málið geti gengið til 2. umr. Ég skal að vísu viðurkenna, að það er afar mikil sjálfsafneitun að nota nú ekki tækifærið til þess að svara hv. þm. A-Húnv., þ. e. ræðu hans hér áðan, og þá líka síðari ræðu hv. 2. þm. Rang., sem hann flutti, þegar þetta mál var hér, því að báðir þessir hv. þm. lögðu sig svo flata undir höggið, að það væri hægt að veita þeim hér alveg verðskuldaða ráðningu, og það getur vel skeð, að ég geri það við 2. umr. þessa máls. En ég ætla að láta það hjá líða nú. — Ég vildi aðeins minnast á eitt, af því að það er nokkuð skýr lýsing á því, hvernig hv. þm. A-Húnv. fer með heimildir, því að hann sagði hér áðan, að það hefði verið meiri hluti búnaðarsambandanna, sem sendu áskoranir til Alþ. eða létu í ljós vilja sinn gagnvart síðasta þingi, sem hefðu mælt með breytingunni. Til þess að hafa alveg óyggjandi svör við þessu hef ég nú aflað mér nokkurra gagna í þessu máli, síðan hv. þm. A-Húnv. talaði hér um þetta mál. Þær sakir standa þannig eftir þessum gögnum, að 11 búnaðarsambönd hafa mótmælt breyt. á þessum l. á síðasta þingi, en aðeins voru það 2 búnaðarsambönd, sem mæltu með henni. — Ég vildi ekki láta hjá líða að gefa þessar upplýsingar, og þá alveg með sérstöku tilliti til þess, að það er forseti Sþ., maðurinn, sem hefur verið falið það hlutverk að bera uppi sóma hæstv. Alþ., sem lætur sér sæma að fara svona óráðvandlega með alveg augljósar heimildir, sem fyrir liggja.

Ég vænti þess, að hv. þd. sýni svo sem að undanförnu það frjálslyndi og þá sanngirni gagnvart þeirri stétt, sem mál þetta tekur til, að ekki aðeins fái þetta mál að ganga til 2. umr., heldur einnig gaumgæfilegrar athugunar á hæstv. Alþ. Og vil ég þess mega vænta, að sú verði niðurstaðan, að sú leiðrétting verði hér á gerð, sem stefnt er að með þessu frv.