24.02.1947
Efri deild: 79. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í C-deild Alþingistíðinda. (3806)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Þetta frv. liggur nú hér fyrir í annað sinn eftir að vera afgr. með rökst. dagskrá í fyrra, og þá með dagskrá á þá leið, að þeir, sem samþ. hana, vonuðust eftir, að málið yrði afgr. af milliþn. En nú er lagt til að vísa málinu frá með þeim röksemdum, að það þurfi ekki frekari afgreiðslu og því eigi að vísa því frá fyrir fullt og allt.

Ég er undrandi yfir því, hvaða fjandskap eða þrákelkni þetta frv. mætir hér á hæstv. Alþ. Því að það er nokkurn veginn víst, að þó að það dragist í eitt, tvö eða þrjú ár að samþ. þetta frv. Eða annað í sömu átt, þá verður ekki ráðin bót á aðkallandi þörf fyrir sveitirnar, nema með því að taka upp aðferðir, sem gert er ráð fyrir hér í þessu frv., um kennslu í iðngreinum, sem þar koma til greina. Hvernig hugsa hv. þm. sér að leysa vanda þeirra ungu manna í sveitunum, sem vilja fara í iðnaðarnám? Það er vitað, að mjög mikil tregða hefur verið á því að geta komið mönnum til iðnaðarnáms, því að meistarar hér í Reykjavík og annars staðar eru ófáanlegir til þess að taka nema ákveðna tölu nemenda til iðnaðarnáms, og þar með er ekki um neitt iðnaðarnám frekar að ræða. Og það kemur mjög sjaldan fyrir, að hægt sé að koma pilti utan úr sveit til iðnaðarnáms hér í Reykjavík, nema með því móti, að hann eigi kunningja hér til aðstoðar. Ég þekki þetta vel af eigin reynd. Ég hef staðið í því í hálft annað ár að reyna að koma manni hér til iðnaðarnáms og kom honum loks að fyrir sérstakan kunningsskap. Ég hef líka komizt í það, meðan ég var ráðh., að senda mann — hann var úr Þingvallasveitinni — til Kaupmannahafnar til erlendra iðnfyrirtækja til náms, af því að ekki var hægt að koma honum fyrir til þess hér.

Það er vitað mál, að sá skortur, sem er nú á iðnaðarmönnum í sveitum landsins, er svo stórkostlegur, að það er næstum ómögulegt að byggja upp í sveitum. Við vitum það vel, sem erum að afgreiða lán til endurbygginga og nýbygginga í sveitum, að þeir, sem þar búa, hafa ekki iðnaðarmenn til að vinna að húsbyggingunum í sveitunum. Iðnaðarmennirnir eru fluttir hingað til Reykjavíkur og hafa nægilegt að starfa í kaupstöðunum. Þessi skortur á iðnaðarmönnum til að byggja húsin í sveitunum er svo tilfinnanlegur orðinn, að Alþ. verður með einhverju móti að ráða fram úr þessu vandamáli, ef sveitirnar eiga ekki að leggjast í auðn. Meðan iðnaðarmenn hafa nægilegt að gera hér í kaupstöðunum — og það hafa þeir vonandi fyrst um sinn, ef ekki skellur kreppa yfir þetta land, en þá má búast við, að byggingar yrðu ekki heldur framkvæmdar í sveitum — tel ég einsýnt, að sveitirnar fái ekki iðnaðarmenn til þess að vinna þau störf, sem þær þurfa vegna endurbygginga og nýbýlabygginga. Og þá vil ég spyrja þessa hv. alþm., sem ætla sér nú að afgr. þetta mál að síðustu þannig að vísa því frá með rökst. dagskrá, hvernig þeir ætli sér að ráða fram úr þessum vanda fyrir íslenzkar sveitir. Það væri fróðlegt að fá að vita um það. Það er alveg vitað, að þessi leið, sem bent er hér á, deildirnar, sem eru við héraðsskólana, og það, sem nemendur eiga að læra á þeim skólum verklegt, er engin lausn á málinu fyrir sveitirnar. Það er búið að sýna sig, bæði hér og erlendis, að það að ætla sér að sameina bæði verklegt og bóklegt nám, eins og gert er ráð fyrir í þessum deildum héraðsskólanna, er ákaflega þýðingarlítið. Þó að þar sé einn kennari við hvern slíkan skóla, sem stundar það að kenna verklegar námsgreinar og hefur sem part af sínu starfi að kenna smíðar, þá kann það að koma að nokkru gagni að vísu, en nær alls ekki því, sem ætlað er að ná með því frv., sem ég hef borið hér fram. Það er sátt að segja næsta undarlegt, að við Íslendingar skulum vera svo einkennilega mikið gersneyddir því, sem kallazt getur praktískt viðhorf til hlutanna og þar á meðal til skóla í landinu, að við eigum héraðsskóla, búnaðarskóla — og húsmæðraskóla, þó að þeir kæmu seinast — en héraðsskóla, þar sem á að nema allt milli himins og jarðar, en við erum samt sú eina allra Norðurlandaþjóðanna, sem höfum ekki iðnskóla neitt nálægt því, sem þörf er fyrir. Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa þessi mál í miklu betra lagi hjá sér, og þar eru í sumum þessum löndum iðnskólar dreifðir víðs vegar um landið. En við höfum tæpast námskeið fyrir menn til þess að læra þar að fara með vélar. Það er verið að setja upp námskeið af Kaupfélagi Eyfirðinga til þess að kenna mönnum að fara með vélar. Það er náttúrlega ágætt, að þetta félag stendur fyrir því. Við hælum okkur af því, að við leggjum fram fimm millj. kr. til endurbygginga og nýbýla í sveitum á ári, en þó skortir byggingamenn í sveitum, og verður bersýnilega ekkert gert til þess að ráða fram úr þeim vandræðum, heldur á bara að afgr. þetta frv. hér með rökst. dagskrá. Þannig á að ráða fram úr þessu máli nú.

Af hreinustu tilviljun fékk ég hjá einum manni hér í bænum gott yfirlit yfir iðnaðarnám í skólum erlendis. Þessi maður á son og hafði leitað fyrir sér um að koma honum í iðnskóla, af því að ham hafði ekki tekið nógu hátt próf í reikningi til þess að geta komizt í háskólann. Hann lánaði mér skýrslur fyrir nokkra iðnskóla — skólakerfi, sem er ekki til hjá okkur, nema að iðnskólinn er til hér í Reykjavík, þar sem iðnnemar hafa í sambandi við þann skóla verið hjá meisturum, þannig að oft og einatt má líkja því við þrælahald. Hvort breyt. á þessu kann að hafa orðið í seinni tíð, veit ég ekki. (HV: Það er ekki). Ég fullyrði, að þetta nám, sem á að heita, hjá meisturum er ekkert nám á þessum fjórum árum, ef miða skal við það, sem almennt er kallað að stunda nám í fjögur ár, og ég tek ekkert mark í sambandi við þetta mál á þessum bréfum frá þessum mönnum, sem vilja hafa áfram þau forréttindi að hafa þessa ungu menn í þjónustu sinni, eins og þeir hafa haft þá hingað til. Þessir ungu menn, sem heitir, að séu að læra hjá meisturunum, eru menn, sem vinna mikið af tímanum — a. m. k. framan af þessum 4 árum — við allt annað oft og einatt heldur en það, sem þeir hafa ráðizt til að læra með því að vinna við það. Niðurstaðan verður þá sú, að svo hlýtur að fara, að skólafyrirkomulag verður tekið upp í iðnfræðslunni miklu meir yfirleitt í kaupstöðunum en nú er. Það er sú leið, sem maður verður að fara í þessum málum.

Það er talað um það hér, að sú skoðun, að rísa beri gegn þessu máli, sem hér liggur fyrir, sé vegna þess, að menn séu mótfallnir því að raska iðnaðarfræðslukerfi landsins. Sannleikurinn er sá, að ég hef látið alveg afskiptalaust í þessu frv. það iðnfræðslukerfi, sem gildir í kaupstöðum landsins. Við, sem höfum ekki verið alls kostar ánægðir með iðnlöggjöfina, höfum varið til þess miklum tíma á undanförnum árum að koma í veg fyrir, að sú iðnlöggjöf næði til sveitanna, þannig að ekki mætti byggja hús úti í sveit nema undir eftirliti þessara iðnaðarmanna, sem iðnlöggjöfin löggildir. Og við höldum skiptingunni í þessu frv. þannig, eins og nú gildir, að þessir menn, sem mundu nema samkv. þessu frv., ef að l. yrði, hafi aðeins réttindi til að byggja hús úti í sveitum og minni þorpum. Ég get, satt að segja, ekki séð, hvað þetta kemur iðnaðarmönnum með sín réttindi í kaupstöðunum og stærri þorpum eiginlega við. Það er eðlilegt og mannlegt, að þeir haldi fram í lengstu lög eins og menn gera um hvaða stéttarhagsmuni sem er, að ég ekki nefni eina stétt fremur en aðra — það er eðlilegt, að þeir haldi því fram, að það kerfi, sem gilt hefur í þessum efnum, eigi að gilda áfram. En í raun og veru kemur þetta mál, þ. e. það, sem farið er fram á í þessu frv., iðnaðarmönnum í kaupstöðunum ekki nokkurn skapaðan hlut við, vegna þess að þessir menn, sem fá mundu réttindi eftir ákvæðum þess, eiga ekki að hafa réttindi nema á takmörkuðum svæðum, þar sem ekki þarf á lærðum iðnaðarmönnum að halda til þess að standa fyrir byggingum, þ. e. a. s. lærðum að því marki, sem tilskilið er í gildandi iðnlöggjöf til þess að menn öðlist réttindi til að standa fyrir byggingum í kaupstöðum. Það er nú svo, að ef byggt er fyrir sunnan Fossvogslæk, þarf ekki til þess lærðan iðnaðarmann, sem stafar af þeim ástæðum, sem liggja til grundvallar iðnlöggjöfinni, eins og flestir hér kannast við.

Ég geri ráð fyrir, að margir af þeim mönnum, sem lærðu í þessum skóla, sem frv. gerir ráð fyrir, ef hann væri settur upp, mundu eftir 18 mánaða nám verða miklu færari til þess að standa fyrir byggingum en margir menn, sem unnið hafa í 4 ár hjá meisturum og átt hefur að heita, að væru allan þann tíma við nám, en hafa unnið allt annað mikinn hluta af þessum 4 árum hjá meistara. Ég hygg, að margir af þeirri mönnum, sem stundað hefðu þetta 18 mánaða nám í iðnskóla, væru alveg eins góðir sveinar í iðninni eins og hinir frá meisturunum, eins og ég gat um. Og þegar á að bæta úr þeirri þörf, sem nú er fyrir hendi og þetta frv. miðar að að bæta úr, þá er a. m. k. óhætt að fullyrða, að hvort sem þessir menn, sem þarna væru útskrifaðir af iðnskóla samkv. því, sem frv. gerir ráð fyrir, væru betri eða nokkru lakari heldur en þeir, sem læra hjá meisturunum að kalla í 4. ár, en eru mikið af þeim tíma í alls konar vinnu, þá er það víst, að með þeim, sem eftir ákvæðum þessa frv. lærðu, gætu sveitirnar fengið iðnaðarmenn, sem þeim kæmu að fullu gagni. Og væri það fyrir sveitirnar mjög ólíkt því ástandi, sem nú er, að hafa allmarga slíka iðnaðarmenn, þar sem sveitirnar verða nú að búa við það að hafa algerlega ólærða menn til þess að standa fyrir húsabyggingum, vitanlega til ógurlegs tjóns fyrir land og þjóð, því að þar, sem byggð eru steinhús í sveit af algerlega ólærðum mönnum, þar er margra undirstöðuatriða alls ekki gætt. Þau hús eru byggð eins og þetta þinghús, sem við erum hér í, þar sem engin einangrun er til þess að verja raka úr jörð. Þessir ólærðu menn kunna ekki að hafa rakavörn í húsum. Það er náttúrlega ekki margbrotinn lærdómur að búa út rétta rakavörn. Þannig getur það verið um ýmis fleiri atriði í sambandi við byggingar. En þeir, sem í sveitum búa, fá ekki iðnaðarmenn til þess að sjá um byggingar fyrir sig og verða þess vegna oft að fá til þess menn, sem eru algerlega vankunnandi um ýmis atriði, sem nauðsynlegt er að taka til greina við húsabyggingar.

Mig tekur það í einlægni blátt áfram sárt, að þeir menn, sem fjalla um þetta mál, skuli ekki hafa skilning á því að vilja samþ. frv. nú þegar á þessu þingi. Það er ef til vill nauðsynlegt að gera á því ýmsar breyt. Mér dettur ekki í hug að mótmæla því, og ég hefði verið þakklátur fyrir till. til breyt. á frv. til bóta frá því, sem nú er, því að betur sjá augu en auga. En að kasta frá sér þessu máli, sjáandi það, að sveitirnar vantar iðnaðarmenn, það er ákaflega kaldranaleg afgr., enda þótt vísað sé því til afsökunar til héraðsskólanna, en það er vitað, að þeir geta ekki sinnt þessu hlutverki, sem þessum iðnskóla í sveit er ætlað að sinna: Það hefði verið miklu betra að leggja niður verknámsdeildirnar við héraðsskólana til þess að kenna það verklega við sérstaka skóla í staðinn, þar sem nemendur gætu lagt sig eindregið fram við verklegt nám til þess að geta orðið fagmenn, til þess að skólarnir gætu sinnt þessu hlutverki sínu, svo að gagni kæmi fyrir sveitirnar.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar á þessu stigi málsins. Það mun halda áfram að aukast þörfin fyrir iðnaðarmenn í sveitum landsins. Það mun halda áfram að sýna sig, að það, sem ég held fram hér, er staðreynd, þannig að ekki verður hjá því komizt að ráða fram úr þessum vanda fyrir sveitirnar. Þetta mál mun, þótt vísað verði frá nú, verða flutt hér á Alþ. aftur í einu eða öðru formi og samþ. Það eru margir ungir menn, sem þurfa ekki langt nám til þess að verða ágætir fagmenn, menn, sem eru upplagðir fyrir starfið. En möguleikunum fyrir þessum mönnum mörgum hverjum á að loka, að því er virðist, með því að samþ. ekki þessa leið, sem frv. vísar til, eða einhverja, sem er svipuð og n. hefði átt að benda á í hennar stað. En það er nú stundum svona, að það tekur langan tíma að koma fram góðum málum, og svo virðist ætla að verða í þessu efni. En ég vildi, að ég væri um alla hluti eins viss og það, að ekki verður langt þangað til nauðsynin kallar svo að um þetta mál, að það verður samþ. hér á hæstv. Alþ.