03.03.1947
Efri deild: 83. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í C-deild Alþingistíðinda. (3826)

76. mál, iðnskóli í sveitum

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs aðeins í því skyni að leiðrétta misskilning hjá hv. þm. Barð. Hann þóttist vera að afsanna það, sem ég sagði, er ég mótmælti staðhæfingum hans og hv. 1. landsk. um, að byggt hefði verið í sveitum fyrir margar milljónir króna af ríkisfé. Hann las upp úr fjárl. síðasta árs og fjárlfrv. því, sem nú liggur fyrir, og þóttist þar með vera að sanna þetta, en kann auðsjáanlega ekki að gera greinarmun á því, hvort ríkið býr til lánsstofnanir vegna bygginga eða leggur beint fram fé til þeirra. Ég tók það fram til leiðbeiningar fyrir hann, að búið hefði verið að lofa meira fé á síðasta ári en hægt hefði verið að standa við, og því þyrfti að standa á fjárl. þessa árs fjárveiting vegna endurbyggingastyrkja, og þar með búið. En þó fullyrðir hv. þm., að svona verði þetta í framtíðinni, alltaf verði byggt fyrir ríkisfé, og í því sambandi nefndi hann tvær og hálfa milljón króna, sem er framlag í sjóð, sem á að lána til bygginga. Það er eins og hann viti ekkert, hvað gerðist hér á síðasta þingi, viti ekkert um stefnubreyt., sem varð í þessum efnum. En þó er hv. 1. landsk. enn þá skilningssljórri. Ég stóð hér upp aðeins til að leiðrétta þennan misskilning.