14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í C-deild Alþingistíðinda. (3870)

126. mál, verbúðir

Frsm. minni hl. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá hefur sjútvn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n. vill vísa því frá með rökst. dagskrá, eins og hv. frsm. meiri hl. n. nú hefur lýst. Ég, ásamt hv. þm. N-Þ., mæli með því, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem felst í brtt. okkar á þskj. nr. 511.

Þetta frv. var flutt hér á þinginu fyrri hluta vetrar fyrir frumkvæði þáv. hæstv. atvmrh. Það hefur síðan legið hér fyrir þinginu alllengi, og hefur verið leitað um það umsagnar þeirra aðila, sem sérstaklega hefðu á því þekkingu og hefðu hagsmuna að gæta í sambandi við það. Og fyrir sjútvn. lágu umsagnir um þetta frv. frá Fiskifélagi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands, og hafa þessir aðilar mælt með því, að frv. verði samþ. Fiskifélagið hefur að vísu bent á, að heppilegra væri að gera á því lítils háttar breyt. Og brtt. okkar eru einmitt í samræmi við þá till., sem fram kom í umsögn fiskifélagsins um þetta atriði. Sömuleiðis kemur fram í umsögn fiskifélagsins, að þó að þessu máli hafi að vísu verið bjargað, að áliti þess, fyrir þessa vertíð, sem nú stendur yfir, þá sé það samt sem áður þannig, að víða sé ekki aðeins skortur á verbúðum í þeim verstöðvum, sem til greina koma fyrir bátana víðs vegar að af landinu, heldur sé það líka svo, að víða sé aðbúnaður þeirra manna, sem vinna við útgerð bátanna og heima eiga í fjarlægum stöðum, „óviðunandi“, eins og það er orðað í umsögn fiskifélagsins. Þegar ástandið hefur verið þannig undanfarið, að verbúðir, sem notaðar hafa verið, eru að áliti fiskifélagsins óviðunandi, og þegar svo þar við bætist, að bátafloti landsmanna vex nú hröðum skrefum, þannig að þörfin fyrir verbúðir verður miklu meiri heldur en áður hefur verið, þá hygg ég, að full ástæða sé til þess, að sérstakar ráðstafanir verði gerðar af ríkisvaldinu til þess að bæta úr þessu ástandi. Og það er tilgangur frv., að svo verði gert.

Nú svarar hv. meiri hl. sjútvn. því og hv. frsm. þess meiri hl., að það hafi þegar verið gerðar af hálfu ríkisvaldsins ráðstafanir, séu ættu að vera nægar í þessu efni, þ.e.a.s., að með ákvæðum hinna almennu hafnarlaga sé hverjum stað fyrir sig gert kleift að koma upp verbúðum eftir þörfum, þegar fé sé veitt til þess á fjárl. að vissum hluta og ábyrgð ríkisins fyrir láni til þeirra mannvirkja að öðru leyti. En í þessu felst að mínu áliti ekki fyllilega rétt túlkun. Samkv. hinum almennu hafnarl. hefur ríkið ekkert frumkvæði um það að byggja verbúðir. Það er heimilt samkv. ákvæðum hafnarl. að reisa verbúðir, og þá fá viðkomandi staðir til þess fjárframlög og ábyrgð af hálfu ríkisins. En eftir þeim l. hefur ríkið sjálft ekkert frumkvæði um það fremur en um aðrar hafnarframkvæmdir. Það er hafnarstjórn eða sveitarstjórn á hverjum stað, sem á að hafa þar frumkvæði, én ekki ríkið sjálft.

Nú er það vitað og liggur í hlutarins eðli, að stjórnendur á hverjum stað, hvort sem það eru hafnarstjórnir, bæjarstjórnir eða hreppsnefndir viðkomandi staða, leggja áherzlu fyrst og fremst á það að koma upp þeim hafnarmannvirkjum, sem nauðsynleg eru fyrir þann stað sérstaklega og eigendur þeirra báta, sem í heimaflotanum eru á hverjum stað, en taka af skiljanlegum ástæðum miklu minna tillit til útgerðar báta annars staðar að af landinu, sem hafa þörf fyrir að fá viðlegupláss á hinum ýmsu stöðum. Það leiðir af þessu, og það hefur verið reynslan, að verbúðir sitja á hakanum fyrir öðrum framkvæmdum við hafnargerðir, og af því hefur líka skapazt þetta ástand, sem ég held, að mönnum beri nokkurn veginn saman um, að sé, að skortur er á verbúðum, til þess að fullnægt verði þörfum báta, sem nú eru til og vitað er, að fjölga mun á þessu ári og vonandi ár frá ári. Það má líka benda á það, að nokkur hætta er á, að það dragi úr áhuga viðkomandi stjórna á hinum ýmsu útgerðarstöðum og þá um leið úr framkvæmdum þeirra til þess að koma upp verbúðum á þessum stöðum, að til er nokkuð af gömlum verbúðum, sem eru þó orðnar mjög lélegar, samkv. umsögn fiskifélagsins óviðunandi, en eigendur þeirra vilja nota áfram svo lengi sem mögulegt er. Það eru þeirra hagsmunir, að þessar gömlu og úreltu verbúðir séu notaðar í lengstu lög, og þeir hafa þess vegna ekki áhuga á því, að byggðar séu þar nýjar verbúðir, nema sem minnst. Ég skal ekki segja, hve mikil brögð eru að þessu. En þetta dregur samt úr því, að hafnarstjórnir heima fyrir á hverjum stað leggi eins mikið kapp á að leysa þau vandræði, sem stafa af vöntun á verbúðum, eins og þær leggja kapp á framkvæmdir hafnarmála að öðru leyti. — Þetta allt dregur sem sagt úr því, að staðirnir heima fyrir hafi það frumkvæði í þessum málum, sem ætlazt er til með þessu frv., að ríkisstj. sjálf hafi. Og þess vegna koma hafnarl., sem hv. frsm. meiri hl. sjútvn. hefur vitnað í í þessu efni og rökst. dagskrártill. er byggð á, ekki að því gagni í þessu tilliti, sem hann vill vera láta.

Afstaða mín í n. byggist þess vegna á því, að ég álít, að það sé alveg nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir að hálfu ríkisvaldsins til þess að bæta úr þeim vandræðum, sem eru með verbúðir í hinum ýmsu veiðistöðvum og sem sennilega verða enn tilfinnanlegri fyrir næstu vetrarvertíð, vegna þess að bátum mun enn fjölga. Ég álít þess vegna fulla ástæðu til þess að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir. — Hins vegar hefur minni hl. sjútvn. orðið ásáttur um að flytja brtt. við 1. gr. frv., sem felur það í sér, að heimild til þess að reisa verbúðir sé ekki bundin aðeins við þær verstöðvar, þar sem bátar eru gerðir út á vetrarvertíð, eins og er í frv., og því síður að það sé bundið eingöngu við Faxaflóahafnirnar, eins og var í upphaflega frv., heldur sé þessi heimild almenn, þannig að ef hún á annað borð er veitt, megi nota hana í hverju því tilfelli, sem ríkisstj. teldi nauðsynlegt, án þess að það sé bundið við nokkur ákveðin landssvæði eða árstíma. Þó að verstöðvarnar séu að vísu líklega stórvirkastar hér við Faxaflóa, þá álít ég rétt, að þessi heimild nái einnig til annarra staða, ef ríkisstj. álítur þörf á að gera sérstakar ráðstafanir þar í þessu efni, eins og t.d. við Norðurland og Austurland eða hvar annars staðar sem væri, og á ég ekki sízt við Suðausturland, þar sem allmikil útgerð hefur verið á vetrarvertíð og verður meiri, ef hafnarskilyrði þar verða bætt, eins og ráðgert er og nokkur von er til, að framkvæmt verði. Hins vegar voru í frv. ákvæði til þess að heimila að taka leigunámi húsnæði, sem kynni að vera fyrir hendi á ýmsum stöðum, sem hagkvæmt væri til þessara nota, a.m.k. til bráðabirgða. Sú heimild var felld niður í meðferð málsins í Nd. Hins vegar mælir fiskifélagið með því, að hún sé tekin upp í frv., og ég álít, að full þörf sé á því og það sé rétt, að ríkisstj. hafi einnig þá heimild, ef til þess skyldi koma, að hagkvæmt væri að nota heimild til þess að taka húspláss leigunámi í þessu skyni. Er till. um það í brtt. okkar í minni hl. sjútvn., að þessari heimild verði bætt inn í frv. aftur.

Ég held, að það sé ekki fleira, sem ég sé ástæðu til að taka fram í þessu sambandi til rökstuðnings fyrir afstöðu minni hl. sjútvn. í þessu máli. Ég heyrði því miður ekki alla ræðu hv. frsm. meiri hl. n. En í því, sem ég heyrði af henni, fann ég ekki koma fram nein önnur rök fyrir afstöðu hans en að hann vitnaði til hinna almennu hafnarl. En ég álít, að ákvæði þeirra komi alls ekki að þeim notum í þessu sambandi, sem hann ætlast til, þ.e.a.s., að samkv. þeim sé ekki nægilegt frumkvæði til þess að bæta úr þessum skorti, sem frv. þetta miðar til að bæta úr og nauðsynlegt er að gera nú, — þetta frumkvæði sé ekki nægilegt í höndum ríkisins samkv. hafnarl. En úr þessum vandræðum er nauðsynlegt að bæta, til þess að landsmenn geti notað þann bátaflota, sem þeir ráða yfir nú og munu ráða yfir á næstu tímum: En það er vissulega frumskilyrði fyrir því, að bátaflotinn komi að gagni, að bætt hafnarskilyrði og viðleguskilyrði séu fyrir hendi, til þess að hægt sé að nota bátana. Og með samþykkt þessa frv. mundi verða auðveldara að bæta úr í þessu efni en annars yrði.