07.11.1946
Neðri deild: 12. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í C-deild Alþingistíðinda. (3877)

49. mál, almannatryggingar

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Með þessu frv., er hér liggur fyrir, er lagt til, að gerðar verði nokkrar breyt. á l. um almannatryggingar, er samþ. voru á síðasta aðalþingi. Helztu breyt. eru á ákvæðum l. um sjúkratryggingar og slysatryggingar. Það er nú þannig, að réttur til sjúkra- og slysabóta er mjög ójafn eftir búsetu og eftir því hvort viðkomandi aflar sér tekna í annarra þjónustu eða á annan hátt. Ég hef hér lagt til, að allir hafi sama rétt til sjúkra- og slysabóta, og fjalla 3.–10. gr. frv., að báðum meðtöldum, um þessi atriði. Þá er einnig lagt til í þessu frv., að fæðingarstyrkur, sem ákvæði eru um í 34. gr. l., verði jafnhár fyrir allar mæður, hvort sem þær vinna á heimilum sínum eða utan þeirra, en á honum er gerður munur í l. Einnig er lagt til í frv., að þeir vinnuveitendur, sem eingöngu hafa í þjónustu sinni börn sín, foreldra og systkini, greiði ekki atvinnurekendaiðgjald, en um það eru ákvæði í 112. og 113. gr. l. Tel ég sanngjarnt, að þau heimili, er séð er farborða eingöngu með fjölskylduvinnu, greiði ekki þetta iðgjald auk persónugjalda. Enn fremur legg ég til, að tryggingarnefndir, sem kjósa á í tryggingarumdæmunum, verði valdar með öðrum hætti en nú er ákveðið í l., en samkv. þeim eiga sveitarstjórnir að kjósa þessar n. í hverju umdæmi. Það hefur þegar komið í ljós, að þetta fyrirkomulag á vali þeirra skapar óþarfa fyrirhöfn, að kalla skuli þurfa saman marga tugi manna í hverju umdæmi til að kjósa þessar n. Ég tel einfaldara að fela sýslun. þetta. Ég held, að ég hafi þá drepið á aðalatriðin í þessu frv., og vísa að öðru leyti til grg. Þessi tryggingarl. eiga að mestu leyti að koma til framkvæmda um næstu áramót, og þá mun reynast þörf fleiri breyt. á þeim. En áður en þau koma til framkvæmda, tel ég mikla þörf á að gera þær breyt. eða lagfæringar, er þetta frv. fjallar um, og vænti ég, að þeim verði vel tekið. Að svo mæltu legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og félmn.