29.01.1947
Efri deild: 60. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í C-deild Alþingistíðinda. (3895)

143. mál, kvikmyndastofnun ríkisins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil benda hv. d. á, hvernig rökfærsla hv. flm. er í þessu máli, þegar hann segir, að ég hafi engin rök fært fram gegn frv., þó að ég hafi sýnt fram á, hvernig það kippir fótunum undan ýmsum bæjarfélögum fjárhagslega. Það sér hver heilvita maður, að skattarnir af kvikmyndahúsunum eru ekki lítils virði fyrir bæjar- og sveitarfélög. Hv. 3. landsk. sagði, að þessir skattar væru lítið atriði, nema ef til vill fyrir Reykjavík, en þó fræðir hann okkur á því á sama tíma, að þeir, sem reka kvikmyndahúsin, fari með hundruð þúsunda í gróða. Telur 3. landsk. þetta vera rök? Mér eru þá ekki kunn skattal., ef ekki er hægt að taka drjúgan skatt af slíkum gróða. Ég veit ekki betur en að skatturinn sé 90% af gróða, sem er yfir 200 þúsund. Nei, þessi þm. tekur engum rökum, heldur blaðrar í æsingi.

Ég geri ráð fyrir, að sá sorglegi kvikmyndahúsrekstur, sem átt hefur sér stað á Ísafirði á síðustu árum, sé nokkuð ofarlega í hugskoti þm. En þar rak einstaklingur kvikmyndahús áður, en svo tók verkalýðsfélag við rekstrinum með þeim afleiðingum, að síðan hafa aldrei verið sýndar nema ruslmyndir, en fjárhagsútkoman ekki betri en það, að bæjarsjóður á von á einum 15 þúsund kr. Það er þetta, sem stendur í heila þessa þm. Ég tel, að þessi reynsla hefði fremur átt að kenna honum að fullyrða ekki í ofstopa.

Í sambandi við 3. gr. frv., um skattfrelsi slíkrar stofnunar, vil ég geta þess, að slíkt leiðir í ógöngur. Það hefur verið farið nokkuð inn á þessa leið, að hafa ríkisstofnanir skattfrjálsar, en gefizt illa, því að bæjar- og sveitarfélög hafa ekki þolað það. Þetta hefur líka komið fram, þar sem um bæjarútgerð hefur verið að ræða. T.d. í Hafnarfirði var bæjarútgerðin útgjaldafrí til bæjarins, en bærinn þoldi ekki að tapa þannig 5 til 6 hundruð þúsundum af hverjum togara, ef miðað var við, að hann væri gerður út af einstaklingum, og hefur því verið horfið frá þessu ráði. Sömuleiðis er með síldarverksmiðjur ríkisins. Það þótti ekki annað mögulegt en láta þær greiða til þeirra bæjarfélaga, sem þær eru starfræktar í.

Hvers vegna skyldi líka hv. þm. hafa sett það ákvæði í frv. sitt um fiskiðjuver á Ísafirði, að það greiddi bæjarfélaginu skatt?

Það er ekkert þrifaverk að ræða við hv. þm., því að hann umsnýr öllu. Hann sagði, að ég vildi láta hætta að reka útvarpið sem ríkisstofnun. Þetta eru helber ósannindi. Ég sagði, að enda þótt útvarpið væri ríkisstofnun, hefði verið kvartað um hlutleysisbrot þess, og á sama hátt gæti farið með kvikmyndastofnun, sem rekin væri af því opinbera.

Ef farið yrði inn á þá leið, sem um ræðir í þessu frv., þá tel ég, að eins gæti komið til mála, að ríkið tæki að sér útgáfu allra bóka, en slíkt brýtur algerlega í bága við okkar lýðræðisstefnu. Ég tók það fram í byrjun, að ég mundi ekki fara mikið út í efnishlið þessa máls nú, taldi heppilegra að gera það við 2. umr. eða eftir að n. hefði fjallað eitthvað um málið. En hins vegar þótti mér full ástæða til þess að gera aths. við meðferð málsins nú þegar og þær aðdróttanir, sem komið hafa fram í garð einstakra manna, enda hefur þeim aths. ekki verið mótmælt, heldur hörfað undan og sumar aðdróttanirnar jafnvel bornar til baka eða flúið með þær úr landi til Ameríku.