08.05.1947
Efri deild: 128. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (3933)

91. mál, fiskiðjuver á Ísafirði

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Þetta frv. mælir svo fyrir, að ríkisstj. sé veitt heimild f.h. ríkissjóðs til að taka allt að 6 millj. kr. lán til að reisa fiskiðjuver á Ísafirði. Sjútvn. hefur athugað málið og rætt það og leitað umsagnar Landssambands íslenzkra útvegsmanna og nýbyggingarráðs, en hefur ekki fengið umsögn frá Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Hins vegar sendi nýbyggingarráð álit, sem birt er hér sem fskj. Fyrir þessu þingi liggur einnig frv. um fiskiðjuver ríkisins og annað frv. frá einstökum þm. um fiskiðjuver á Hornafirði. N. leit svo á, að þar sem ekki sé er.n þá séð fyrir, hvaða afgreiðslu frv. um fiskiðjuver ríkisins fær, þá sé ekki ástæða til að reisa fiskiðjuver á einstökum stöðum á kostnað ríkisins.

Nýbyggingarráð segir, að það geti ekki mælt með því, að frv. nái fram að ganga, og telur, að málið þurfi nánari rannsókn, og mælir gegn því, að einn staður sé tekinn út úr. En ef ríkið ákveður að reisa fiskiðjuver, þá kemur það til álita, hvar heppilegt sé að byggja. Nýbyggingarráð vill, að ef reist eru fiskiðjuver, þá sé það gert þar, sem vaxtarskilyrði séu fyrir hendi. Þetta er stefna nýbyggingarráðs, og væri horfið að henni, þá mælir nokkuð á móti Ísafirði, því að skilyrði þar eru ekki sérstaklega góð. Þetta leggur sjútvn. ekki dóm á, heldur bendir aðeins á það. N. lítur svo á, að rannsaka þurfi betur, hvaða fiskiðjuver skuli reisa, hvort það eigi að vera frystihús, saltfiskshús eða niðursuðuverksmiðjur, einnig að rannsakað sé, hvaða staðir eigi að ganga fyrir með slíka hluti, og einnig, að gerð sé sérstök athugun á því, hvort æskilegt sé, að ríkið hefði þessar framkvæmdir eingöngu eða félög og einstaklingar með aðstoð ríkisins, sbr. stofnlánadeild og fiskimálasjóð. Fyrr en þetta liggur fyrir og ákveðin stefna er mótuð í þessum málum, vill sjútvn. ekki leggja til, að teknir séu út úr sérstakir staðir. Aftur á móti leggur hún ekki dóm á, hvort Ísafjörður sé heppilegur til þessa, og tekur því ekki efnislega afstöðu til þess. Ég vil benda á, að við afgreiðslu fjárlaga, þá var heimilað að veita 3 millj. kr. lán til að aðstoða byggingu fiskiðjuvera fram yfir það, sem gert er ráð fyrir í lögum um stofnlánadeildina, en hún má lána með mjög hagkvæmum kjörum 60–70%, og með 22. gr. fjárl. er gert ráð fyrir, að veitt sé aðstoð um 10%, og má þá segja, að vel sé séð fyrir aðstoð hins opinbera. Með tilvísun til þessa leggur nefndin til, að málið sé afgreitt með svohljóðandi rökst. dagskrá. Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti athuga fyrir næsta reglulegt Alþingi; hvaða tegund fiskiðjuvera sé mest aðkallandi að reisa, og þá jafnframt, á hvaða stöðum á landinu, svo og, hvort nauðsynlegt sé, að ríkissjóður veiti til þess frekari stuðning en fyrir er mælt nú í gildandi lögum, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá. — Einn nm. skrifaði undir nál. með fyrirvara, hv. 6. landsk. Hann vill, að ríkið komi upp fiskiðjuverum, og mun hann sjálfsagt gera grein fyrir sínum fyrirvara. Það er ljóst, að hér er um svo víðtækt mál að ræða, að æskilegt er, að slík löggjöf væri borin upp fyrir tilstilli ríkisstj. og stefnan þá mörkuð í því frv., fremur enn að taka út úr einn einstakan stað eins og í þessu frv. Og ef farið yrði inn á þá leið, mundu aðrir staðir krefjast hins sama, svo að ríkið yrði að sjá hverjum stað fyrir fiskiðjuveri. Ég mun ekki ræða þetta efnislega, en vænti, að málið verði athugað nánar.