13.11.1946
Neðri deild: 16. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í C-deild Alþingistíðinda. (4081)

64. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Katrín Thoroddsen):

Herra forseti. — Í l. um tekjuskatt og eignarskatt er svo ákveðið, að tekjur hjóna skuli taldar fram og skattlagðar í einni heild. Þetta ákvæði og framkvæmd þess hefur verið þyrnir í sugum margra, enda er það bæði óeðlilegt og óréttlátt, að tekjur tveggja aðila, þótt nátengdir séu, skuli lagðar saman og skattlagðar í einu lagi, einkum vegna hækkandi skattstiga. Einkum hefur konum sviðið þetta sem óréttlæti, vegna þess að það hefur í för með sér skerðing á atvinnufrelsi þeirra og möguleikum þeirra til atvinnu, ef um giftar konur er að ræða, á þann hátt, að þeim er raunverulega gert að greiða hærri skatt en öðrum skattþegnum. Konum er því hvort tveggja í senn metnaðarmál og réttlætismál að fá þessu ákvæði breytt.

Eins og hv. þdm. muna, hefur hv. 4. þm. Reykv. lagt fram frv. um breyt. á skattal., sem fara mjög í þessa átt og voru hér til umr. í gær, og stendur þar ákvæði um, að 1. málsgr. 11. gr. laganna skuli orða svo (með leyfi hæstv. forseta): „Stundi gift kona atvinnu utan heimilis síns og hjá öðrum en manni sínum eða fyrirtæki, sem hann er meðeigandi að, skal skattur lagður á tekjur hvors hjónanna um sig.“ — Nú get ég í alla staði fallizt á þetta frv. hv. 4. þm. Reykv. En þó hef ég álitið réttara að halda áfram flutningi þessa frv., sem hér liggur nú fyrir, þó að hans frv. sé komið fram. Mér var ókunnugt um frv. hv. 4. þm. Reykv., þegar ég lagði mitt frv. fram. Og þetta frv., sem ég hef hér flutt, er heldur hógværara í kröfum og því líklegra til sigurs. En mér er, eins og öðrum konum, mjög hugleikið að fá þessa réttarbót fram. Hér er aðeins farið fram á heimild, þ.e. að giftri konu, sem stundar sjálfstæða atvinnu utan heimilis síns, sé heimilt að telja fram sérstaklega til skatts þær tekjur, sem hún hefur af þeirri atvinnu, er tekjurnar nema meiru en svarar til 1500 kr. grunnlauna, o.s.frv. Mér þótti ráðlegra að hafa þetta lágmark, vegna þess að það gat verið, að þeim rökum yrði beita gegn frv. að leggjast á móti því með þeirri forsendu, að mjög aukin framtöl á smátekjum — yrðu til þess að auka vinnu hjá skattstjórum og skattstofum, en jafnframt hefði það í för með sér nokkra tekjurýrnun fyrir ríkissjóð. En eins og kunnugt er, er skattstiginn tiltölulega lágur á litlum tekjum. En órétturinn er vitanlega sá sami í sambandi við litlar tekjur, hlutfallslega við tekjurnar. Hve miklu þessi tekjurýrnun nemur, sem verður hjá ríkissjóði, ef frv. verður samþ., get ég ekki sagt um. Hagskýrslurnar ná ekki lengra en til ársins 1940, og samkv. þeim voru það þá aðeins 1000 giftar konur, sem stunduðu atvinnu utan síns heimilis. En það hefur færzt mjög í vöxt síðan og er ávallt að í ærast í vöxt, að giftar konur stundi vinnu utan heimilis, ýmist af þörf eða áhuga á málum.

Eins og ég gat um áðan, gef ég eins vel fallizt á — og mér þykir það öllu æskilegra —, að frv. hv. 4. þm. Reykv., sem hann bar hér fram í gær, verði að l. En mér þykir samt vænlegra til sigurs að láta mitt frv. fara með til fjhn., og vil ég beina því til hæstv. forseta, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og þeirrar hv. n.