20.12.1946
Neðri deild: 43. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í C-deild Alþingistíðinda. (4234)

121. mál, jarðræktarlög

Flm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti. — Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frv., því að þm. er efni þess kunnara en skýra þurfi það fyrir þeim. Ég skal aðeins rifja upp aðalefni þess, og er það helzt, að gert er ráð fyrir, að jarðræktarstyrkurinn verði aukinn um allt að 100% til þeirra jarða, er aftur úr eru orðnar um jarðræktarframkvæmdir, og enn fremur til þeirra, er minnst land hafa. Það er höfuðnauðsyn, að allur heyfengur bænda sé fenginn af véltæku og ræktuðu landi, án þess er landbúnaðurinn í raun og veru dauðadæmdur. Þjóðfélagið og bændurnir verða á næstu árum að gera það, sem til þess dugar. Með aukinni notkun stórtækra vinnuvéla hefur að vísu skapazt betri aðstaða fyrir bændur en var fyrir stríð, en jarðræktarstyrkurinn er nú tiltölulega lægri en þá var, því uppbótin á styrkinn er aðeins vísitöluhækkun, en kaupgjald við landbúnaðarvinnu hefur 6-10-faldazt síðan fyrir stríð. Sést af þessu, að þeir, sem lítið geta komið við vélum og þurfa því mikið aðkeypt vinnuafl og eru orðnir aftur úr um framkvæmdir, eru mun verr staddir en fyrir 1939. En þeir, sem nota afkastamiklar vélar, geta nokkuð mætt hinum aukna vinnukostnaði. En eins og ég gat um áðan, þá er höfuðmarkmiðið að fá allan heyfenginn af ræktuðu og véltæku landi. Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að í lok þessarar umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.