13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í C-deild Alþingistíðinda. (4423)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Hv. 1. þm. Reykv. (PM) talaði um þetta mál út frá því sjónarmiði, að það ætti ekki að vera tilfinningamál, en ég sá þó ekki betur en það væri a.m.k. fyrir hann mikið tilfinningamál, því að ég hef sjaldan heyrt hann tala af meiri æsingi en um þetta mál. Hann talaði um, að þm. væru með glamur um þetta mál, en ég veit ekki, hvað glamur er, ef ræða hans var það ekki, þar sem hann fullyrti, að það væri almennur vilji bænda að skipta fénu milli búnaðarsambandanna, þegar hv. 1. þm. N–M. (PZ) hefur upplýst, að sérhvert búnaðarsamband nema 2 hefur gert samþykkt um, að það vilji ekki hafa löggjöfina eins og þar er nú ákveðið um skipting fjárins. Það er ekkert óeðlilegt, þegar bændum er sýnt slíkt ranglæti, er hið opinbera tekur fram fyrir hendur þeirra um ráðstöfun þeirra eigin fjár, þótt það verði þeim tilfinningamál, og ég efast um, að nokkurri stétt hafi verið auðsýnd önnur eins lítilsvirðing eins og hvernig meiri hl. hv. Alþ. fór með þetta mál. Hvers vegna mega bændur ekki ráðstafa þessu fé sínu, þegar nær öll búnaðarsamböndin hafa gert samþykkt um, hvernig því skuli ráðstafað? Bændurnir óska eftir því, að þeirra eigin samtök fái þetta fé, en hv. Alþ. hefur þvert ofan í samþykktir þeirra ákveðið, að búnaðarsamböndin taki við fénu og skipti því upp á þann hátt eins og gildandi l. nú ákveða. Það liggur kannske til grundvallar með. ferð þessa máls hér, að það er verið að reyna að sundra bændastéttinni í hagsmunamáli eins og þessu og senda peninga út í hin ýmsu byggðarlög í hlutfalli við afurðir hvers bónda. — Það verður að gera kröfu til þess, að hv. 1. þm. Reykv., fyrrv. landbrh., svari því, hvað hann hafi gert til þess að sjá um, að bændur úti á landi, sem sent hafa kjöt til Sláturfélags Suðurlands til sölu í Rvík, fái gjald af því í hlutfalli við framleiðsluna, sem renni í þau búnaðarsambönd, þar sem varan er framleidd, því að nóg er samt, þó að Sláturfélagið hér fái ekki gjald af vöru, sem ekki er framleidd í umdæmi þess. Sömuleiðis verður að gera kröfu til þess, að hann geri grein fyrir því, hvað hann hafi gert til þess að sjá um, að þeim gjöldum hafi verið skilað í rétt búnaðarsambönd, þegar t.d. bændur vestan úr Skagafirði hafa rekið fé sitt til Akureyrar. Það er ekki einasta nóg, að ákvæði l. séu ranglát, heldur er ekki hægt að framkvæma þau. Þau eru ranglát vegna þess, að þau ,félög, sem mest fá af fénu, eru venjulegast í umdæmum, þar sem mest er framleitt af þeim vörum, sem gjaldið er greitt af.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að ég hefði eytt helming ræðutíma míns við kosningaumr. í Strandasýslu í það að ráðast á hina nýju löggjöf um búnaðarráð og svo á búnaðarmálasjóð. Sannleikurinn í þessu er sá, að ég mun hafa minnzt á þetta mál, á einum eða tveimur fundum. Þá var nýafstaðinn fundur bænda í héraði, þar sem aðallega var rætt um þetta mál og ráðizt á þessa löggjöf. Ef hv. þm. vill fara að tala um kosningarnar, er sannleikurinn í því máli sá, að slík loforð voru þá gefin í umboði þessa hv. þm., þannig að látið var skína í það, að það þýddi ekkert að kjósa mann úr stjórnarandstöðunni, því að hann gæti ekkert gert, — svo mikill skriður yrði á stjórnarskútu fyrrv. ríkisstj. Það var loforðafleytan, sem stjórnarflokkarnir trúðu mest á fyrir síðustu kosningar, og þessi hv. þm. sendi menn út frá sér til að láta loforðafleytuna fara fnæsandi áfram, og það hafa aldrei á Íslandi verið gefin eins stórkostleg loforð og viðhöfð eins mikil loforðasvik og stjórnarsinnar höfðu í frammi fyrir síðustu kosningar. Ég lét þá skoðun í ljós einu sinni við útvarpsumr., að það liti út fyrir, að allur okkar gjaldeyrir yrði búinn á árinu 1947, en þá var það þessi sami hv. þm., sem sagði, að hann hefði aldrei heyrt aðrar eins ýkjur. Nú hefur okkur hins vegar verið skýrt frá því, að þegar sé búið að ávísa tugum millj. fram yfir það, sem við eigum fyrir, þegar þessi hv. þm. hrökklast frá völdum. Það voru loforðin, sem endalaust voru gefin, sem sköpuðu þennan falska sigur við síðustu kosningar, og ef fulltrúar fyrrv. ríkisstj. ættu nú að fara út í kjördæmin og standa reikningsskil á gefnum loforðum, er ég hræddur um, að upplitið á þeim yrði á annan veg en það var síðast liðið vor.

Ekki alls fyrir löngu flutti hv. 1. þm. Reykv. ræðu um það, hversu fjárhagur þjóðarinnar stæði með miklum blóma. Okkur er nú hins vegar vel ljóst, hvernig fjárhagurinn stendur, og að tugir millj. kr. eru yfirvofandi í ríkisútgjöld fyrir þetta ár, sem erfitt verður að afla. Álít ég það hreinasta glæfraspil gagnvart hinni nýju hæstv. ríkisstj. að skýra ekki frá því, hve hún tekur við miklum erfiðleikum í þessum málum. Þetta eru mál, sem þarf að ræða oftar og lengur, en ég hef hér drepið á þetta örfáum orðum, vegna þess að hv. þm. innleiddi umr. um það.

Sannleikurinn er sá, að meðferð þessa máls í sambandi við búnaðarmálasjóð og stéttarsamtök bænda er ekkert annað en smáskítlegheit þeirra,. sem vilja ekki, að stéttarsamband bænda eflist. Þeir vilja halda stéttinni sundraðri með því að þyrla upp ryki út af ýmsum aukaatriðum, þar sem reynt er að spila á lítilmótlegar tilfinningar bænda um fjármuni. Þetta kann þessum andstæðingum bændastéttarinnar að takast um stundarsakir, en það verður ekki langt þangað til bændur sjá í gegnum þetta mál, eins og loforð stjórnarsinna um síðustu kosningar, og að bændur finni, hverjir vinna fyrir þá og hverjir ekki.