13.03.1947
Efri deild: 93. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (4424)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, og finnst mér þær hafa töluvert snúizt um annað en það, sem er mergurinn málsins. Ýmsir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa rætt um það, hvort fé því, sem hér er um að ræða, mundi ekki vera eins vel varið af búnaðarsamböndunum úti í héruðum landsins eins og af Búnaðarfélaginu og stéttarsambandi bænda. Mér finnst þetta ekki vera mergurinn málsins, heldur hitt, hver á að ráða yfir þessu fé. Þegar l. um búnaðarmálasjóð voru sett, var það í þeim tilgangi gert, að bændastéttin fengi þar fé til sinna félagsmála, alveg á sama hátt og ýmsar aðrar stéttir afla sér fjár til félagsstarfsemi sinnar með tillögum meðlima þeirra, og það að l. voru sett um þetta á hv. Alþ., var eingöngu til þess að ríkisvaldið gerði bændastéttinni þann greiða að innheimta féð. Ástæðan fyrir því, að þessi leið var farin í stað þess að ákveða bein árstillög til félagssamtaka bænda, var sú, hve tekjur bænda eru með allt öðrum hætti en tekjur þeirra, sem vinna fyrir ákveðnu kaupi. Tekjur bænda eru yfirleitt sala afurða þeirra, og þess vegna þótti eðlilegra og hentugra að miða þetta hundraðsgjald við afurðasöluna en að hafa ákveðin fjárframlög. Ég skal engan dóm á það leggja, þótt ég telji það raunar víst, að bændasamböndin úti um byggðir landsins munu verja þessu fé vel, en bændastéttin á tvímælalaust siðferðislega kröfu á því að fá að ráðstafa þessu fé, eins og allar hinar stéttirnar. Það verður ekki gert nema með því, að Alþ. setji ekki neinar reglur um, hvernig fénu skuli varið, og að því leyti nær þetta frv., sem hér liggur fyrir, ekki því takmarki, sem í því ætti að vera. Það er ekki nema að hálfu leyti.

Helzt vildi ég, að hv. 1. þm. Reykv. (PM) yrði hér við og hlustaði á mál mitt, hæstv. forseti. Það er ekki mikið, sem ég ætla að segja.

Ég varð alveg undrandi, er ég hlustaði á ræðu hv. 1. þm. Reykv., er hann sagði þetta vera fjarstæðu í ræðu sinni, en slík ummæli af hans hendi eru aðeins sprottin af geðæsingu, ellegar málafærslumaðurinn hefur komið upp í hv. þm., því að þeir leggja sig fram í því að halda fram jafnt röngu máli sem réttara máli, ef þeim þurfa þykir. Og það er þá t.d. þetta, að þessi lög og lögin um búnaðarráð hefðu mælzt bezt fyrir allra þeirra l., sem sett hafa verið varðandi landbúnaðinn, og taldi hv. þm. ósigur Framsfl. í síðustu kosningum m.a. hafa stafað af því, að framsóknarmenn hefðu barizt gegn þessari löggjöf. Í síðustu kosningum féllu að vísu tveir þm.

Framsfl., en fyrir allt annað en stjórnarandstöðuna. Annar féll vegna þess, að andstöðuflokkarnir sameinuðust um frambjóðanda sósíalista og Sjálfstfl. lánaði sósíalistum atkv. og kom þar með frambjóðanda sínum á þing. Atkvæðamagn Framsfl. minnkaði samt lítið af þeim ástæðum, heldur vegna þess, að fólkinu fækkaði í sveitum landsins. Framsfl. tapaði fáum öðrum atkvæðum. Ég fullyrði nú, að í minni sveit, þar sem ég þekki vel til, mæltust þessi tvenn lög illa fyrir, og varðandi kosningarnar var það meira það, að atkvæði færðust til, en um atkvæðatap og kjörfylgistap væri að ræða. Nú er sagt, að bændur ráði því fé, sem áskotnast samkvæmt lögum þessum. Þetta er ekki rétt. Alþingi hefur ákveðið með lögum, hvernig fé þessu skuli varið. Bændur hafa ekki frelsi til þess að verja fénu sjálfir né stéttarsamtök þeirra. Ég tek það fram, að ef það er vilji bænda, að búnaðarsamböndin ráðstafi þessu fé, er þá ekki hægt fyrir stéttarsamband bænda og Búnaðarfélagið að taka við þessu fé og ráðstafa því svo aftur niður á búnaðarsamböndin, skipta fénu aftur á milli? En þótt búnaðarsamböndunum væri ljúft að ráðstafa fénu þannig, er þeim það ekki heimilt. Þetta gjald, sem er hluti af afurðaverði bænda, hefur verið skoðað sem hliðstætt ártillögum annarra félagssamtaka, og því vakti það furðu mína, að þm. þeir, sem telja sig fulltrúa launastéttanna hér á Alþ., skyldu samþykkja þessi lög. Ég verð að segja það, að ég er ekki ánægður með frv., þar sem helming fjárins er ráðstafað án tillits til þess, hvort bændur eru óánægðir með það eða ekki, og er þetta því aðeins miðlunarleið, og er að ástæðum, að bændur fái hér nokkurn rétt og að sættir yrðu með því að afgreiða málið sem hér er lagt til.