14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í C-deild Alþingistíðinda. (4428)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Pétur Magnússon:

Herra forseti. Það er ekki ætlan mín að þreyta kappræður um þetta mál, sem ég tel að vísu heldur veigalítið. Ég benti á það í ræðu minni í gær, að frv. þetta væri ekki til bóta frá núgildandi l. Lögin um búnaðarmálasjóð eru sett til framdráttar bændastéttinni, og ég sé ekki, að því fé, sem um er að ræða, verði betur varið til annars en láta það ganga til ræktunarframkvæmda, og ekki betur ráðstafað af öðrum en búnaðarsamböndunum. Ég held, að enginn hafi heldur haft á móti þessu í gær nema hv. þm. Str. (HermJ), sem æsti sig upp í hreinar eldhúsdagsumræður um þetta mál.

Það er aðeins fátt eitt, sem ég vildi benda hér á í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram. Hv. þm. N-M. gat þess, að nokkur annmarki gæti orðið á því, að hvert búnaðarsamband fengi þær tekjur, sem inn kæmu á sambandssvæðinu samkv. l., vegna þess að oft kæmi fyrir, að menn seldu afurðir sínar utan síns sambandssvæðis. Hann gaf þessu þann undarlega og annarlega svip, að það var eins og menn gerðu sér sérstakt far um að láta sitt eigið búnaðarsamband ekki njóta þessara tekna. Þetta er að mínu áliti alrangt hjá hv. þm. Ég sé ekki, að ekki sé hægt að komast fyrir uppruna varanna, því að það er á valdi þeirra félaga, sem vörurnar selja, því að vitanlega hafa þau það fullkomið bókhald, að auðvelt er að sjá, hvaðan varan kemur og hvað hún kostar. Í sannleika sagt sé ég ekki, að með þessu frv. sé sett undir þennan leka, ef hann þá á sér stað, því að það er ekkert auðveldara fyrir búnaðarþing að ákveða, til hvaða búnaðarsambands þetta á að renna, heldur en fyrir landbrh. sjálfan, því að hann getur fengið sömu gögn og búnaðarþing um þetta mál.

Þá vildi hv. þm. N-M. leiða rök að því, að það væri vilji bændanna, að fé þetta rynni til bændanna sjálfra, en ekki til búnaðarsambandanna, og benti hann á, að samþykktir hefðu komið frá búnaðarfélögum víða um land um það, að núgildandi l. um búnaðarmálasjóð yrði ekki breytt. Þetta mun vera rétt hjá honum, en það eru heldur veigalítil rök, því að þær samþykktir sýna naumast vilja bænda úti um land, því að þessar samþykktir hefur Framsfl. sjálfur beðið um, svo að þetta er áróður hans og ekki annað, og ég vil ekki ganga inn á það, að þessar samþykktir sýni vilja bændanna í þessu efni, fremur en úrslit alþingiskosninganna í vor. Nú vil ég ekki segja, — og það væri rangt að leggja þann skilning í orð mín, — að kosið hafi verið í vor um þessi mál, því að vitanlega voru það mörg fleiri og stærri mál, sem kosið var um. En hitt er vitað, að þessi mál, þ.e.a.s. lögin um búnaðarmálasjóð og búnaðarráð, áttu að vera eitt bitrasta vopnið í kosningabaráttu Framsóknar, en ég tel, að úrslit alþingiskosninganna hafi sýnt það ljóslega, hversu vel þetta vopn þeirra framsóknarmanna beit. Ég vil og geta þess, að langstærsta búnaðarsambandið á landinu, Búnaðarsamband Suðurlands, samþykkti með miklum meiri hl. áskorun um að láta l. þessi óbreytt frá því, sem þau eru nú.

Mér þykir rétt í þessu sambandi að víkja að því, sem hv. þm. Str. sagði viðvíkjandi þessu. Hann lagði sérstaka áherzlu á það, að það hafi ekki verið þessi mál varðandi landbúnaðinn, sem réðu úrslitum í kosningunum. Hann sagði, að það hefðu verið önnur mál, sem ofar voru á baugi og mér skildist, að hv. þm. Str. hefði talið, að hefðu haft áhrif á úrslit kosninganna í vor, — og mér skilst, að hafi þá líka haft áhrif á það, hversu atkvæðatala hans sjálfs lækkaði, — og það hefðu verið loforðin, sem stjórnin gaf um að koma upp hér í Reykjavík stóru hóteli fyrir útlendinga og sömuleiðis útvarpshöll. Þetta er nú heldur ólíklegt með síðara loforðið, því að þegar kosningar fóru fram í vor, þá var ríkisstj. búin að neita um fjárstyrk til útvarpshallarinnar. Um hitt málið, þ.e.a.s. útlendingahótelið, liggur ekkert sérstakt fyrir. Það er rétt, að samþykkt voru l. á síðasta Alþ. þetta varðandi. Það má hver trúa því, sem vill, að bændur á Ströndum hafi lagt meira upp úr l. um útlendingahótel og útvarpshöll en um búnaðarmálasjóð og búnaðarráð.

Hv. 1. þm. Eyf. lagði hina mestu áherzlu á það, að tilgangur þessarar löggjafar væri sá að stuðla að því, að stéttarsamtök bænda hefðu nægilegt starfsfé til þess að geta unnið að hagsmunamálum sínum. Ég hygg, að hv. þm. ætti að endurskoða þessa staðhæfingu sína, því að hann er svo vel að sér í þessum málum, að ef hann hugsar sig vel um, þá hlýtur hann að sjá villu sína, því að ekki var byrjað að ræða um stéttarsamtök bænda, þegar l. um búnaðarmálasjóð voru sett, svo að það getur ómögulega verið, að þessi l. hafi verið sett til þess að tryggja stéttarsamtökunum fé. Ég hygg, að bæði þessi hv. þm. og aðrir þm. ættu að viðurkenna það, að l. voru sett til þess að hjálpa landbúnaðinum fram á leið, og ef hann álítur, að tekin hafi verið röng stefna með þeim l., sem nú gilda, verður hann að finna rök fyrir því, að fénu verði betur varið en á þann hátt að gefa bændum tækifæri til þess að nota það í þágu ræktunarmálanna.

Ég gat þess í byrjun máls míns, að ég ætlaði mér ekki að taka upp eldhúsdagsumr. varðandi mál þetta. Gjaldeyrismálið er mál út af fyrir sig, og það gæti orðið efni í langa ræðu það, sem hv. þm. Str. sagði um það, og þær svívirðilegu blekkingar, sem hann og flokkur hans hefur haft í frammi viðvíkjandi því máli, — blekkingar, sem eru svo að segja einstæðar í íslenzkri stjórnmálasögu, og hefur hún þó víst ýmsa ófagra bletti á sér fyrir. En þessi reikningsaðferð, sem hann notar, að telja eytt öllum þeim gjaldeyri, sem verja á svo og svo langt fram í tímann til kaupa á skipum, sem ekki á að afhenda fyrr en eftir meira en ár, sem og tækjum, sem ekki er farið að verja fé til enn þá, en sleppa svo algerlega öllum þeim gjaldeyri, sem fæst fyrir þær vörur, sem á sama tíma liggja tilbúnar til útflutnings í landinu, — það er reikningsaðferð, sem ég tel, að tæpast nokkur stjórnmálaflokkur í víðri veröld mundi leyfa sér; annar en Framsfl. á Íslandi undir stjórn hv: þm. Str. Þetta eru svo einstæðar blekkingar, að það er varla orðum að þeim eyðandi.

Þá fór hv. þm. Str. að tala um það, að ríkisstj. hefði hrökklazt frá völdum þrátt fyrir það að hún hefði haft 4/5 hluta þings að baki sér. Ég hygg, að það sé ekki einsdæmi, að ríkisstj. sitji ekki út kjörtímabil, þó að hún hafi unnið við kosningar. Ég tel í sannleika sagt, að ekki hafi verið heppilegt fyrir hv. þm. Str. að rifja upp ástæðurnar fyrir því, að stjórnarskipti urðu á s.l. ári. Þeim til grundvallar lá mál, sem hann og flokkur hans tók þannig afstöðu til, að það mun vissulega ekki verða honum til sóma, fyrr né síðar, né prýði á stjórnmálaskildi hans.