14.03.1947
Efri deild: 94. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í C-deild Alþingistíðinda. (4430)

122. mál, búnaðarmálasjóður

Hermann Jónasson:

Það er nánast óþarft að gera frekari aths., þar sem hv. 1. þm. N-M. hefur tekið fram flest þau atriði, er ég hafði í huga að ræða, enda dylst engum, sem fylgzt hefur með þessum umr., að andmælendur frv. hafa engin rök fram að færa, og hafa ræður þeirra verið hraktar lið fyrir lið. Ég þarf því litlu við að bæta. En þeir þm., sem studdu fyrrv. ríkisstj., hafa gott af því að heyra, að gjaldeyrisleyfi eru nú ekki fáanleg í þjóðbankanum. Þau voru það hvorki í dag né í gær. Þetta er rétt, að komi hér fram, úr því að sumir menn vilja þræta fyrir það. Fyrrv. ríkisstj. tók við á 6. hundrað millj. gjaldeyris, en nú er allt búið, og þjóðbankinn neitar að veita gjaldeyrisleyfi. Samt eru enn þeir menn, sem segja, að enn þá sé til gjaldeyrir. Ja, lengi á blekkingastarfsemin að halda áfram. Hv. 1. þm. Reykv. (PM) sagði, að stj. hefði farið frá vegna flugvallarsamningsins. Þetta er blekking. Sá flokkur, sem fór úr stj. er samningurinn var samþ., gaf kost á sér til stjórnarmyndunar með Sjálfstfl. strax á eftir. En þeir flokkar þorðu bara ekki að horfast í augu við þær óvinsælu aðgerðir, sem nú er verið að gera og aðrar, er eiga eftir að koma fram á næstunni og eru afleiðingar af sukki síðustu stjórnar.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði og, að afstaða mín til flugvallarmálsins mundi verða mér til lítils sóma. Mér er nær að halda, að reynslan muni sýna hið gagnstæða. En hv. þm. hefur enga heimild til að segja annað eins og þetta um afstöðu mína til samningsins. En óstjórn hans er staðreynd, sem ekki fær dulizt.

Þá taldi þessi hv. þm., að ég hefði hafið eldhúsumr. í sambandi við þetta mál. En það var bara hann sjálfur, sem byrjaði, m.a. með að rekja úrslit síðustu kosninga. Ég gerði ekki annað en svara. Svo skal ég ekki misnota þennan athugasemdatíma og læt máli mínu lokið.