23.05.1947
Efri deild: 143. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (4481)

160. mál, vatnsveita Reykjavíkur

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í orðaskak um þetta mál. Ég tel, að það sé mikið hagsmunamál fyrir Reykjavík að fá þetta mál eða hitt samþ. En ég vildi segja nokkur orð út af því, að ég var einn þeirra, sem varð mér til skammar. Við, sem urðum okkur til, skammar, svo að notuð séu orð hæstv. ráðh., við treystum því, þegar hæstv. samgmrh. bar fram frv. um vatnsveitur, sem ráðh. í fyrrv. stjórn og núv. stjórn, að þá væri þetta frv. borið fram af brýnni þörf fyrir þorpin úti á landi, eins og hv. d. er kunnugt Þorp, þar sem eru fáar fasteignir, hafa ekki efni á að standa undir þeim kostnaði, sem vatnsveita hefur í för með sér. Mjög gott dæmi um þetta er Stykkishólmur. Í þessu frv. var ákveðið að veita ríkisábyrgð fyrir lánum til vatnsveitna og einnig styrk til þeirra. Málið var afgr. hér í þessari d., og í n. ákveðið að afnema styrkinn, en hafa aðeins ríkisábyrgð fyrir lánunum, en fara þó það varlega í sakirnar að hafa þau vaxtalaus í 10 ár, ef vatnsveitan getur ekki staðið undir kostnaðinum. Málið var síðan látið fara til Nd. Var nú fastlega búizt við því, að málið fengi afgreiðslu, og gengu þm. út frá því sem gefnu og voru búnir að tilkynna það heim í kjördæmi sín. Við vitum, að það er víða svo með atvinnuframkvæmdir í þorpunum, að þar verður ríkið að hlaupa undir bagga og leggja eitthvað af mörkum. Hér er því um mál að ræða, sem er lífsnauðsyn fyrir þorpin, að nái fram að ganga, ekki aðeins í heilbrigðislegu tilliti, heldur líka stórkostlegt atvinnuspursmál, m.ö.o. undir. stöðuatriði fyrir þorpin. Í því frv. er bæði þorpunum og Reykjavík fullnægt. Svo kemur það í ljós, þegar málið er komið aftur til Nd., að málið er stöðvað, og það er talið, að ríkisstj. sé völd að því. Nú spyr ég: Ef þetta er ekki misnotkun stj. á valdi sínu, að koma í veg fyrir afgreiðslu þessa máls, er þá hitt misbeiting á valdi, ef við þm. stöðvum mál, jafnvel þó að það væri gert til hlítar? Ég vildi með atkv. mínu í nótt aðeins mótmæla þessari meðferð á máli, og það er eins og þegar verkalýðsfélög gera sólarhrings verkfall gegn slæmum vinnubrögðum. Við höfum. með þessu sýnt vald d. og undirstrikað, að við erum óánægðir með þessi vinnubrögð. En ég vil ekki stöðva málið, en neitun afbrigða er ekki röng aðferð, þegar svona er unnið, og það getur ekki verið komin sú stífni í þetta mál, að ekki sé hægt að greiða fram úr því. Ég greiddi því óhikað atkv. með afbrigðunum nú, þótt það liggi ekki. fyrir, að málið verði afgr., en mér finnst nú eðlilegt að ríkisstj. láti sér þessa framkomu okkar að kenningu verða. Þegar svo þessi málarekstur er athugaður, hygg ég, að hæstv. dómsmrh. hljóti að viðurkenna það, a.m.k. með sjálfum sér, að við höfum ekki orðið okkur til skammar, þó að við neituðum um afbrigði í nótt. Ég hefði ekki tekið til máls, hefði hæstv. ráðh. ekki viðhaft svo stór orð sem hann gerði. En þetta eru hlutir, sem þm. geta gert, þegar þeir eru óánægðir.