13.12.1946
Sameinað þing: 18. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í D-deild Alþingistíðinda. (4580)

16. mál, dýralíf í Hvammsfirði, Nýpsfirði og Nýps

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjvn., sem fékk þetta mál til meðferðar, sendi atvinnudeild háskólans til umsagnar till. hv. þm. Dal. um rannsókn á dýralífi í Hvammsfirði, og jafnframt sendi n. atvinnudeildinni til umsagnar brtt. þm. N-M. um sams konar rannsókn á dýralífi í Nýpsfirði og Nýpslónum í Vopnafirði. Eftir að n. hafði fengið umsögn atvinnudeildarinnar, ákvað hún að leggja til, að málið yrði afgr. á þann hátt, sem fyrir liggur í nál. á þskj. 199. Þess ber þó að geta, að tveir af nm., 6. og 8. landsk., hafa skrifað undir nál. með fyrirvara. Í till. n. er gert ráð fyrir því, að ríkisstj. í samráði við fiskideild atvinnudeildar háskólans og fiskimálan., láti fara fram rannsókn á dýralífi í Hvammsfirði, Nýpsfirði og Nýpslónum til þess að fá úr því skorið, hvort þessir staðir eru heppilegir til fiskiræktar. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að kostnaður af þessum rannsóknum verði borinn uppi að hálfu úr fiskimálasjóði og að hálfu af fiskideild atvinnudeildar háskólans.

Það er vafalaust eitt af verkefnum væntanlegra fiskirannsókna að athuga firði landsins með tilliti til ræktunar þeirra nytjafiska, sem þar eru, og eins með tilliti til rannsókna á því óæðra dýralífi, sem þessir firðir hafa að geyma og hlýtur að verða undirstaða undir tilveru nytjafiskanna. Við höfum því gert ráð fyrir, að þessi till. fjvn. verði afgreidd á þann hátt, sem hún leggur hér til, enda hefur hæstv. Alþ. áður afgr. svipaða þál. um rannsókn á dýralífi í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu.

Ég leyfi mér því fyrir hönd fjvn. að vænta þess, að hæstv. Alþ. afgreiði þetta mál, eins og það liggur nú fyrir af hendi n.