22.01.1947
Sameinað þing: 24. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (4619)

123. mál, flutningur íslenzskra afurða með íslenskum skipum

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég tel mig hafa ástæðu til að þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu hennar á málinu, og ég er á engan hátt óánægður með þá orðalagsbreyt., sem hún vill gera, þar eð sú breyt. fer í sömu átt og minn skilningur. Að því leyti sem hv. frsm. virtist í vafa um, hvað fyrir mér vekti með þessari till., þá svaraði hann sér raunverulega sjálfur varðandi þau áhrif, sem ríkisstj. getur haft á þessi flutningamál. Hann sagði réttilega, að ríkið hefði verið og væri sjálft stór aðili að flutningunum, og þegar það bætist nú við, að ríkið hefur meginið af útveginum á sinni könnu, þótt það standi væntanlega ekki lengi, þá sést glöggt, að ríkisstj. getur haft meiri áhrif á flutninga til og frá landinu en áður hefur verið. Nú eru að koma hingað ný skip, sem eimskipafélagið, kaupfélögin og fleiri eiga, og af minni hálfu er það ætlunin með þessari till., að þessi skip sitji fyrir flutningum. Hitt er svo annað mál, að Íslendingar verða að vera samkeppnisfærir við aðrar þjóðir á sviði siglinga, þótt ríkisvaldið stuðli að því, að íslenzkar vörur og afurðir verði fluttar með íslenzkum skipum. Að verða samkeppnisfær á því sviði og öðrum varðar glímuna við dýrtíðina, og hún verður að leysast á öðrum vettvangi.