13.02.1947
Sameinað þing: 29. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (4746)

171. mál, eftirlit með verksmiðjum og vélum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Fyrir Alþ. liggur nú frv. að miklum lagabálki um eftirlit með skipum, og hefur sjútvn. Ed. með það að gera. Ég mun bera þar fram sérstakar brtt. þess efnis, að það eftirlit, sem hér um ræðir, verði sameinað skipaeftirlitinu, og verður það jafnframt tekið til athugunar, hvaða nauðsynlegar breyt. þurfi að gera í þessu efni. Ég tel, að þessi mál séu svo skyld, að þau eigi að vera undir einu og sömu stofnuninni og með því sé einnig sparað mikið fé að hafa það svo og einnig betra eftirlit með því að hafa slíkt ekki í tvennu lagi.

Um þau ummæli, sem komu fram í grg. um vanrækslu á eftirliti á vélum úr hófi fram, skal ég ekki ræða hér. Það eru nokkuð þung orð í garð stofnunarinnar, sem hún mun sennilega svara fyrir. En ég ber það traust til þess ráðh., sem með þessi mál fer, að hann láti athuga fljótt, hvort þessi orð eru á rökum byggð, og láti bæta úr því, ef þörf krefur.

Ég mun fylgja þessari þáltill. til n., en mér þykir eðlilegt, að sú hv. n., sem sennilega verður allshn., hafi samvinnu við sjútvn. Ed., ef ske kynni, að samkomulag gæti orðið um að sameina þessar tvær stofnanir.