10.01.1947
Sameinað þing: 22. fundur, 66. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í D-deild Alþingistíðinda. (4870)

22. mál, ullarkaup ríkissjóðs

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Það er að heyra, að hv. þm. Borgf. hafi annaðhvort ekki heyrt það, sem ég sagði áðan, eða þá algerlega misskilið það. Ég sagði, að verið væri að gera tilraunir til að selja þá ull, sem til væri, alls ekki þannig, að verið sé að leita að verði yfir venjulegt heimsmarkaðsverð, eins og hv. þm. virðist hafa skilið orð mín. Það er búið að gera margar tilraunir til að fá yfir markaðsverð, en nú þykir sýnt, að það muni ekki takast á meira magni en orðið er. Mín skoðun er því sú, að nú eigi að selja ullina fyrir eðlilegt heimsmarkaðsverð. Annað er of mikil áhætta. Það leiðir auðvitað af sér, að ríkissjóður verður að bera hallann, þ.e. mismuninn á því verði, sem fæst fyrir ullina, og því, sem bændum hefur verið tryggt með l. N. telur þennan halla vera 1 millj. og 500 þús. kr., en ég geri ráð fyrir, að hann verði allmiklu meiri. En við því er ekkert að segja. Ríkissjóður hefur tekið á sig þessa ábyrgð, og skiptir því mestu máli, að það verð fáist fyrir ullina, að tap ríkissjóðs verði eins lítið og mögulegt er. Það heppnaðist að vísu að spara ríkissjóði milljónir með því að selja ekki neina ull frá 1943, 1944 og 1945 fyrr en á síðasta ári, en hins vegar tel ég það of mikla bjartsýni að geyma lengur að selja það, sem nú er til, svo framarlega sem markaður er til staðar.

Það er ekki ástæða til að þrátta um, hvaða sanngirniskröfu bændur hafi í þessu efni. Þm. Borgf. slær því föstu, að bændur eigi fullan rétt á því, að ríkissjóður kaupi alla þá ull, sem nú er til, og gjaldi bændum hið ákveðna verð. Ég held, að ekkert ákvæði í l. fjalli um þetta, og ég efast um lagalega skyldu. Hitt er rétt, að ríkissjóði ber að standa skil á vissu verði fyrir ullina samkv. l., en þar er enginn ákveðinn tími afmarkaður. Um það, hvaða sanngirni mælir með því, að ríkissjóður hlaupi hér undir baggann með lántöku, það fer eftir því, hvað þörfin er rík. Ég hygg, að hjá öllum þorra bænda skipti þetta ekki miklu máli, þar sem víða mátti sjá fé í ull fram undir réttir í haust. Þm. Borgf. vill svo mjög styðjast við l. nr. 58 frá 1945, en ég vil vekja athygli á því, að það eru engin sérákvæði um ullina, sem framleidd er 1945, heldur aðeins talað um að verðbæta alla ull, sem tilbúin er 15. sept. þ. á., og má gera ráð fyrir, að ullin 1945 hafi alls ekki verið tilbúin 15. sept. Þó að það þyki sjálfsagt, að ríkissjóður verðbæti þessa ull líka, þá þykir mér rétt að benda á þetta.

Ég vil halda því fram, að það skipti ullarframleiðendur ekki miklu máli, hvort ullin verður greidd nú eða síðar á árinu, og tel ekki rétt að íþyngja ríkissjóði um of með miklum kröfum, heldur verði sýnd lipurð nú fyrst um sinn til þess að sjá, hvernig þessi mál skipast.